föstudagur, maí 28

Sumarvinna
Í þá gömlu góðu daga þegar maður var enn saklaus einstaklingur sem gekk í grunnskóla eyddi maður sumrinu í að leika sér úti,passa börn og halda tombólur og hafði virkilega gaman af.
Svo kom sú tíð að saklausa barnið þroskaðist og fór í gagnfræðaskóla, og þá var maður ekki lengur lítið saklaust barn, heldur ógnvekjandi og stórhætturlegur unglingur á gelgjuskeiði. Þá þótti ekki lengur hip og kúl að passa börn og bora í nefið, heldur var sagt við mann að nú þyrfti maður sko að sanna sig sem einstaklingur og fara í Unglingavinnu Bessastaðarhrepps, (einnig þekkt undir nafninu Herbúðir Hrannar).

Síðustu 4 ár hef ég unnið í þessum öguðu herbúðum, og þótt ágætt enda oftast eytt sumrinu í beðum, reytandi arfa í góðra vina hópi.
En nú í sumar varð breyting á.

Ég mætti að morgni þriðjudags um 8-leytið og sá fram á afslappað og skemmtilegt sumar með vinum og kunningjum, en sá draumur var skyndilega á bak og burt þegar tilkynnt var hverjir yrðu saman í hóp yfir sumarið.
Ég sat á bekk og horfi á vini mína fara hver á fætur öðrum í sína hópa, og beið eftir kalli Herforingjans. Loks var nafn mitt lesið upp, vitlaust eftirnafn, en þó nafn mitt.
Ég gekk í lið mitt, og virti fyrir mér liðsmenn. Skyndilega lá það ljóst fyrir; ég var eigi í hópi með mínum yndislegu vinum, heldur var ég sett í lið með ókunnugu fólki.

Eftir um hálftíma grátur innra með mér ákvað ég að sætta mig við hlutskipti mitt og sá fram á sumar vinnusemi og duglegheita. Stuttu eftir að ég hafði rakað burt allt gras sem til var í hreppnum sá ég hvar systir mín gekk til liðsforingjans, tók hrífu í hönd og spjallaði örlítið við liðsmennina.
Hversu frábært gat þetta orðið, hugsaði ég með mér.
Nú sá ég fram á sumar rifrilda og leiðinda, enda erum við systur ekki þekktar fyrir ást í garð hvor annarar enda frekar ólíkir persónuleikar.

Þar sem ég stóð, rakandi ímyndað gras tók ég að hlusta á samræður liðsmanna minna, sem flestar snérust um kærasta, hálf-kærasta og viðhöld. Þegar ein stúlka spurði mig hvort ég vildi nú ekki blanda geði við hana og vinkonur hennar og ég ákvað að slá til.
Hægt og býtandi dróg ég mig úr samræðunum þegar ég áttaði mig á því að þær höfðu eytt síðasta hálftímanum í að ræða um hvaða maskari væri í raun og veru sá besti.

Nú sé ég fram á sumar einveru, allavega hef ég eytt síðustu 2 dögum í samræðuR við sjálfa mig og hrífuna mína, sem nefnist Magnús.

Góðar stundir

Engin ummæli: