föstudagur, júní 9

Örlögum storkað

Þar sem ég stóð, annan daginn minn í vinnu þetta sumarið, við rakstur flýgur saklaus býfluga fram hjá mér sem verður til þess að undirrituð fær vægt hjartaáfall og hendir hrífunni frá sér og leitar skjóls undir burðarvegg eins og henni var kennt.
Reyndar skal maður leita skjóls undir burðarvegg ef jarðskjálfi, snjóflóð eða annars slags nátturuhamfarir eiga sér stað....en vegna óstjórnlegrar hræðslu hennar við býflugur..sá hún ekkert annað í stöðunni.

Hrífan fyrrnefnda lenti öfug í grasinu, þannig að tennurnar snéru upp til himins.

Ég rifjaði upp þjóðsöguna sem móðir mín sagði mér einu sinni að hrífa mætti aldrei snúa öfug á grasi því þá væri von á rigningu. Ég tók mig til og ætlaði að sækja hrífuna til að geta haldið áfram vinnu minni...en datt þá í hug að storka örlögunum eilítið.

Ég sótti mér aðra hrífu og hélt mig í nálægð við örlagavaldinn, hrífuna sem snéri upp í loftið.

Ég leit á hrífuna og himininn til skiptis í þeirri von um að eitthvað myndi gerast...en ekkert bólaði á rigningu.

Lagið Rescue Me glumdi í eyrunum og viðeigandi rassadill hófst með nokkrum laufléttum danssporum sem tekin voru í dans101 hjá Palla í vetur.
Annað gott lag kom í Ipodinum góða, Waterloo með Abba og þá hófst dillið fyrir alvöru. Ég hrúgaði grasi saman í takt við tónlistina og ætlaði að taka eitt vakurt vinstrahopp en ekki vill betur til en svo, að ég lendi með löppina á hrífu örlaganna og áður en ég veit af fékk ég skaftið beint í augað!

Nú sit ég hér með dúndrandi verk í hægra auganu, og er ekki frá því að ég hafði séð einn eða tvo rigningardropa falla af himninum fyrir skömmu.

Þetta kennir manni aldeilis að storka ekki örlögunum!

www.hrebbna.tk
-og örlögin-

Engin ummæli: