þriðjudagur, desember 30

Nú árið er liðið í aldanna skaut
..eða næstum því.

Ég fór að hugsa í gær hvað árið 2003 hefur verið rosalega gott, og vil ég nú síst af öllu að það endi.

Hér verða upp talin nokkur atriði sem undirrituð hefur afrekað á árinu.

Afrek ársins:

Rocky Horror

Ég er án efa stoltust af Rocky Horror batteríinu.
Leikritið var sýnt í FG og atriði úr leikritinu voru sýnd á hinum ýmsu uppákomum, í sjónvarpi, á Listahátíð í Garðabæ og á Broadway.
Gefinn var út geisladiskur þar sem undirrituð söng í 4 lögum, leikskrá og nærbuxur tileinkaðar leikritinu.

Bílpróf:

Jú, yfirvöld leyfðu hinni hættulegu hrebbnu að taka bílpróf eftir endalausar umræður á alþingi.
Í framhaldinu var einnig keypt sjálfrennireið sem reyndist heita Margeir.

Kjör í listanefnd nffg:

Eftir mikla baráttu skyttanna þriggja(elísa h., elísa og ég) í kosningabaráttunni náðu aðeins tvær kjöri, ég og elísa h.
Mikill sigur fyrir nörda nær og fjær að komast inn i þotulið nffg.

2.sæti í hæfileikakeppni fg:

Undirrituð, ásamt Bryndísi og Elísu H. varð í öðru sæti í forkeppni á vegum fg fyrir hæfileikakeppni framhaldsskólanna. Tekið var atriði úr hinni víðfrægu þöglu mynd fyrirtækissins æ.sæ.fi.co. (æslandikk sælent móví film corperasion) við mikinn fögnuð áhorfenda.

2.sæti í Leiktu Betur:

Eins og oft hefur komið fram varð lið fg í öðru sæti þar sem undirrituð fyllti fyrirliðasætið af einstakri snilld. Liðið tapaði sanngjarnlega á móti snilldarliði MH.

Þar með eru taldir upp sigrar ársins 2003, en mikils er að vænta árið 2004.
Væntanlegt er:
Ný byrjun í nýjum skóla
Nýtt leikrit,nýtt hlutverk,nýr geisladiskur
1.árs bloggafmæli
..og margt fleira skemmtilegt.

Ég vil kæru lesendur þakka fyrir árið sem er að líða og vona að það nýja verði jafn frábært og 2003.

Með áramóta og nýárskveðju:
Hrebbna

mánudagur, desember 29

Skrifað í snjóinn
Ég blogga hér í beinni úr snjóhúsinu sem mér tókst að byggja í morgun.
Mér varð ljóst að ég kæmist ekki aftur inn í steinhús mitt eftir heiðarlega tilraun til þess að komast til vinnu á litla fólksbílnum mínum, og ákvað ég að byggja mér snjóhús meðan ég biði.
Björgunarsveitarmeðlimir hafa ekki enn svarað morsskeytum mínum sem ég sendi með því að spila á forláta munnhörpu sem ég fann á botninum í veskinu mínu, ásamt varalit sem ég kannast ekki við að eiga.
Í handhæga vasaútvarpinu sem ég fékk frá löngu gleymdum ættingja hef ég fregnir af því að bílar séu fastir hér og hvar, í innkeyrslum sem og á vegum úti.
Ætli einhver finni mig áður en ég drukkna í eigin hori?
Endilega lítið við í snjóhúsinu sem staðsett er einhversstaðar milli heims og helju.
En verið varkár, ekki banka of fast því húsið gæti hrunið!

Kaffi á könnunni
Hrebbna

föstudagur, desember 26

Af jólaglöggum
Já, þetta voru nú aldeilis gleðileg jól.

Dagurinn byrjaði á léttri vinnu til 14, og svo var haldið heim þar sem manni var hent undir kalda sturtu, sökum þreytu og greiddur og klæddur í fermingargallann. Síðan var mér tilkynnt hátíðlega að þetta væri eina árið sem mér hefði ekki borist eitt einasta jólakort. Og hvað með það sagði ég nú bara.

Farið var með pakka til krakka sem hoppuðu og skoppðu, uppfull af spenningi og tekið var á móti pökkum frá foreldrum barnanna sem voru komið með hausverk og báðu þess heitast að klukkan færi nú að slá sex svo að börnin mundu setjast niður stillt og prúð og vera hljóð í örstutta stund.

Eftir öll þessi ósköp kom ég heim, og var þess vör að hvítur bleðill stóð hálfur út og hálfur inn í bréfalúgunni. Mér varð hugsað það þetta væri líklegast enn eitt jólakortið til systur minnar, en viti menn á því stóð "Hrefna".
Jólakort þetta var frá konungi selfoss, Steina.
En ég er samt alveg viss um að öll jólakort sem áttu að berast til mín hafi borist til tveggja alnafna minna, eða að jólapósturinn hafi komist í sterkt jólaglögg móður minnar sem borið var á borð á þorláksmessu í stíl við kæsta skötuilminn, og villst með póstinn í næsta hús.

Er klukkan sló sex færðist friður yfir göturnar og steikt svínið var borið á borð ásamt fríðu föruneyti meðlætis.
Þegar heimilisfólk hafði étið yfir sig var ákveðið að nú skyldi opna pakkana.
Það sem ástkærir ættingjar gáfu mér var m.a:kápa,föt,nokkur af helstu verkum Shakespears,forláta dvd mynddiskur,tveir geisladiskar og geislaspilari.

Geislaspilari þessi á að vera mp3 spilari í senn, en reyndar hef ég ekki fundið út hvernig hann virkar og af hverju spilarinn neitar að spila hvern einn og einasta disk sem ég á. Kannski er það af því hann er frá U.S.A?

En nóg um jólagjafir og kort í bili, hvernig voru ykkar jól kæru lesendur?

miðvikudagur, desember 24

Jólin koma
Kæru lesendur.
Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið hafið það gott á sjálfan aðfangadaginn.


Ég vil benda þeim á sem ekki enn hafa fundið jólaandann að hann finnst á botninum á dýrasta kampavíninu í ÁTVR.

laugardagur, desember 20

Grín í skammdeginu
Alveg síðan að ég var einungis fóstur í móðurkviði hefur mig langað til að prófa að vinna við að tala í kallkerfi, svona eins og eru í verslunum hagkaupa og á fleiri stöðum.
Dæmi:,,Aron,Aron, Þú ert vinsamlegast beðinn um að hafa samband við þjónustuborð"
Þar sem ég vinn nú í verslun Hagkaupa í Kringlununni hljóma fögur orð stúlkunnar sem vinnur við kallkerfið ótt og títt í eyrum mér yfir

Mikil ósköp væri það kómískt ef "uppkallarinn" væri skrollmæltur, eða hefði "texas" hreim, það væri nú tilbreyting, ikke?

Ef að ég ´hlýt einhverntímann þann heiður að vera "uppkallari" langar mig að breyta örlítið til, og máské breyta í sífellu um rödd, eða koma með klassíska brandara; "Bolli,Bolli, þú ert vinsamlegast beðinn um að koma inn í búsáhaldadeild", eða "Sigríður, Sigríður, þú ert vinsamlegast beðin um að koma inn í upplýsingar að sækja BrandAra"
Í framhaldi af þessu mundi ég í sífellu stama, og gera mér upp taugaveiklun, lesa orðin afturábak og fleira.

Ég bið ykku, kæru lesendur að bíða spennt, því stundin mun koma.

Fylgist með á www.hrebbna.tk

Þangað til næst

mánudagur, desember 15

Af almenningi,heimsku og hneykslum
Kæru grúbbumeðlimir.
Ég biðst afsökunar á því að fullunninn listi hafi ekki enn verið birtur og mun sennilega ekki birtast fyrr en að nokkrum dögum liðnum.
Gott meðal við spennu af völdum þessa er að fá sér eitt vatnsglas, (drekkist standandi á höndum í gegnum nefið)


Kæru lesendur.
Ég vil biðja ykkur að fylgja mér í bæn og biðja fyrir öllu heimska fólkinu sem býr á Íslandi í dag,
Í gær í vinnunni (kringlan) kom til mín kona þar sem ég stóð í dömudeildinni að vinna.
Kona þessi ber upp spurningu:

Atburður:Skandall
Staður:Kringlan
Stund:um kl 14:00

"Fyrirgefðu fröken, ekki gætiru mátað þessa peysu fyrir mig, þú ert nefnilega álíka feit og dóttir mín?

Ég átti ekki til aukatekið orð. Að segja þetta við mann svona beint í fésið.
Nú er ég frekar meðvituð um að ég er ekki bara skinn og bein, en common, að kalla mann feita!

Nú drekk ég aðeins munnvatn mitt og borða kuðlaða post-it miða.

miðvikudagur, desember 10

Uppgjör
Akademia Grúbbunnar(Kristín og Elísa Hildur) hafa setið sveittar undanfarna daga. Helstu ástæður má máské rekja til prófundirbúnings en fréttamenn www.hrebbna.tk fóru á stúfana fyrir stuttu og komust að hinu sanna.
Þær stöllur hafa verið að útnefna nokkrar af stelpunum sem sitja í hinu nýja horni skólans (eftir að hið gamla var hertekið) sem ljósku ársins,hneyksli ársins,jólabarn ársins, íþróttafrík ársins, ofl ofl og fannst stjórnanda þessarar síðu internetið fátækara ef þessi listi yrði ekki birtur hér.
Listinn verður birtur í heild sinni á laugardaginn þar sem samkoma akaedemiunnar verður á föstudaginn næstkomandi.


Jólabarn ársins:
1.sæti:Án efa Lísa fyrir að koma með "söppræs" litlu jól síðasta skóladaginn
2.sæti:Elísa A. fyrir að gera hornið okkar jóló með endalausum myndum af snjóköllum og ect.
3.sæti: Halla fyrir að koma með "handhæga" ferðageislaspilarann svo við gætum spilað jólalög.

Íþróttafrík ársins:
1.2 og 3.sæti: Kristín Eva. Hver annar í grúbbunni á "nike" hárteygju?
Ljóska ársins:
1. sæti: Er án efa Steinunn. Quote:"Glasabörn fæðast í glösum, er það ekki?"
2-3.sæti:verður haldið leyndu, mikil samkeppni virðist vera um sætin tvö.

Hneyksli ársins:
1.sæti: ?Hrebbna fyrir að þekkja ekki muninn á Jimi Hendrix og Bob Marley(segjist vera með frægt-fólk-blindu)
2.sæti: Steinunn fyrir að halda að glasabörn fæðist í glasi.
3.sæti: Hrebbna fyrir að vita ekki hvað "FUTURAMA" var.

Eins og áður var sagt mun tæmandi listi birtast á laugardag að öllum líkindum

þriðjudagur, desember 9

GSMblogg prufa
Nú er sem sagt hægt að blogga með farsímanum sínum hvar sem maður er staddur. Kannski maður fari bara að blogga í gegnum gemsann.
Áhugavert, ikke?

mánudagur, desember 8

Dagar taldir

Þegar ég var yngri var fastur liður í desember að horfa á jóladagatal sjónvarpsins. Jóladagatalið vakti gleði hjá undirritaðri og stytti án efa biðina í stóra daginn.

Hver man ekki eftir jóladagatölum eins og Á baðkari til Betlehem(1990), Tveir á báti(1992) og Blámann(Stjörnustrákur)(1991)?

Á hverju ári, til ársins 1998 að ég held var búið til nýtt og spennandi jóladagatal, en undanfarin ár hafa nokkur af fyrri jóladagatölum verið endursýnd og jafnvel endurendursýnd.

Nú er svo komið að ég nenni ekki lengur að horfa eða jafnvel hugsa um jóladagatal sjónvarpsins vegna þess að mér finnst ég alltaf vera að horfa á þau sömu, smb. Klæng Sniðuga og fl.

Ég sit í stað uppi með súkkalaðijóladagatal og dagarnir eru lengi að líða til jóla.

fimmtudagur, desember 4

Heilabrjótur
Ef guð á að hafa skapað heiminn, hver skapaði þá guð?

miðvikudagur, desember 3

Gleymd list
Upp á síðkastið hef ég tekið meira og meira eftir því hvað fimmaurabrandarar eiga undir mikið högg að sækja.
Þetta er alveg gleymd brandaralist og vil ég biðja alla þá sem vettlingi geta valdið að ganga hér og nú í fimmaurabrandara-verndarafélagið
Hver man ekki eftir hinum glæsta brandara: "allar stelpurnar voru með brjóst, nema Lena, hún var með spena " og fleiri gullmola úr safni fimmaurabrandara.
Ég hvet einnig alla þá sem luma á einhverjum brandara að skrifa þá í commentin og jafnvel í framhaldi af því gæti ég í jólafríinu komið með fimmaurabrandara dagsins og svona.. hvernig væri það?

mánudagur, desember 1

Af leikhúsferðum

Samkvæmt nýjustu talningu hef ég aldrei farið jafn oft í leikhús á einum mánuði og í nóvember, ef sýningatímabil Rocky Horror er ekki talið með.
Í nóvember fór ég að sjá; Common Nonsense, Ríkharð 3ja og Kvecth.
Og, það sem er enn skemmtilegra var að ég þurfti ekki að borga krónu fyrir aðgöngumiða að neinni sýningu.

-Common Nonsense er um fólk sem býr CommonNonsense er um fólk sem býr í nútíma- vestrænu- neyslusamfélagi kerfa og hluta sem mótar líf þeirra og samskipti, andleg, líkamleg og tilfinningaleg. Þema verksins vekur upp spurningar um stöðu okkar í þessu samfélagi út frá óvenjulegu, "skökku" og spaugilegu sjónarhorni. -

-Mér fannst þetta alveg hreint bráðfyndin sýning. Ég var svo heppin að fá að kíkja á æfingu þegar tvær vikur voru til frumsýningar og skildi ég hvorki upp né niður þá í þann klukkutíma sem ég sat. En þegar maður sá leikritið í fullri lengd þá rann það upp fyrir mér hversu sniðug þessi hugmynd væri að spinna upp leiksýningu í kringum uppfinningar.
Golden moment:Þegar sífulli kennarinn var í sífellu að tala um merka skáldið Svein Kára sem síðar reyndist vera framhjáhald móður hans.
Stigagjöf: 3 og háfl hrebbna af 5


-Ríkharður þriðji er eiitt magnaðasta leikrit Shakespeares um grimmúðleg átök, illsku og völd, og von fólks um að upp renni nýir og betri tímar. Ríkarður þriðji er ein af ógleymanlegum mannlýsingum skáldsins, heillandi illmenni sem svífst einskis til að ná völdum. Og allt í kringum hann eru sterkar konur sem þurfa að takast á við skelfilegar aðstæður og ill örlög. Eitt af stórvirkjum heimsbókmenntanna í óvenjulegri uppfærslu sem fæst við leikhúsið og lífið sjálft!-

-Ég labbaði inn á sýninguna algerlega hlutlaus. Ég vissi reyndar örlítið um Ríkharð en ekki það mikið. Vonir mínar og væntingar voru á núllpunkti en ég kom út með allt á suðupunkti, ef svo má að orði komast.
Alveg ágætis sýning, Hilmir stóð fyrir sínu en ekki gat ég gert að því að ein aðalleikkonan fór alveg óstjórnlega í taugarnar á mér vegna ofleiks.
En sýningin var í heild mjög skemmtileg og vel upp sett, sviðsmyndin mjög flott og mikið gert úr öllum hlutverkum.
Golden moment:Rúnar Freyr Gíslason sem hinn fagri konungur Ríkmond, svo glitrandi og skrækróma prins hef ég aldrei augum litið.
Stigagjöf: 3 hrebbnur af 5

-Kvetch fjallar um 5 einmana manneskjur í firrtum heimi og stöðugan kvíðan sem nagar þau inn að beini. Aðstæður persónanna eru dapurlegar og kunnuglegar, hugsanir fólksins (sem eru talaðar í verkinu) eru einnig dapurlegar og kunnuglegar en þegar þetta kemur allt saman verður útkoman drepfyndinn hrærigrautur.

-Alveg hreint brjálæðislega gott leikrit. Ég á varla nógu sterk orð í orðasafni mínu til þess að lýsa upplifuninni. Mjög opinskátt leikrit verð ég að segja. Ef þú ferð mjög auðveldlega hjá þér þá mæli ég ekki með þessu leikriti.
Golden moment:Þegar leikari kom fram nakinn og sýndi fram á það að mannslíkaminn er fagur, hvort sem maður er grannur eður ei.
Stigagjöf: 4 OG 1/2 hrebbna af 5