mánudagur, júlí 28

Loksins
Í dag bjóst ég við venjulegum degi.. vakna, klæða sig í skítagallann, vinna hjá hreppnum, hádegi, fara að vinna í bónus, ökutími, heimsofatakk!
Ég fékk það sem ég bjóst við, eins og alla daga í sumar, fyrir utan þessa tvo sem ég hef fengið í frí!
En er ég kom í vinnu nr.2. fékk ég að vita það að ég ætti ..já setjiði á ykkur sætisbeltin lesendur góðir..því nú kemur bomba..bé, o, bé a...SUMARFRÍ í næstu viku.
Ég fæ vikufrí.. frí til að gera ekki neitt!

Svo eru ekki nema 8 dagar í afmæli mitt, og hef ég ákveðið að setja niður smá lista... og koma fimm hlutir fram í dag af þessum leynda lista, fimm í næsta bloggi o.s.frv, alveg þangað til ég á afmæli.

Gjafir dagsins:
*Hafið, verð 1799 í Bónus
*Miða á leikritið Date, verð 1500 í Iðnó
*Buxur í Next og Deres, verð..ehemm!
*Handritið að söngleiknum RENT á íslensku, verð ??
*Digital myndavél, verð svona 30-40 þúskallar
fleiri og fjölbreyttari hlutir munu birtast næstu daga!

sunnudagur, júlí 27

klikkaður skítur.. (þýðist; crazy shit)
Ég var að koma úr paintball, eða litbolta.. ólýsanleg lífsreynsla!
Málið var að starfsmannafélag Bónus bauð öllum í litbolta,. frítt.
Þar sem ég er soldil pjattrófa var ég alveg að missa mig í drullunni og öll útötuð í málningu leið mér líkt og þegar ég var ung að synda í drullupollum.

Mitt lið vann alla sína 8 leiki, sem var auðvitað bara snilld og er ég ekki frá því að ég hafi átt einhvern hlut í því.. ég er helvíti dugleg í þessu..
kjaftæði
Nú sit ég hér, sár á rassi og hálsi, enda fékk ég ófáar kúlurnar í afturendann og á hálsinn, er meira að segja með sár sem vitnar til um þjáningar mínar!
Eftir þessa lífsreynslu hef ég sett mér það markmið að prófa nýja og framandi hluti áður en ég verð 18 ára.. eftir eitt ár og 9 daga!

Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að hlutum sem ég gæti gert, endilega skrifið þær í commentakerfið hér fyrir neðan bloggið..

laugardagur, júlí 26

Breake a leg
Í kjölfar bloggs um frumsýningu og svona ákvað ég að deila með ykkur smá reynslusögu úr leikhúsheiminum.

Frasinn; "Breake a leg" er ævagamall.
Það tíðkast í leikhúsheiminum að óska leikara góðs gengis með því að kasta á honum kveðju með þessum frasa..
Stranglega bannað er að segja; gangi þér vel eða eitthvað í þá áttina.
Þegar ég var að frumsýna leikritið Rocky Horror, nánar tiltekið á forforsýningunni var þessum frasa skellt framan í mig af vini sem staddur var á sýningunni.
Ég var ánægð að viðkomandi kynni frasann. enda sá aðili ekki alveg leikhúsrottutýpan.
En auðvitað tók ég þennan frasa alveg nógu alvarlega skal ég segja ykkur.. haldiði að mín bráki ekki bara á sér ristina í sýningunni.. ekki skemmtilegt það.
Þess vegna vil ég vara alla áhuga, og -leikara við því að taka þennan frasa of nærri sér.. það gæti boðað eitthvað illt!

föstudagur, júlí 25

Þreyta
Orð dagsins er..; þreyta.
Dagurinn í gær var algjört ævintýr skal ég segja ykkur.
Hann byrjaði á því að ég og Agnes fórum í klippingu, svo í ökutíma og svo skelltum við okkur niður í Iðnó að sjá leikritið Date.
Ég, Inga, Vigga og Agnes vorum komnar fyrir allar aldir og fengum við sæti á fremsta bekk, eins og okkur er von og vísa.
Alltaf þegar við förum í leikhús reynum við að vera á fremsta bekk.. því þá sjáum við ALLT sem er að gerast og missum ekki að dýrmætum smáatriðum.
Leikritið Date kom mér merkilega á óvart..þetta var alveg hreint út sagt ólýsanlegt.
Ég held að ég hafi hlegið úr mér allt frjómagn á þessum rúmlega tveimur klukkutímum sem sýningin varði, sýningin var ein sú besta sem ég hef séð hjá áhugaleikfélagi ef svo mætti kalla og hvet ég alla, konur og kalla til að sjá leikritið Date, (sýnt í Iðnó;www.date.is)
Eftir sýningina var gestum svo boðið í smá eftirteiti sem var haldið í Iðnó og var það með eindæmum skemmtilegt.
Við bjuggum okkur til brottfarar, ég, Agnes og Inga en Vigga hafði farið skömmu áður að.............hmmm..ha?, en viti menn, okkur var boðið í frumsýningarpartý hjá þessum stórskemmtilegu krökkum og auðvitað skelltum við okkur.
Í millitíðinni köstuðum við þurrís, ásamt Jakobi stóra í tjörnina sem myndaði einskonar hver.. mjög skemmtilegt.

Frumsýningarpartýið varð að þremur partýum, með sama fólkinu, en við færðum okkur á milli staða þrisvar sinnum, m.a. vegna óláta og annars vesens.
En í heildina var þetta frábært frumsýningarpartý.. og eitt skemmtilegasta partý sem ég hef farið í í sumar..gaman að segja frá því.

Á þessu kvöldi kræktum við okkur í viðurnefni.. grúppíur..JÁ!
Ég er stolt að segja það að´ég er ein af þremur grúppíum Ofleiks, en hinar tvær eru Inga og Agnes.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki komið heim fyrr en um sjöleytið og átti að mæta í vinnu klukkan 8, þá sé ég alls ekki eftir því að hafa farið í þessi partý og vona bara að tækifæri gefist til að fara jafnvel aftur á sýninguna eða eitthvað.

Stjörnugjöf Hrefnu:
*Date, leikritið: ********** stjörnur af *****

*partý no 1: **** stjörnur af *****
*partý no 2:** stjörnur af *****
*partý no 3:****og 1/2 stjörnur af *****

þriðjudagur, júlí 22

allt kemur með kalda vatninu
En hvað gerist ef kalda vatnið fer spyr ég nú bara?

Aðeins einn dagur í fimmtudag... mikið óskaplega hlakka ég til að losna við þetta hræ sem er á höfðinu á mér..(hár)Ég held samt ennþá í þá von að klippingin muni heppnast vel, því að ég er meistari í að fá mér ljótar klippingar!
Svo hefur hár mitt einnig sinn eigin vilja.. það vaknar á undan mér og fer allt í hakk.
Svo þegar ég vakna lýt ég í spegil og dey og reyni síðar hjartahnoð á sjálfri mér til að halda lífi.
Þess vegna hef ég fjárfest í gullkálfi; sléttujárni sem lagar allt það sem þarf að laga þegar kemur að hári.. höfuðhári!
Ég og sléttujárnið mitt erum.. like this! (berið fram "like this" með ýktum hreimi og krossleggið löngutöng yfir bendifingur..)

ég nældi mér í miða á foo fighters.. sem gleður mig ósköp mikið því ég hef aldrei á minni stuttu ævi farið á svona stórtónleika.

Svo eru ekki nema hvað..um 15 dagar í afmælið mitt þannig að allir ættu að byrja að safna sem fyrst!

hint: mig langar í sjálfrennireið ef einhver á um 500.000 kr á lausu og veit ekkert hvað á að gera við þær.

Ég ætla að byrja að safna hugmyndum í afmælislista og birta hann þegar nær dregur!

Nú ætla ég að fara að plögga síðuna í pósti því allir virðast hafa gleymt mér.

sunnudagur, júlí 20

tja tja tja

Ég verð að fara að læknast af þessu tímaleysi.. þetta er orðið alveg ferlegt.
Ég hef ekki bloggað síðan á þriðjudag og síðan þá hefur nú ekki mikið gerst skal ég segja ykkur lömbin mín gráu.

Ég var að fatta það í gær að það eru ekki nema tvær vikur og þrír dagar þangað til ég á afmæli.. loksins fær maður bílpróf!
Loksins þarf ég ekki að taka strætó í skólann og hvert sem ég fer..
Ég þarf ekki að plana bæjarferðir daginn áður bara til þess að ná strætó á siðsamlegum tíma!
Ég þarf ekki að hafa áhyggjur hvernig ég eigi að komast heim eftir bíó, leikhús eða bæjarferðir ef strætó er hættur að ganga.
En það eru ennþá tvær vikur til stefnu til að láta þetta allt fara í taugarnar á sér!

Ég er í fríi í dag, alveg týpískt. Sólin búin að skína alla vikuna samfleytt og þann dag sem ég er í fríi er svona.. lala veður.. ekki kalt ekki heitt.
Kannski það lagist á eftir.. bíð spennt.

En á fimmtudaginn, þannn 24 júlí ætla ég mér að taka dags frí frá allri vinnu, langþrátt frí.
Þann dag ætla ég og Agnes að dekra við okkur, fara í klippingu, bæinn og svo endum við kvöldi í góðra vina hópi sem ætlar að fara að sjá leikritið Date sem verður einmitt frumsýnt það sama kvöld.
Leikritið Date er sýnt af leikhópnum Ofleik, sem ég persónulega hef miklar mætur á, eftir að hafa séð fyrri leikrit þeirra; e og Johnny Casanova
Á hverju ári hlökkum við til að sjá leikrit Ofleiks því að þau eru orðin svona partur af sumrinu, rétt eins og menningarnótt, verslunarmannahelgi og 17. júní!

mánudagur, júlí 14

Unaður
Þá er helgin búinog dagarnir fjúga hjá eins og fiðrildi á kynþroskaskeiði.
Tíminn er svo afstæður að það er ekki einusinni broslegt.
Ég vaknaði í gær, hress og kát klukkan 7 fór í vinnufötin og labbaði fram. Eitthvað var ekki alveg eins og það átti að vera.
Ég læddist um húsið í leit að vakandi lífverum með stefið úr bleika pardusinum í bakgrunni..(varla, en þó?)
Enginn virtist vakandi sem mér fannst mjög skrítið því venjulega er móðir mín blessaða komin á fætur fyrir allar aldir til að hella upp á kaffi og horfa á Ísland í bítið
Ég kveikti á Stöð tvö, en ekki var Ísland í Bítið á dagskrá.
Þá rann það upp fyrir mér að það væri sunnudagur, eini dagurinn af þeim sjö sem eru sem ég er í fríi.

Tilkynning:
Þjóðverjinn Tony er kominn til landsins, vinur Viggu og var hann sóttur á Keflavíkurflugvöll í gær um 23:53.
Mig hefur alltaf langað til að sækja túrista á flugvöll og halda á svona skilti ; Tony, wilkommen aus Island eða eitthvað. Því var reddað og stóðum ég, Inga, Vigga og Elísa eins og fjórtán fífl með skilti að bíða eftir kauða.
Hann reyndist hinn mesti gleðigjafi og spái ég því að þessar tvær vikur sem hann verður hér verði unaður.

Já, talandi um unað, í gær var ákveðið af félaginu að ofnota orðið unaður meðan Tony er á landinu. Með því ætlum við að útbreiða orðinu um allt Þýskaland og treysta á keðjuverkunina.. sniðugt ekki satt?

yfir og út, og munið eitt:::...

allt er unaður

miðvikudagur, júlí 9

Einu sinni var...
lítil og ljóshærð stelpuhnáta.
Þessi unga hnáta hét Hrefna.
Hrefna var náttúrubarn, vildi helst ekki sofa inni, lék sér allan liðlangann daginn úti og var mjög svo útitekin í framan. Hrefnu fannst einnig mjög svo gaman að fara í hina ýmsu útileiki með nágrannabörnum og öðrum.
En tímar liðu og er Hrefna óx úr grasi fór hún að eyða miklu minni tíma úti við, og meira inni. En ávallt var þessi löngum til staðar um að vera úti, barnið í henni.
Þegar á unglingsaldur var komið var barnið sem bjó inn í Hrefnu lífvana og andlaust... það fékk ekki útrás og þegar á 17 ára aldur var komið var barnið dáið.

þetta var dæmisaga

Í dag endurheimti ég barnið í sjálfri mér.
Í stað þess að raka gras í grenjandi rigningu í Bæjarvinnu Bessastaðahrepps fórum við inn í íþróttahús í hina ýmsu leiki.
Barnið endurheimti ég þegar við fórum í hvísluleik, sem ég hef ekki farið í síðan í 2 eða 3 bekk.
Ég fékk skyndilega löngun til að setja tígó í hár mitt og fara í smekkbuxur og ganga í hús og safna dóti á tombólu.

Ég hef ákveðið að fara í herferð, ég ætla að vernda barnið í sjálfri mér, leyfa því að sleppa lausu öðru hvoru svo það deyji ekki alveg.

*verndum barnið í sjálfum okkur.. og drekkum mysu.

þriðjudagur, júlí 8

Synd og skömm
Ég fór á bus.is áðan í leit að áskrift að eilífðarstrætókorti sem ég gæti átt þar til ég gæfi upp öndina, en varð fyrir vonbrigðum, því það er víst ekki hægt.

Helsta ástæðan fyrir þörf minni á eilífðarstrætókorti er sú að ég var í fyrsta, já fyrsta ökutímanum mínum áðan.. úffúffúff.
Ég held að ég sé búin að gleyma flestöllu sem ég lærði, en eitt lærði ég þó og man eftir: ég kann ekki að keyra!!!

Ég verð örugglega svona bílstjóri sem gerir allt vitlaust og missi bílprófið fyrir tvítugt!

Neinei, usss út með þessa neikvæðu orku (anda inn, út)

Gleymið öllu því sem þið lásuð að ofan, ég er frábær bílstjóri og er að hugsa um að leggja leigubílaakstur fyrir mig! (kaldhæðni)

Þeir sem vilja ekki fá mig á göturnar á bifreið geta stofnað reikning í næsta banka og aflað fjár fyrir mig í strætó uns ég dey!

laugardagur, júlí 5

skór.bull
Ég hef ákveðið að hefja stríð gegn skósmiðum og skóhönnuðum.
Ég fór á fimmtudaginn í mínu mesta sakleysi í kringluna í leit að spariskóm, skóm til að fara á djammið í og svona.
Ég var pínd inn í gs skó sem ég hef aldrei á ævinni farið í , kannski vegna þess að ég er ekki spíta sem verslar í 17.
En hvað um það, ég fann mér flotta skó á siðsamlegu verði 4990 og bað afgreiðsludömuna að færa mér parið í stærð 42.
Þá glápti hún á mig, vissi varla hvað hún ætti að segja mér, en tjáði mér loks að búð þessi seldi bara örfáa skó í númerinu 42, og þeir væru allir yfir 7000 kr.
Veskið mitt æjaði og veinaði að sársauka, okurverð!
Nei svona í alvöru, þarf maður að líða fyrir það að vera hávaxin með stóra fætur?
Ég spurði dömuna hvort þau gætu pantað skó í 42, en það var greinilega ekki hægt.
Maður verður þá bara að kaupa sér körfuboltaskó í Intersport eða eitthvað til að fá þá í 42!

En annars gerðist soldið á föstudagsmorgun sem fékk mig næstum því til að pissa í buxurnar af hlátri.
Við vorum 5 að vinna bæjarvinnunni á leikskóla hér í hreppnum.
Þennan morgun var lokahátíð leikskólans sem var að fara í sumarfrí.
Allan morguninn hafði tónlist úr leikritinu Latibær glumið í eyrum okkar og hress og kát börn hoppuðu og skoppuðu í hoppiköstulum.
::gaman að sjá lítil börn skemmta sér vel

Þegar við vorum að færa okkur um set á annan stað þegar við högðum lokið okkur af litum við í átt að sjoppunni og sáum mann labba í áttina að okkur.
Það fyrsta sem við tókum eftir var að hann var í óvenju stórum skóm
(maður ætti kannski bara að ræða við hann um skóinnkaup), síðar sáum við að hann var klæddur í fremur skrautleg föt og talaði óvenju hátt í símann sinn.
Þegar hann nálgaðist enn meir sáum við að þetta var trúður.
Hann kom til okkar og spjallaði smá, en það fyndna var að hann var alltaf í karakter, hann spjallaði ekki sem hann sjálfur, heldur sem trúður.

Gaman að sjá trúð labba bara í mesta sakleysi sínu á Álftanesi, hverjum dytti það í hug?

miðvikudagur, júlí 2

sorg
Í dag dó ástvinur allra barna í bæjarvinnu Bessastaðahrepps.
Við brutum hrífu...
Þessi hrífa var sú allra besta hrífa sem ég hef notað og verður hennar saknað sárt..
Hún hreif mig strax er ég kynntist henni en nú er hún farin,
... ef einhver vill mæta á minningarathöfn hrífunnar þá verður hún í húsasundi bak við Byko í Hafnarfirði kl 07:30 í fyrramálið, blóm og kransar afþakkaðir.


Já svona er nú lífið dúllurnar mínar, verkfæri koma og fara, þó að flest fari.
Í þessu blíðskaparveðri sem hefur blessað okkur Íslendinga í dag, var haldið upp á 85 ára afmæli ömmu minnar hér á Álftanesinu.
Fjöldi fólks mætti, þar með talinn forseti vors lands og spúsa hans, dætur og tengdasynir.
Mikið var kjaftað og kerlingar drukku kaffi við undirleik karlmannsradda talandi um palla og garða.
Börnin hlupu svo æst úti í garði með meirihlutann af ísnum sem þau fengu framan í sér.
Á meðan allt þetta fór fram sátum við, vandræðaunglingarnir inni í herbergi að tala um okkar líf og ekki líf og leit fullorðna fólkið við og við inn til að hneykslast á okkur frændsystkynum... þetta fullorðna fólk er svo skrítið stundum...

En nú er ég komin heim í svaðið, þó foreldrar mínir sitji ennþá við drykkju í góðra vina hópi..
Ég er að hugsa um að baka köku.. súkkulaðiköku!

þriðjudagur, júlí 1

Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert skrifað er sú að ég þjáist....
af ritstíflu...!
Aldrei á minni 17 ára ævi hef ég fengið ritstíflu, en nú virðist hún hafa náð tökum á mér.. andskotans vesen.
Ég ætla mér að setjast við tölvuna dag eftir dag þangað til að ég get skrifað!