þriðjudagur, desember 30

Nú árið er liðið í aldanna skaut
..eða næstum því.

Ég fór að hugsa í gær hvað árið 2003 hefur verið rosalega gott, og vil ég nú síst af öllu að það endi.

Hér verða upp talin nokkur atriði sem undirrituð hefur afrekað á árinu.

Afrek ársins:

Rocky Horror

Ég er án efa stoltust af Rocky Horror batteríinu.
Leikritið var sýnt í FG og atriði úr leikritinu voru sýnd á hinum ýmsu uppákomum, í sjónvarpi, á Listahátíð í Garðabæ og á Broadway.
Gefinn var út geisladiskur þar sem undirrituð söng í 4 lögum, leikskrá og nærbuxur tileinkaðar leikritinu.

Bílpróf:

Jú, yfirvöld leyfðu hinni hættulegu hrebbnu að taka bílpróf eftir endalausar umræður á alþingi.
Í framhaldinu var einnig keypt sjálfrennireið sem reyndist heita Margeir.

Kjör í listanefnd nffg:

Eftir mikla baráttu skyttanna þriggja(elísa h., elísa og ég) í kosningabaráttunni náðu aðeins tvær kjöri, ég og elísa h.
Mikill sigur fyrir nörda nær og fjær að komast inn i þotulið nffg.

2.sæti í hæfileikakeppni fg:

Undirrituð, ásamt Bryndísi og Elísu H. varð í öðru sæti í forkeppni á vegum fg fyrir hæfileikakeppni framhaldsskólanna. Tekið var atriði úr hinni víðfrægu þöglu mynd fyrirtækissins æ.sæ.fi.co. (æslandikk sælent móví film corperasion) við mikinn fögnuð áhorfenda.

2.sæti í Leiktu Betur:

Eins og oft hefur komið fram varð lið fg í öðru sæti þar sem undirrituð fyllti fyrirliðasætið af einstakri snilld. Liðið tapaði sanngjarnlega á móti snilldarliði MH.

Þar með eru taldir upp sigrar ársins 2003, en mikils er að vænta árið 2004.
Væntanlegt er:
Ný byrjun í nýjum skóla
Nýtt leikrit,nýtt hlutverk,nýr geisladiskur
1.árs bloggafmæli
..og margt fleira skemmtilegt.

Ég vil kæru lesendur þakka fyrir árið sem er að líða og vona að það nýja verði jafn frábært og 2003.

Með áramóta og nýárskveðju:
Hrebbna

mánudagur, desember 29

Skrifað í snjóinn
Ég blogga hér í beinni úr snjóhúsinu sem mér tókst að byggja í morgun.
Mér varð ljóst að ég kæmist ekki aftur inn í steinhús mitt eftir heiðarlega tilraun til þess að komast til vinnu á litla fólksbílnum mínum, og ákvað ég að byggja mér snjóhús meðan ég biði.
Björgunarsveitarmeðlimir hafa ekki enn svarað morsskeytum mínum sem ég sendi með því að spila á forláta munnhörpu sem ég fann á botninum í veskinu mínu, ásamt varalit sem ég kannast ekki við að eiga.
Í handhæga vasaútvarpinu sem ég fékk frá löngu gleymdum ættingja hef ég fregnir af því að bílar séu fastir hér og hvar, í innkeyrslum sem og á vegum úti.
Ætli einhver finni mig áður en ég drukkna í eigin hori?
Endilega lítið við í snjóhúsinu sem staðsett er einhversstaðar milli heims og helju.
En verið varkár, ekki banka of fast því húsið gæti hrunið!

Kaffi á könnunni
Hrebbna

föstudagur, desember 26

Af jólaglöggum
Já, þetta voru nú aldeilis gleðileg jól.

Dagurinn byrjaði á léttri vinnu til 14, og svo var haldið heim þar sem manni var hent undir kalda sturtu, sökum þreytu og greiddur og klæddur í fermingargallann. Síðan var mér tilkynnt hátíðlega að þetta væri eina árið sem mér hefði ekki borist eitt einasta jólakort. Og hvað með það sagði ég nú bara.

Farið var með pakka til krakka sem hoppuðu og skoppðu, uppfull af spenningi og tekið var á móti pökkum frá foreldrum barnanna sem voru komið með hausverk og báðu þess heitast að klukkan færi nú að slá sex svo að börnin mundu setjast niður stillt og prúð og vera hljóð í örstutta stund.

Eftir öll þessi ósköp kom ég heim, og var þess vör að hvítur bleðill stóð hálfur út og hálfur inn í bréfalúgunni. Mér varð hugsað það þetta væri líklegast enn eitt jólakortið til systur minnar, en viti menn á því stóð "Hrefna".
Jólakort þetta var frá konungi selfoss, Steina.
En ég er samt alveg viss um að öll jólakort sem áttu að berast til mín hafi borist til tveggja alnafna minna, eða að jólapósturinn hafi komist í sterkt jólaglögg móður minnar sem borið var á borð á þorláksmessu í stíl við kæsta skötuilminn, og villst með póstinn í næsta hús.

Er klukkan sló sex færðist friður yfir göturnar og steikt svínið var borið á borð ásamt fríðu föruneyti meðlætis.
Þegar heimilisfólk hafði étið yfir sig var ákveðið að nú skyldi opna pakkana.
Það sem ástkærir ættingjar gáfu mér var m.a:kápa,föt,nokkur af helstu verkum Shakespears,forláta dvd mynddiskur,tveir geisladiskar og geislaspilari.

Geislaspilari þessi á að vera mp3 spilari í senn, en reyndar hef ég ekki fundið út hvernig hann virkar og af hverju spilarinn neitar að spila hvern einn og einasta disk sem ég á. Kannski er það af því hann er frá U.S.A?

En nóg um jólagjafir og kort í bili, hvernig voru ykkar jól kæru lesendur?

miðvikudagur, desember 24

Jólin koma
Kæru lesendur.
Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið hafið það gott á sjálfan aðfangadaginn.


Ég vil benda þeim á sem ekki enn hafa fundið jólaandann að hann finnst á botninum á dýrasta kampavíninu í ÁTVR.

laugardagur, desember 20

Grín í skammdeginu
Alveg síðan að ég var einungis fóstur í móðurkviði hefur mig langað til að prófa að vinna við að tala í kallkerfi, svona eins og eru í verslunum hagkaupa og á fleiri stöðum.
Dæmi:,,Aron,Aron, Þú ert vinsamlegast beðinn um að hafa samband við þjónustuborð"
Þar sem ég vinn nú í verslun Hagkaupa í Kringlununni hljóma fögur orð stúlkunnar sem vinnur við kallkerfið ótt og títt í eyrum mér yfir

Mikil ósköp væri það kómískt ef "uppkallarinn" væri skrollmæltur, eða hefði "texas" hreim, það væri nú tilbreyting, ikke?

Ef að ég ´hlýt einhverntímann þann heiður að vera "uppkallari" langar mig að breyta örlítið til, og máské breyta í sífellu um rödd, eða koma með klassíska brandara; "Bolli,Bolli, þú ert vinsamlegast beðinn um að koma inn í búsáhaldadeild", eða "Sigríður, Sigríður, þú ert vinsamlegast beðin um að koma inn í upplýsingar að sækja BrandAra"
Í framhaldi af þessu mundi ég í sífellu stama, og gera mér upp taugaveiklun, lesa orðin afturábak og fleira.

Ég bið ykku, kæru lesendur að bíða spennt, því stundin mun koma.

Fylgist með á www.hrebbna.tk

Þangað til næst

mánudagur, desember 15

Af almenningi,heimsku og hneykslum
Kæru grúbbumeðlimir.
Ég biðst afsökunar á því að fullunninn listi hafi ekki enn verið birtur og mun sennilega ekki birtast fyrr en að nokkrum dögum liðnum.
Gott meðal við spennu af völdum þessa er að fá sér eitt vatnsglas, (drekkist standandi á höndum í gegnum nefið)


Kæru lesendur.
Ég vil biðja ykkur að fylgja mér í bæn og biðja fyrir öllu heimska fólkinu sem býr á Íslandi í dag,
Í gær í vinnunni (kringlan) kom til mín kona þar sem ég stóð í dömudeildinni að vinna.
Kona þessi ber upp spurningu:

Atburður:Skandall
Staður:Kringlan
Stund:um kl 14:00

"Fyrirgefðu fröken, ekki gætiru mátað þessa peysu fyrir mig, þú ert nefnilega álíka feit og dóttir mín?

Ég átti ekki til aukatekið orð. Að segja þetta við mann svona beint í fésið.
Nú er ég frekar meðvituð um að ég er ekki bara skinn og bein, en common, að kalla mann feita!

Nú drekk ég aðeins munnvatn mitt og borða kuðlaða post-it miða.

miðvikudagur, desember 10

Uppgjör
Akademia Grúbbunnar(Kristín og Elísa Hildur) hafa setið sveittar undanfarna daga. Helstu ástæður má máské rekja til prófundirbúnings en fréttamenn www.hrebbna.tk fóru á stúfana fyrir stuttu og komust að hinu sanna.
Þær stöllur hafa verið að útnefna nokkrar af stelpunum sem sitja í hinu nýja horni skólans (eftir að hið gamla var hertekið) sem ljósku ársins,hneyksli ársins,jólabarn ársins, íþróttafrík ársins, ofl ofl og fannst stjórnanda þessarar síðu internetið fátækara ef þessi listi yrði ekki birtur hér.
Listinn verður birtur í heild sinni á laugardaginn þar sem samkoma akaedemiunnar verður á föstudaginn næstkomandi.


Jólabarn ársins:
1.sæti:Án efa Lísa fyrir að koma með "söppræs" litlu jól síðasta skóladaginn
2.sæti:Elísa A. fyrir að gera hornið okkar jóló með endalausum myndum af snjóköllum og ect.
3.sæti: Halla fyrir að koma með "handhæga" ferðageislaspilarann svo við gætum spilað jólalög.

Íþróttafrík ársins:
1.2 og 3.sæti: Kristín Eva. Hver annar í grúbbunni á "nike" hárteygju?
Ljóska ársins:
1. sæti: Er án efa Steinunn. Quote:"Glasabörn fæðast í glösum, er það ekki?"
2-3.sæti:verður haldið leyndu, mikil samkeppni virðist vera um sætin tvö.

Hneyksli ársins:
1.sæti: ?Hrebbna fyrir að þekkja ekki muninn á Jimi Hendrix og Bob Marley(segjist vera með frægt-fólk-blindu)
2.sæti: Steinunn fyrir að halda að glasabörn fæðist í glasi.
3.sæti: Hrebbna fyrir að vita ekki hvað "FUTURAMA" var.

Eins og áður var sagt mun tæmandi listi birtast á laugardag að öllum líkindum

þriðjudagur, desember 9

GSMblogg prufa
Nú er sem sagt hægt að blogga með farsímanum sínum hvar sem maður er staddur. Kannski maður fari bara að blogga í gegnum gemsann.
Áhugavert, ikke?

mánudagur, desember 8

Dagar taldir

Þegar ég var yngri var fastur liður í desember að horfa á jóladagatal sjónvarpsins. Jóladagatalið vakti gleði hjá undirritaðri og stytti án efa biðina í stóra daginn.

Hver man ekki eftir jóladagatölum eins og Á baðkari til Betlehem(1990), Tveir á báti(1992) og Blámann(Stjörnustrákur)(1991)?

Á hverju ári, til ársins 1998 að ég held var búið til nýtt og spennandi jóladagatal, en undanfarin ár hafa nokkur af fyrri jóladagatölum verið endursýnd og jafnvel endurendursýnd.

Nú er svo komið að ég nenni ekki lengur að horfa eða jafnvel hugsa um jóladagatal sjónvarpsins vegna þess að mér finnst ég alltaf vera að horfa á þau sömu, smb. Klæng Sniðuga og fl.

Ég sit í stað uppi með súkkalaðijóladagatal og dagarnir eru lengi að líða til jóla.

fimmtudagur, desember 4

Heilabrjótur
Ef guð á að hafa skapað heiminn, hver skapaði þá guð?

miðvikudagur, desember 3

Gleymd list
Upp á síðkastið hef ég tekið meira og meira eftir því hvað fimmaurabrandarar eiga undir mikið högg að sækja.
Þetta er alveg gleymd brandaralist og vil ég biðja alla þá sem vettlingi geta valdið að ganga hér og nú í fimmaurabrandara-verndarafélagið
Hver man ekki eftir hinum glæsta brandara: "allar stelpurnar voru með brjóst, nema Lena, hún var með spena " og fleiri gullmola úr safni fimmaurabrandara.
Ég hvet einnig alla þá sem luma á einhverjum brandara að skrifa þá í commentin og jafnvel í framhaldi af því gæti ég í jólafríinu komið með fimmaurabrandara dagsins og svona.. hvernig væri það?

mánudagur, desember 1

Af leikhúsferðum

Samkvæmt nýjustu talningu hef ég aldrei farið jafn oft í leikhús á einum mánuði og í nóvember, ef sýningatímabil Rocky Horror er ekki talið með.
Í nóvember fór ég að sjá; Common Nonsense, Ríkharð 3ja og Kvecth.
Og, það sem er enn skemmtilegra var að ég þurfti ekki að borga krónu fyrir aðgöngumiða að neinni sýningu.

-Common Nonsense er um fólk sem býr CommonNonsense er um fólk sem býr í nútíma- vestrænu- neyslusamfélagi kerfa og hluta sem mótar líf þeirra og samskipti, andleg, líkamleg og tilfinningaleg. Þema verksins vekur upp spurningar um stöðu okkar í þessu samfélagi út frá óvenjulegu, "skökku" og spaugilegu sjónarhorni. -

-Mér fannst þetta alveg hreint bráðfyndin sýning. Ég var svo heppin að fá að kíkja á æfingu þegar tvær vikur voru til frumsýningar og skildi ég hvorki upp né niður þá í þann klukkutíma sem ég sat. En þegar maður sá leikritið í fullri lengd þá rann það upp fyrir mér hversu sniðug þessi hugmynd væri að spinna upp leiksýningu í kringum uppfinningar.
Golden moment:Þegar sífulli kennarinn var í sífellu að tala um merka skáldið Svein Kára sem síðar reyndist vera framhjáhald móður hans.
Stigagjöf: 3 og háfl hrebbna af 5


-Ríkharður þriðji er eiitt magnaðasta leikrit Shakespeares um grimmúðleg átök, illsku og völd, og von fólks um að upp renni nýir og betri tímar. Ríkarður þriðji er ein af ógleymanlegum mannlýsingum skáldsins, heillandi illmenni sem svífst einskis til að ná völdum. Og allt í kringum hann eru sterkar konur sem þurfa að takast á við skelfilegar aðstæður og ill örlög. Eitt af stórvirkjum heimsbókmenntanna í óvenjulegri uppfærslu sem fæst við leikhúsið og lífið sjálft!-

-Ég labbaði inn á sýninguna algerlega hlutlaus. Ég vissi reyndar örlítið um Ríkharð en ekki það mikið. Vonir mínar og væntingar voru á núllpunkti en ég kom út með allt á suðupunkti, ef svo má að orði komast.
Alveg ágætis sýning, Hilmir stóð fyrir sínu en ekki gat ég gert að því að ein aðalleikkonan fór alveg óstjórnlega í taugarnar á mér vegna ofleiks.
En sýningin var í heild mjög skemmtileg og vel upp sett, sviðsmyndin mjög flott og mikið gert úr öllum hlutverkum.
Golden moment:Rúnar Freyr Gíslason sem hinn fagri konungur Ríkmond, svo glitrandi og skrækróma prins hef ég aldrei augum litið.
Stigagjöf: 3 hrebbnur af 5

-Kvetch fjallar um 5 einmana manneskjur í firrtum heimi og stöðugan kvíðan sem nagar þau inn að beini. Aðstæður persónanna eru dapurlegar og kunnuglegar, hugsanir fólksins (sem eru talaðar í verkinu) eru einnig dapurlegar og kunnuglegar en þegar þetta kemur allt saman verður útkoman drepfyndinn hrærigrautur.

-Alveg hreint brjálæðislega gott leikrit. Ég á varla nógu sterk orð í orðasafni mínu til þess að lýsa upplifuninni. Mjög opinskátt leikrit verð ég að segja. Ef þú ferð mjög auðveldlega hjá þér þá mæli ég ekki með þessu leikriti.
Golden moment:Þegar leikari kom fram nakinn og sýndi fram á það að mannslíkaminn er fagur, hvort sem maður er grannur eður ei.
Stigagjöf: 4 OG 1/2 hrebbna af 5

miðvikudagur, nóvember 26

Að finna upp hluti
Það eru svo margir hlutir þessa dagana sem mig vanhagar um sem hafa ekki enn verið fundnir upp.

T.d. af hverju eru ekki framljós á bílum, rétt eins og stefnuljós? Þá er ég að meina svona blikkandi framljós sem sýna að maður ætli áfram en ekki beygja?

Svo lenti ég í því um daginn að ég stóð í sakleysi mínu í miðborginni á gangstétt einni og beið eftir að komast yfir götuna, þar sem grasið var grænna. Þar sem engin gangbraut var í aðsigi ákvað ég að reyna eftir fremsta megni að labba yfir götuna þegar tækifæri gafst, en það kom aldrei.
Og þarna stóð ég, ein eins og kjáni að bíða eftir að labba yfir götu kl 17:00 á föstudegi, ekki gáfað það? Ég ætla að finna upp svona gangbrautardúk eða handhægt stöðvunarskyldumerki sem eru bæði tvö svona vasaútgáfur af frumútgáfunum. Þá væri gangbrautin í handhægu dúkaformi og stoppskyldan væri í svipuðu formi og regnhlíf, bara smella upp og þá er það komið!

Einnig leita ég, þar sem prófin eru að nálgast að buxum með rasspúða, því oft reynist prófsetan löng og ströng og því vert að sitja á þægilegu undirlagi.

Svo af því að ég er byrjuð að hugsa um próf og svona, þá væri ég alveg til í að búa til svona prófborð með bjöllu sem maður dinglar ef manni vantar aðstoð svo maður þurfi ekki að sitja með upprétta hendi í langan tíma og vera síðan það slappur í hendinni að maður getur ekki skrifað.

Ég óska eftir samstarfsmanni til að framkvæma þessi verkefni, sjúkrakostnaður er ekki innifalinn.

þriðjudagur, nóvember 25

Í tímaþröng

Ung stúlka óskar eftir auka klukkutíma á lágu verði sökum tímaleysis. Hafið samband, Hrefna hrefna_@hotmail.com

Ef ég hefði tima til að hugsa um hvað ég ætti að blogga um væri heimurinn miklu betri, en því miður lesendur góðir.
Hverjum datt í hug að hafa 24 klst. í sólarhring, af hverju ekki 26?
Persónulega gæti ég þegið tvo klukkutíma í svefn í viðbót.

Helstu orsök tímaleysis er lokaverkefni sem ég er að vinna að í leiklist.
Sýning á verkinu verður á fimmtudaginn kl 19:30 að öllum líkindum og kostar ekkert inn! Ég persónulega mæli með þessari listrænu sýningu og ekki spillir fyrir að fá heitt kakó og með því eftir á, eða jafnvel fyrir.

Sýning þessi fjallar um Rómeó og Júlíu á nýstárlegann hátt. Leikritið hefur verið stytt niður í tvö atriði, þ.e. ástarsenur og verður sýningin með frumlegum blæ.

Þeir sem hafa áhuga geta nálgast frekari upplýsingar hjá undirritaðri.

sunnudagur, nóvember 23

Internetið hefur máttinn
Þegar fólk kemst á vissan aldur hugsar það oft um hver það er í raun og veru.
Margir eyða fleiri klukkustundum í leit að "sjálfinu" og komast að öllum líkindum hvert það er.

En kæru vinir, við þurfum ekki að eyða dægrunum löngum í það að leita hver við sjálf erum því internetið hefur lausnina.
Á fjölmörgum síðun internetsins má finna það út hver maður er, hver maður var í fyrralífi og hver maður hugsanlega mun vera í framtíðinni.
Einnig er hægt að finna út hvort maður sé í raun og veru gella, hvaða poppstjarna maður væri ef maður væri poppstjarna og hvaða friens-persóna maður væri.

Sem sagt, Internetið hefur lausnina, og samkvæmt því...

1.Mun ég hafa verið ljónatemjari og þjálfari í sirkus á 12.öld á Norður-Englandi í fyrra lífi.
2.Ætti ég að vera rauðhærð
3.Mun ég verða geimvísindafrömuður í framtíðinni
4.Er ég gella
5.Er uppáhalds osturinn minn Feta
6.Væri ég afródita ef ég væri gyðja
7.Þá héti ég zskdof ef ég byggi á mars
8.Kostar sál mín 7.879 $


Kæru lesendur, ég mun nú alfarið tileinka mér geimvísindi sem áhugamál, versla fetaost í tugatali og breyta nafni mínu í zskdof því ég hef fundið "sjálfið" á netinu.
Fordæmi sambloggara fylgt
Í þessu bloggi ætla ég að fylgja fordæmi sambloggara,vinkonu og leiklistarunnanda og blogga um leikverk það er sett verður upp á vegum NFFG þetta árið, eða í raun næsta árið.

Í ár verður það enginn annar en söng- og gleðileikurinn Litla Hryllingsbúðin-eða á frummáli The Little Shop of Horrors.

Eftir langar og strangar prufur var loks í gær tilkynnt hverjir færu með hvaða hlutverk og eru allir á því máli að vel hafi verið valið í flest hlutverk.

Undirrituð fékk hlutverk í sýningu þessari og mun ég fara með hlutverk guðlegrar raddar sem kynnir í raun framvindu verksins í forleik, og bráðfyndins kúnna.

Nánari hlutverkaskipan verður svo að koma í ljós á frumsýningardegi , þ.e. mars 2004 því ég er ekki viss hvort ég megi leka út þessu hernaðarleyndarmáli.

föstudagur, nóvember 21

Gamalt og gleymt
Þegar maður eldist eru margir hlutir sem áður voru spennandi hversdagslegir og leiðinlegir.
Hér á eftir kemur listi yfir mjög svo hversdagslega hluti sem áður mér framandi..


1. Að fara í strætó: Eftir að hafa alist upp í krummaskurði eins og Álftanes er, var framandi að taka strætó t .d. upp í Kringlu eða á Laugarveginn. Hugsa sér, engir foreldrar að keyra og maður gat ferðast hvert á land sem er-fyrir aðeins 50 kr.

2.Að vera einn heima:Þó svo að það væri ekki nema hálftími var svo margt sem hægt var að gera þegar maður var einn heima. Oft notaði ég ímyndunaraflið og byggði oft indjánatjald inni í stofu mér til yndis og skemmtunar. (Ef ykkur vantar upplýsingar um byggingu slíks tjald, endilega látið mig vita)

3. Að fara í matvörubúð: Hver man ekki eftir því þeagr maður labbaði inn í matvörubúð, beint í nammideildina og fannst maður vera kominn í himnaríki?

Lista lokið í bili.

þriðjudagur, nóvember 18

pæling
Fyrir allnokkru var ég stödd í Kringlunni á vappi í mínum eigin heimi eins og vanalega, og kem ég auga á mann nokkurn að nafni Snorri. Sá labbaði milli fólksfjöldans og var að reyna að selja þeim syndaaflausn fyrir 1000 kr stykkið. Syndaaflausnin var í A4- blaðaformi.

Ég æjaði og veinaði og skammaðist yfir því hvert heimurinn væri eiginlega að fara. Mest langaði mig að hrifsa öll blöðin af manninum og borða þau og hindra þar með að maðurinn gæti selt þeim vitlausu fyrrnefnt plagg.

Ég hugsaði með mér að maðurinn stæði þarna til einskis, "það kaupir enginn þessa vitleysu" sagði ég við sjálfa mig, en viti menn. Ég var ekki fyrr búin að ljúka þeim orðum í huga mér að maður keypti eitt ef ekki tvö plögg.

Hvernig ætlar Snorri þessi að koma því til skila til hins æðra að einhver aðili sé laus synda sinni og sé þar með orðin hrein sál?


Ég fór heim, bjó til mitt eigið plagg, hengdi það upp á vegg og grét yfir heimsku samborgara minna.

laugardagur, nóvember 15

Í morgunsárið
Fyrir um 10 mínútum skreið ég úr dvala svefnsins við dyrabjölluhljóm.
Þar sem ég var ein heima varð ég að standa upp og gjöra svo vel að opna hurðina.
Fyrir utan stóðu tveir menn, einn örugglega á fertugsaldri og annar töluvert yngri, ætli hann hafi ekki verið svona 20 ára, ef það.
Þeir spurðu mig nývaknaða hvort þeir mættu fræða mig um Biblíuna, og þá varð ég sko skelkuð.
Ég sagði pent nei takk, en þar sem ég hef hlotið gott uppeldi þáði ég þó nokkra bæklinga frá þessum fræðandi mönnum og óskaði þeim síðan góðs gengis.

Svo spurði ég sjálfa mig;

Nú var ég í kristnifræði öll mín 7 ár í grunnskóla og svo stundaði ég sunnudagaskólann á mínum yngri árum og var leiðtogi í KFUK og ætti því að vera vel lærð um guð, jesús og allar þeirra gjörðir.

Er eitthvað meira sem ég hef ekki lært?

Ég trúði þessu öllu þar til ég fermdist.
Eftir fermingu má segja að ég hafi séð "ljósið".
Ég fékk hvolpavit og fór að efast um þetta allt, en samt ekki.
Það er sumt sem ég trúi, og sumt ekki.

Ég trúi t.d. að það hafi verið til einhver kraftaverkamaður að nafni Jesús sem gat breytt vatni í vín, en kallast það bara ekki töframaður?
Er Davið Blane þá ekki jafningi hans?

En ég trúi alls ekki að það sé til einn guð, sem er guð allra og alls.
Að vísu trúi ég á líf eftir dauðann en ekki að ég komi upp í eitthvað himnaríki og hitti þar fyrir Lykla-Pétur við Gullna-Hliðið.

Ef guð skapaði manninn hvaðan komu þá steinaldarmennirnir?

Í dag trúi ég einungis á sjálfan mig og lífið í heild.

Þetta eru einungis mínar skoðanir og bið ég þá að afsaka sem gætu hafa særst af lestri þessa bloggs.

föstudagur, nóvember 14

LEIKTU BETUR

Í gærkveldi mætti spunalið FG á vígvöllinn( Tjarnarbíó ) og bjóst alls ekki við miklu.
Ástæðan? Jú hún var sú að kvöldið áður bjuggumst við hreinlega ekki við því að komast á úrslitakvöldið. Það var því með undrun sem við löbbuðum inn í Tjarnarbíó, um klukkan 6 í gær og bjuggumst ekki við neinu.

Fyrsta viðureignin okkar var við FB, og má til gamans geta að hálfbróðir Önnu Guðnýjar var í því liði.
Við sigruðum með þónokkrum stigamun, man samt ekki hversu miklum.
Afrakstur: Komin í 4-liða úrslit
Við sátum baksviðs og nöguðum af okkur allar neglur og vorum byrjuð á olbogunum þegar MH og Kvennó öttu kappi og hlaut MH sigur í þeirri keppni.

Næsta viðureign okkar var við MA og þar sigruðum við einnig með 24 stigum á móti einhverju.. afsakið gleymskuna.
Afrakstur: Komin í 2-liða úrslit

Það var sem sagt með mikilli hræðslu sem við stigum á svið og kepptum á móti MH. Í liði MH voru: Jakob Búllerjahn, Jóhanna, Antoine og Kobbi sem öll eru prýðisleikarar og þau áttu alveg salinn, það var bókað mál.
Leikar fóru þannig að MH vann okkur með 4-5 stiga mun.

Mér finnst það hafa verið mikill heiður að fá að keppa við þessa snillinga sem MH liðið var og áttu þau svo sannarlega sigurinn skilið!

Sem sagt var afrakstur allra herlegheitanna 2.sætið í Leiktu Betur-spunakeppni framhaldsskólanna sem mér finnst alveg frábært og segji ég bara til hamingju MH-ingar!

miðvikudagur, nóvember 12

Fögur er hlíðin
Já góðir gestir ég segi fögurer Hlíðin vegna þess að í kvöld gerðist það óvænta.
Í kvöld sigraði spunalið effgje fva í leiktu betur forkeppninni sem haldin var í Urðarbrunni.

Svakalegt stuðningslið mætti fyrir hönd effgje og vil ég persónulega þakka þeim öllum fyrir frábæra frammistöðu!

6 lið mættu, sáu og sum sigruðu.
Liðin sem komust i úrslit voru:


EffGje
MH
Kvennó
MA


Sem sagt góðir hálsar, annað kvöld kl 20:00 mun EffGje etja kappi við þessi frábæru lið og vonandi komast sem lengst.

Húsið opnar sem fyrr kl 19:00 og hvet ég alla til að mæta snemma, því sætin eru fá og aðsókn mikil!

Hvað: Leiktu Betur, ÚRSLIT
Hvar: Tjarnarbíói, Reykjvaík
Hvenær: 13. NÓV, Miðvikudagur KL 20:00
Það er komið að ÞVÍ
Ertu orðin/nn leið/ur á sífelldu skólanámi dag eftir dag?
Ertu orkulaus eftir að hafa eytt öllum deginum í skólanum og átt engann tíma fyrir sjálfan þig?
Ég hef ekki lausn á því vandamáli, en......

Leiktu Betur forkeppni verður haldin í Urðarbrunni, FG í kvöld kl 20:00!
Húsið opnar kl 19:00 og allir að mæta.

Undirrituð er fyrirliði FG!

sunnudagur, nóvember 9

Líf mitt hefur legið niðri
Undanfarnar tvær vikur eða svo hefur líf mitt legið niðri.
Þannig er nefnilega mál með vexti að bróðir föður míns, Steinþór Eyþórsson lést mánudaginn 27. október og hafa síðustu tvær vikur liðið í einhversskonar móki.

Þetta var mikill missir fyrir alla fjölskylduna því Steini var mjög indæll og skemmtilegur maður. Reyndar var þetta uppáhalds frændi minn.

En margt spennandi er á döfinni, t.d. Leiktu Betur spunakeppni framhaldsskólanna, prufur fyrir söngleik og svo æfingar á sýningu sem ég er að leika í (nánar um það síðar).

En eftir þetta blogg lofa ég hins vegar að snúa aftur í mitt gamla góða bloggform og koma sterk inn.

fimmtudagur, nóvember 6

Ég heiti Hrefna og ég er bloggari
Já góðir lesendur, ég er stolt af því að vera bloggari!
Bloggið mitt góða er minn griðarstaður þar sem hugsanir mínar láta ljós sitt skína og við tengjumst öll saman í tilfinningasúpu.

Í gær lenti ég í hörkudeilum við einn samnenamda minn hvort blogg væri bara fyrir athyglissjúkt og leiðinlegt fólk. Sá sauður virtist halda því fram að þeir sem blogguðu væru hreinlega að opinbera öll sín leyndarmál á veraldarvefnum og gætu alveg eins staðið berrössuð á Laugarveginum því það væri minna berskjaldað þar en á blogginu.

Það sem mér finnst svo skemmtilegt við blogg er að maður getur lesið um líf fólks sem maður þekkir og séð aðra hlið á þeim.
Ef ég mundi ekki blogga þá væri hausinn minn líklegast sprunginn af hugmyndum!

Ég heiti Hrefna og ég er bloggari

laugardagur, nóvember 1

Vetrarböl
Kæru lesendur.
Spennið beltin, þrengið axlaböndin,herðið slaufuna því hálkan er komin.
Já, ég segji það og meina það, hún er komin og ekki til þess að kveða burt snjóinn ónei!

Litla sögu langar mig að segja ykkur:

Í gær var faðir minn kær staddur fyrir utan sjoppu nokkra í bæ einum er kenndur er við Garða. Í sínu mesta sakleysi ætlar hann að stíga út úr bifreið sinni og ganga galvaskur inn í sjoppuna, en það vill nú ekki betur til en hann dettur í hálkunni og beint á andlitið.
Maðurinn lá þar slasaður í framan og enginn kom til hjálpar. Fólk labbaði fram hjá og enginn gerði neitt.
Faðir minn náði þó að standa á fætur og labba inn í sjoppuna og biðja um aðstoð, sem hann og fékk.
Þar sem faðir minn er einstaklega þrjóskur maður neitaði hann alfarið því að hringt yrði á sjúkrabíl og keyrði slasaður í framan heim þar sem ég tók á móti honum alblóðugum.
Ég fylltist reiði út í mannkynið sjálft og langaði helst að rífa símaskrána í tætlur og brenna hana til að ná að hefna mín á sem flestum en ég hélt ró minni.

Ég keyrði föður minn upp á slysavarðstofu þar sem gott fólk tók á móti og hlúði að honum.

Í dag er maðurinn stórskaddaður í framan, sért vart út um hægra augað. Hann er allur svartur á auganu og upp að enni og líður honum frekar illa.

Ég spyr ykkur kæru lesendur, er Ísland virkilega svona í dag?
Að fólki sé algerlega sama um náungan?
Ef svo er græt ég það sem ég á eftir ólifað, því mér finnst þetta mjög hart.
Ég vil skoðanir, hvað mundu þið lesendur góðir gera ef þið sæjuð mann á sjötugsaldri liggja alblóðugann og sárþjáðann í götunni að vetri til?

Ég vona að ég fái aftur trú á mannkyninu

miðvikudagur, október 29

Nú er úti veður vont
Ég fór á skauta í dag, án þess að borga.
Skautasvell þetta var staðsett fyrir utan hús mitt, nánar tiltekið á hellu einni sem staðsett er fyrir framan útidyrahurðina.
Er ég, nývöknuð og morgunhress steig út rann ég beint á rassinn aftur inn í forstofu sem var gott því þar er hiti í gólfi, skárra en að lenda úti í kuldanum.

Hef ég ákveðið að fjárfesta í mannbroddum þegar ég fæ útborgað en á meðan verð ég að notast við hárbroddana á fótum mér til að hindra þetta týpíska "fótbrautmigíhálku" einkenni.

sunnudagur, október 26

Frægðarsól
Frægð mín hefur farið minnkandi, og má rekja ástæðuna til sjónvarpsþáttar er sendur var út á fimmtudaginn kl 20, svo endursýndur á föstudaginn kl 18 og endurendursýndur á sunnudaginn, þ.e. í dag kl 16.

Umræddur þáttur var þátturinn 7.níu,13 á Popptívi.

Tekið var viðtal við undirritaða og Elísu nokkra Hildi sem þótti fara vel fram, þó viðtalið hafi verið klippt sérlega mikið til og stytt.
Ég fékk ófáar símhringingar um það að ég hefði verið á öldum ljósvakans, þar á meðal aldraðri frænku minni, sem horfði víst á þáttinn tvisvar sinnum.
En þó svo að viðtalið hafi farið vel fram, og frægð mín við það að ná hámarki fór hún öll út um þúfur þegar cretid-listinn kom(sá sem kemur alltaf á eftir þáttum, hverjir voru í þættinum o.s.frv). Þá var nafn mitt fyrst á lista, þ.e.
Hrefna Gunnarsdóttir..
Ég hljóp fram í skyndi og spurði föður minn, Þórarinn hvort hann hefði nokkuð skipti um nafn í flýti til að þekkjast ekki á götum úti, en svo reyndist ekki.

Sem sagt, fjölmiðlar brugðust mér, en til að kippa þessu í lag hef ég íhugað að breyta um eftirnafn, sem sagt úr Hrefna Þórarinsdóttir í Hrefna Gunnarsdóttir. (Ég gæti þá jafnvel sagt að ég væri dóttir Gunnars frá Hlíðarenda, eða Gunnars Eyjólfssonar leikara.

Hætt þessu
Hrefna Gunnarsdóttir
Fyrsti dagur vetrar
Þar sem vetur er genginn í garð vil ég óska lesendum gleðilegs veturs og megi vorið sem á eftir kemur vera blítt og fagurt.

Ég tók eftir því um í dag er ég var ein á labbi á laugarveginum að flestir, ef ekki allir voru svo rosalega mikið að flýta sér.
Í mínum hugleiðingum leit ég á klukkuna sem snöggvast og sá að hún var ekki nema 3, þannig að fólk gat varla verið að flýta sér heim eftir langan vinnudag, eða í skólann, en hvert voru allir að fara?
Af hverju þarf fólk alltaf að flýta sér?
Það er ekki eins og maður græði eitthvað aukalega á lífinu ef maður flýtir sér nú smávegis.

Ég legg til að morgundagurinn, þ.e.a.s. mánudagurinn verði flýti-laus dagur!

fimmtudagur, október 23

Afþreying
Í skammdeginu fer fólk oft að hugsa um alls konar afþreyingu til að stytta sér stundir og hindra skammdegisþunglyndi.
Í þessu bloggi ætla ég að telja upp nokkrar skemmtilegar leiðir til að stytta sér stundir, hvort sem það er heima, í skólanum eða í vinnunni.

Heima við
1. Að brosa;
Að brosa eykur styrtkingu brosvöðvanna sem þýðir að þeir virka oftar. Gott er að brosa í 3. sek, svo að slaka og endurtaka æfinguna í svona 10 mínútur daglega.
2. Segðu sjálfum þér brandara;
Gott ráð sem virkar fyrir þá alfyndnustu

Í skólanum:
3.Búði til keðjusögu með vinum þínum í tíma
Dæmi:
Lítill gaur var að labba niður Lækjarbraut, þá mætti hann litlum
dverg. Litli dvergurinn reyndist kynlífsóður perri sem hét Perrilíus. Hann var alltaf að reyna við Fórum í sálfræði, þar þurftum við að sálgreina litla gaurinn sem virtist hafa mikinn áhuga á hardcore íslensku klámi og fékk sálgreinirinn til liðs við sig að finna 3. manneskjuna í 3some með Mjallhvíti og dvergunum 5.
Mjallhvít áhvað að segja við perrilíus "hver stal kökunni úr krúsinni í gær??".
Jói svaraði; "Hahaha, ég trúi ekki að þú skulir halda að ég myndi nokkurntímann borða banana með ansjósusósu, hakki og sveppum"

Þessi saga var samin í sálfræði þegar höfundar voru að berjast við að halda vöku. Þess má geta að feitletruðu orðin eru þau sem tenga söguna saman, en hún er samin í 11 pörtum og fengu höfundar aðeins að sjá feitletruðu orðin til þess að semja sinn part við söguna
4. Horfðu út um gluggann
Ein vinsælasta skólaafþreyingin og má rætur hennar rekja aftur til 1904 þegar nemendur í skóla Eystri-Fjalla-Eyvindarhrepps heyrðu hljóð úti við og litu út um gluggann.

Þess má geta að þetta blogg var aðeins ritað vegna þess að höfundur var hugmyndasnauður og biðst afsökunar á herlegheitunum

miðvikudagur, október 22

Skyndiákvarðanir
Eins og ég hef oft og margsinnis sagt elska ég skyndiákvarðanir og hluti sem koma á óvart.
Um kl 21:30 hringdi í mig ungur drengur að nafni Örlygur úr sjónvarpsþættinum sívinsæla 7.9.13 sem er eimmit sýndur á miðvikudagskvöldum á popptívi og bað mig um að koma í viðtal í fyrrnefndum sjónvarpsþætti.
Þar sem ég er nú þekkt fyrir frumkvæði og skemmtilegheit ákvað ég að slá til með henni Elísu Hildi.
Viðtalið gekk eins og í sögu og verður því sjónvarpað sem áður sagði annað kvöld; miðvikudag kl 20:00.

mánudagur, október 20

Af haustverkum
Er ég vaknaði á laugardagsmorgun hélt ég bókstaflega að ég yrði ekki eldri.
Ég, í mínu mesta sakleysi labbaði inn í eldhús og ætlaði að seðja hungur mitt.
Þá brá mér heldur betur í brún er ég sá tvo hausa af kindum á borðinu og það fyrsta sem flaug í gegnum hugann var; "Nei!, Ekki Inga" en það var nú bara grín.
Nei svona í alvöru talað að vakna, vera hálf sofandi og sjá sviðahausa á eldhúsborðinu.
Svo fór ég aftur að sofa, og var að vonast til þess að kindahausarnir væru bara vondur draumur. En er ég vaknaði gekk ég sem fyrr inn í eldhús og sá þar svínaskrokk í bala.

Ég hugleiddi sem snöggvast hvar ég hefði nú eiginlega sofnað, í sláturhúsi eða heima hjá mér. Var móðir mín endanlega búin að missa vitið?

Ég hef ekki enn fengið svar,

Það er nú margt skrýtið í kýrhausnum.

sunnudagur, október 19

Sigur
Með gleðitár í auga tilkynnist það hér með að ég hef unnið stríðið við frú matsölu.
Frú matsala bað undirritaða afsökunar á atburði þeim er gerðist síðastliðinn miðvikudag á föstudaginn var og þýðir það enn einn sigur fyrir mótmælendur!


Til stóð að fagna þessum sigri með keilumóti í kvöld, en þar sem helmingur "grúbbunnar" ákvað að fara í sumarbústað og bjóða ekki hinum betri helming með verður ekkert að því móti.
Í stað keilumótsins fer fram rykkornatalning heima hjá mér á sama tíma og áætlað keilumót átti að vera.

Sjáumst í skítagallanum með rykgrímur

miðvikudagur, október 15

enn er heyjað stríð
Stríði okkar við matsölu FG-inga er ekki lokið.
Svo virðist sem matsalan hafi aðeins verið að blekkja okkur saklausa nemendur, og við sáum ekki í gegn um þá blekkingu fyrr en í dag, nánar tiltekið um 12:45.

Eins og svo oft áður var "grúbban" mætt til að snæða hádegisverð, í matsal nemenda kl 12:30.
Nýlega fengum við hugmynd að panta okkur pizzu á miðvikudögum, svona 10 stelpur saman í stað þess að kaupa sneiðar á þriðjudögum dýrum dómum í matsölunni.
Þetta var ákveðið vegna þess að tvær ungar stúlkukindur eru innhverjar í Hróa Hattar mafíunni sem svo margir hafa heyrt um og fá þess vegna vægan afslátt.

En í dag varð breyting á.
Frú matsala sjálf bannaði okkur að panta pizzur og borða þær í matsal vorum.
Þegar við, saklausar stúlkurnar spurðum um ástæðuna fengum við aðeins svarið;
"hvernig haldiði að það væri ef allir kæmu með aðkeyptan mat, eða nesti heiman að? Þá mundi matsalan fara á hausinn" Svo var okkur einnig tjáð að maður ætti að spyrja um leyfi ef maður kæmi með mat annars staðar frá.

Sem sagt, það er ætlast til að nemendur kaupi mat úr matsölunni, en hvað með þá sem eiga engan pening?

"Það eiga nú allir foreldra sem láta börn sín hafa pening fyrir nesti" svaraði frú matsala.

Sem sagt, það er ætlast til að maður vaði í seðlum til þess eins að geta á hverjum degi keypt sér mat í þessari blessuðu matsölu.

Ég spyr, fer matsalan virkilega á hausinn ef 10 stelpur panta sér pizzu einu sinni í viku? Og ef maður asnast til að smyrja sér samloku heima verður maður þá að spyrja með væmnum svip "má ég borða samlokuna mína í matsal yðar, frú matsala?"

Mitt svar er allavega NEI, og tek ég þetta mál fremur alvarlega því ég hélt að eftir síðustu mótmæli hefðum við skilið við matsöluna á góðum nótum, en svo virðist ekki.
Ég mótmæli, og vona að við mótmælum öll!

þriðjudagur, október 14

Ef ég væri strætóbílstjóri;
Alla mína ævi hefur mig langað til þess að vita hvernig það er að vera strætóbílstjóri.
Hvergi getur maður séð jafn ólíkt fólk á sömu stund á sama stað.
Í einu horninu situr gamall maður að gefa upp öndina, og við hlið hans gutti sem er nýbyrjaður í skóla.

Í dag fór ég að spá hvernig strætóbílstjóri ég mundi vera og setti því saman listann; ef ég væri strætóbílstjóri

Ef ég væri strætóbílstjóri:
>mundi ég alltaf stjórna hópsöng í vanginum mínum
>mundi ég alltaf keyra á löglegum hraða
>mundi ég gefa fólki heitt kakó þegar kalt væri úti
>mundi ég fara í leiki við aðra strætóbílstjóra í gegnum talstöðina, t.d. "hver er maðurinn", og hinn sívinsæla "hver stal kökunni úr krúsinni í gær?"

En á meðan ég er ekki strætóbílstjóri verð ég að sætta mig við að þykjast vera slíkur heiðursmaður.

föstudagur, október 10

yfirlýsing
Í gær vafraði ég, eins og svo oft áður inn á heimasíðu vina minna í Liebekosung.
Þar las ég að tvær , ja nú veit ég bara ekki hvað ég á að kalla þær, segjum bara tvær skítugar stelpusálir hafa stofnað síðu gegn Liebekosung meðlimum.
Ég vöknaði um augu, og fylltist reiði þegar ég fór inn á síðuna þeirra og las óhróður um góðvini mína og fyrirmyndir.

Ég vitna í dagbók þeirra;
"Aldrei á ævinni höfum við verið svona hneykslaðe eða bara e-ð svoleiðis en þetta er ógeðslega mikill dónaskapur sem þeir hafa nú gripið til á www.liebekosung.tk ég held að nú sé komið nóg. Við leggjum til an nú verði safnað liði og gerð árás á höfuðstöðvar þeirra óknytta sem stjórna liebekosung(sjá topp 2) en við viljum bara enda á því að öll framlög litil eða smá eru velkominn þá í formi stuðningsbréfa á velvild@hotmail.com."

Þvílíku hatri hef ég varla kynnst.
Þessir strákar eru bara friðelskandi drengir sem gera vart mikið mein, og eru bara að reyna að skemmta sér og öðrum.

Ég lýsi því hér yfir að ég styð Liebekosung meðlimi í einu og öllu, og skal ég heyja stríð ef til þarf, þó vonast ég til að þessar deilur verði leystar á friðsaman hátt, því bæði spjót mitt og skjöldur eru brotin síðan úr síðasta bardaga.

Ég styð Liebekosung eins og mitt eigin landslið, og hvet ég alla sem lesa þetta blogg mitt að skrifa nöfn sín hér að neðan í commentin því við munum sigra gelgjurnar, það er enginn vafi.


miðvikudagur, október 8

Tilkynning:
Það tilkynnist hér með að höfundur er hættur að taka strætó, og hefur ný bifreið komið í hans stað.
Sú bifreið ber nafnið Margeir og er silfurgrár að lit og fagur ásjónu.

Ástæða þessa breytinga er sú að höfundur hefur loksins fengið leyfi hjá yfirvöldum og æðri mátti að keyra bifrein einn og óstuddur.

Sem sagt, fyrir þá sem eru lélegir í að lesa á milli línanna, hef ég fengið bílpróf.

Allir þeir sem af einhverjum ástæðum mótmæla þessum ráðahag geta haft samband við mig í gegnum rafpóstinn minn, farsímann eða einfaldlega komið af stað þrýstihóp, sem gæti þá skipulagt mótmæli fyrir framan húsið mitt.

mánudagur, október 6

Hrebbna spæjó
Ég, Hrebbna Spæjó hef komið upp um samsæri.
Menntamálaráðneytið og Lyfja eru í einu stóru samsæri, gegn æsku vors lands.
Með því að láta okkur lesa sögur um morð, svik, blekkingar og hvað lífið sé nú ömurlegt og tilgangslaust er helmingur okkar orðinn bitur og þunglyndur.

Ég tel, að þetta sé gert í þeim tilgangi að auka sölu þunglyndislyfja, og leysa fjölgun nemenda í framhaldsskóla.

Allt er þetta eitt stórt samsæri
það sem ég skil ekki
Í gærdag fór ég á veraldarvefinn eins og svo oft áður og leit eitt augnarblik á tölvupóstinn minn.
Ég fékk tölvupóst frá einhverju Bandarísku fyrirtæki um að mér væri boðið að taka þátt í einhverri könnun.
Þar sem forvitnin ræður yfir mér ákvað ég að kíkja aðeins á þessa könnun.
Verið var að kanna lífstíl fólks og var meðal annars spurningin "do you smoke?".
Auðvitað svaraði ég "no", og hélt bara áfram að vera friðelskandi lítil dama.

Síðar, þ.e.a.s. fyrir nokkrum augnarblikin fór ég aftur á veraldarvefinn og leit enn og aftur á tölvupóstinn.
Sjaldan hef ég hlegið jafn dátt innra með mér, því ég fékk annan póst frá þessu bandaríska fyrirtæki sem á stóð;"trying to quit smoking?"
Þetta fannst mér pínulítið kjánalegt, þar sem ég sagði í þessari könnun að ég reyki ekki.
En samt langar mig að nota þessi 7 ráð til að hætta að reykja, bara í gríni.

sunnudagur, október 5

endurfæðing
Ég endurfæddist í nótt.

Sjáiði til.
Fyrir mörgum árum, segjum svona 8-9 árum byrjaði ég að semja ljóð og sögur.
Alla jafna hef ég samið ljóð eða sögu um allt sem gerist í kringum mig og er ég komið með dágott safn sem ég geymi i kassa inni hjá mér.
En einn febrúardag missti ég hæfileikann til að semja, hann bókstaflega hvarf.
Ég, skáldið mikla hef ekkert samið síðan í febrúar en í nótt kom það,

Ég lá andvaka í rúmi mínu og skyndilega fékk ég hugmynd af ljóði.
Ég raukk upp á páraði það niður á blað.

Mér leið eins og hefði endurfæðst.

Ó, hversu létt ég er allt í einu.

laugardagur, október 4

Góðir hlutir gerast.. hægt
Ég tilkynni lesendum það með gleðibros á vör að mótmælendur hafa unnið stríðið við matsölu nemenda í FG.
Varningur matsölunnar hefur lækkað, en hefur samt ekki náð sama gamla verðinu, en nóg er lækkunin fyrir okkur,mótmælendur.

Þó svo að hungurverkfall okkar hafi ekki staðið lengi hafði það greinilega einhver áhrif.. ikke?

Æ , hvern er ég að plata? Hungurverkfallið náði aldrei hámarki, því að matsalan lækkaði verð á sínum varningi sama dag og umrætt verkfall átti að hefjast.


Þá er bara að leita að nýjum og ferskum mótmælaefnum.

Máské maður fari bara að mótmæla mótmælum?

fimmtudagur, október 2

eftirlýstur
Ég auglýsi enn og aftur eftir stuðningsmanni Hallgerðar Langbrókar.
Það hlýtur einhver þarna úti að vera jafn mikið skass og hún sem skilur erjur hennar?

Skráning í commentin!

miðvikudagur, október 1

Spítalarar
Þar hef ég löngum dvalið, en nú þeysist maður milli spítala.
Ef það er ekki út af klaufaskap í sjálfri mér, eru aðrir veikir.
Faðir minn var lagður inn á slíka stofnun núna á mánudaginn, ekki leist mér nú á það.
Karlinn er örlítið veikur fyrir hjartanu og var lagður inn á hjartadeild.
Þar fékk hann stofu eins og hver annar maður, en í stofunni var ekki, mér til undrunar sjónvarp.
Þegar ég spurðist fyrir um hver ástæðan fyrir sjónvarpsleysinu á stofunni væri var mér tjáð það að "hjartveikir" sjúklingar mættu ekki horfa á sjónvarp vegna þess að of mikið stress og spenna stafaði oft af sjónvarpsglápi.
Ég skildi þetta sem sagt þannig, að hjartveikir mættu ekki horfa á sjónvarp vegna hættu á að þeir fái hjartaáfall og jafnvel létust.

Greyjið faðir minn sem er nú forfallinn frétta- og íþróttafíkill verður nú að sætta sig við fréttir í gegnum dagblöð og úrslit úr fótboltaleikjum fær hann hjá móður minni.

Ég vona að karlinn losni bráðlega af spítalanum svo hann farist nú ekki vegna skortar á sjónvarpsglápi.
Það er nefnilega úr svo mörgu að velja þessa dagana.
Skjár einn, Skjár tveir, Stöð 2, Stöð 2 plús.
Hvert er Ísland að fara?

Munum við bráðum sjá Stöð 2 plúsíöðruveldi, endursýningar á endursýningu?
Eða jafnvel Rúv plús, æ nei guð forði okkur frá því!

Að sjá Gísla Martein endursýndan, hann er nú nógu ferlegur í frumsýningu, hvernig er hann þá í endursýningu.

Það væri nú bara eins og að drepa mann tvisvar verð ég að segja.



Ath: Höfundur var á sterkum verkjalyfjum við skrif þessa bloggs. Skoðanir hans eru ekki á ábyrgð Apóteksins, Smáralind.

mánudagur, september 29

af grínurum..
Í dag fékk ég upphringingu.
Sem væri nú varla frásögufærandi ef ekki efði verið fyrir upplýsingarnar á skjánum "call"..sem sagt, einhver að hringja úr leyninúmeri.
Ég svaraði og á hinni línunni var grínisti framtíðarinnar sem á milli hlátursgusa náði að kreista úr sér orðin;
"Hvað finnst þér um hrefnuveiðar, Hrefna?".
Það virtist koma stráksa að óvörum að ég hafði skoðun á þessu máli, og lét gaminn geysa, þangað til að skellt var á.

Þetta var grín dagsins.

Reyndar rakst ég á í dag á veraldarvefnum, er ég átti að vera einbeittur nemandi í dönsku, þessa skemmtilegu síðu.. sem er tvímælanlaust betra grín dagsins.
Það er ekki nóg að hafa þetta grín dagsins.. grín ársins.
En fyrir þá sem ekki vita, er þetta hún Inga

föstudagur, september 26

skondið
Eins og ég hef margoft sagt hér vinn ég í versluninni Bónus, Hafnarfirði.
Oftar en ekki koma til mín konur, með börn sín.
Tökum dæmi:
Kona kemur að kassanum með barn c.a 1 árs í körfunni. Barnið hefur fengið súkkulaðistykki í hendurnar inni í búðinni til að róa það aðeins niður og þegar kemur að því að borga það segjir móðirin ; láttu konuna fá aúkkulaðið.
Konuna? Er ég allt í einu orðin kona?
Ég, sem er rétt nýfermd.. eða ekki.. en allavega hélt ég í minni vitleysu að kona væri einhver sem væri kannski komin yfir 30 aldurinn.. ekki 17.
Mér finnst ég varla orðin dama, hvað þá kona?

Er þetta ég?, er ég svona konuleg?
Á ég að fara að kaupa mér ömmuilmvatn og slæður?

Er ekki hægt að finna annað orð yfir okkur kvenmennina á aldrinum 17-30 ára.. eitthvað sem er auðvelt að bera fram og auðvelt að muna.
Þá er ég ekki að tala um orð eins og ;gella,skonsa og fleiri orð sem ég skammast mín bara að setja út fyrir mínar varir.

Ég auglýsi hér með eftir góðu og gildi Íslensku orði yfir kvenmenn á aldrinum 17-30 ára.. orðið dama er ekki tekið gilt.


Já, ég auglýsi einnig eftir stuðningsmanni Hallgerðar Langbrókar.. Íslenskukennara mínum virðist mikið í mun að finna stuðningsmann fyrir þetta skass sem fyrst.

þriðjudagur, september 23

Samsæri
Mig langar að segja ykkur stutta sögu.
Reyndar ætla ég að gera stuttu sögu langa, og rekja hana frá upphafi til enda.

Þegar ég byrjaði í skólanum mínum, FG var mér kynnt þessi frábæra matsala sem er staðsett á neðstu hæð skólans.
Ég var yfir mig hrifin, því matsala þessi seldi vörur á lágu verði og ekki voru gæðin að spilla fyrir manni.

Nú í ár mætti ég hress og kát í skólan eins og vera ber, og viti menn er ekki enn þetta frábæra verð í matsölunni.
En allt breyttist þetta í gær.


Í sakleysi mínu ætlaði ég að kaupa mér skyr.is og trópi eins og siður er hjá mér, en mér féllust hendur þegar ég heyrði heildarupphæðina 200 kr.
Áður hef ég alltaf keypt þennan sama varning á 140 kr, en skyndilega hafði allt hækkað í verði á matsölunni.
Ég ætlaði að gubba á manneskjuna sem stóð hinu megin við borðið af undrun og hætti við viðskipti mín.
Þegar ég fór að tala við samnemendur um þessa skyndilegu hækkun vildum við vita af hverju þessi hækkun stafaði.
Um hádegið í gær var svo hengdur upp miði í matsölunni og á honum stóð;
"Vegna lélegrar umgengni í matsölu nemenda hefur verið tekið ákvörðun um að hækka allan varning matsölunnar um vissa upphæð til að standa undir kostnaði á brotnum glösum, bognum hnífapörum og brotnum diskum."
Nú er ég hlessa, eru samnemendur mínir svo óþroskaðir að ekki er hægt að treysta okkur fyrir glösum og hnífapörum?
Er kostnaðurinn svo mikill að matsalan er komin í mínus?
Af hverju fengum við enga viðvörun?
Svo er eitt. Ég, normalnemandi hef aldrei á ævi minni fengið hnífapör eða diska lánaða í skólanum.
Þarf ég þá að gjalda þess að fólki er ekki treystandi? Þarf virkilega að hækka allar vörur um 20-50% til að eiga fyrir nýjum borðbúnaði.
Af hverju eru þá ekki notaðir pappadiskar og plasthnífapör?

Ég mótmæli þessari ákvörðun skólastjórnar og fer í hungurverkfall á skólatíma!

sunnudagur, september 21

aftur og nýbúin
Já, ég vil enn og aftur minna dygga aðdáendur mína á að skriflega bílprófið verður endurtekið á morgun á sama tíma uppi í Frumherja, þ.e.a.s. kl 15:00.
Sá sem mætti með lúður síðast er vinsamlegast beðinn um að skilja hann eftir heima, hann var of hávær.
Hins vegar væri gaman að sjá gítarstemningu, Inga gæti þá séð um það.

Ég vil einnig þakka pent samúðarkransinn sem ég fékk sendan á þriðjudaginn.
Við skulum bara vona að ég komi til með að taka á móti hamingjuóskarkrönsum á morgun, ekki samúðar-fall- krönsum.

Skráning í klappliðið stendur enn yfir hér í commentakerfinu að neðan.

laugardagur, september 20

Heimilið liggur niðri
Jú mikið rétt lesendur góðir, heimili mitt liggur niðri vegna veikinda.
Faðir minn liggir sárþjáður af flensu og mamma þvertekur fyrir það að hún hafi nælt sér í kvef, þrátt fyrir hóstaköst og snýtingar af bestu gerð.

Það sem maður tekur helst eftir þegar heimilisráðendur eru í veikindafríi er að oft vantar mat í ískápinn, klósettpappír er af skornum skammti vegna ofsnýtinga, og þar af leiðandi eru kuðlaðar bréflkúlur með hori í á víð og dreif um húsið.
Þið afsakið máské hversu beinar lýsingar voru hér, en svona eru veikindin hér á bæ.

Ég held að áðan á tímabili hafi móðir mín alvarlega hugleitt að hringja á taxa eftir tissjúi, því auðvitað er enginn hér með fullri heilsu. Allir með hor í heilahvelinu og stíflað nef.


En gaman er að segja frá því að áðan fór ég í eltingaleik.
Nei, ekki við systur mína.
Ekki heldur við nágrannastelpuna, heldur garðstólana hennar mömmu.

Þeir hafa um tíma verið hennar mesta stolt, fyrir utan yngstu dótturina (mig).
Garðstólar þessir voru komnir hálfa leið út á götu þegar ég loks náði að elta þá uppi.. hver leyfði þennan vind eiginlega?

En svona til dægrastyttingar ætla ég að fara að snýta mér.

Far vel

fimmtudagur, september 18

hvurslags

Já.. eitt orð til að lýsa deginum?
undarleg tifinning

Rétt í þessu fékk ég þessa undarlegu tilfinningu eins og eitthvað sæti á öxl minni... það var enginn sem sótti um lendingarleyfi hjá mér.

Fyrsta sem ég hugsaði um var sjóræningjar.. af hverju?
Jú það var vegna þess að þegar ég var lítil voru illmenni teiknimyndanna sjóræningjar með páfagauka á öxlinni. Alltaf langaði mig í svoleiðis.. svona gauk sem rífur stólpakjaft.

Ef einhver á svona páfagauk.. þó það væri ekki nema tuskubrúða mætti hann gjarnan lána mér hana í sirka dag eða svo.. bara til að fá fílinginn.

mánudagur, september 15

nafnlaust blogg.. vegna skortar á hugmyndum
Er heimurinn í einhverju samsæri gegn mér?
Þessi dagur var sko ekki minn happadagur.
Þetta byrjaði allt á því að ég var í ensku í morgun, þar sem fyrsta blogg dagsins var skapað. Ég, í sakleysi mínu ætlaði að fara inn á www.hugi.is og skoða mig þar um og segja skoðanir mínar á hinum ýmsu hlutum.
Nei, haldiði að það sé ekki bara búið að loka fyrir síðuna, ekki smuga að komast inn! Ég var ekki sátt!
Svo komst ég að því að ég væri að fara í dönskupróf sem gildir 10% tak så meget en mín bara skrópaði vegna hræðslu við kennarann sem er svo yfirþyrmandi gáfaður að manni líður eins og lítilli kuskkúlu sem er föst á sokki hennar og hún er að reyna að ná af með pirringi.. ég held að það sé vegna þess að hún er með doktorsgráðu.

Svo tók ég þetta blessaða bóklega bílpróf og féll með sóma. Fékk 3 villur í fyrrihlutanum og 1 í þeim síðari.. en í fyrrihlutanum er aðeins leyfilegt að hafa tvær

Ég kenni dönskukennaranum um þetta.

En ég vil benda aðdáendum á það að commentakerfið er eitthvað gallað í augnarblikinu og þarf að ýta á "refresh" takkann til að sjá síðuna í réttu ljósi með commentakerfi og alles.

En eins og ég hef alltaf sagt.. þetta kemur allt með kaldavatninu.. nema það sé farið.
kvíði
Já kæru lesendur, nú er loksins komið að því, ég er að fara að taka bílpróf.
Í dag kl 15:00 er ég bókuð í bóklegt próf og vona ég bara að ég nái.
Þrátt fyrir veikindi hef ég lesið myrkranna á milli, í herberginu mínu, við tölvuna, inni í eldhúsi, í bílnum, og á klósettinu.

Dyggum aðdáendum mínum er bent á að koma fyrir framan Frumherja um fjögurleytið til að taka á móti mér eftir prófið.
Ekki get ég lofað hvort ég verði glöð eða alveg bandbrjáluð.
En ég veðja á bandbrjáluð.


Bækur eru nefnilega að sniðugar að það er hægt að taka þær með hvert sem er.
Já, þið sem ekki enn eruð búin að uppgötva bækur ættuð að skella ykkur á bókasafn sem allra allra fyrst, þ.e.a.s. ef þið vitið hvað bókasafn er.

En best að snúa sér aftur að enskutímanum sem ég er víst í , maður er nú í honum til þess að læra.
Annars væri skólinn bara griðarstaður til að hitta vini og borga háar fjárupphæðir fyrir bækur sem ekki væru opnaðar.
Best að nýta peninginn sem allra allra best og nota bækurnar sem stóla. Gott er að stafla þeim nokkrum saman upp og tilla sér síðan lauslega á þær.
(ég persónulega mæli með bókinni Stærðfræði 3000, þeirri bláu og ekki skemmir að nota þá grænu með)

föstudagur, september 12

þetta fullorðna fólk er svo skrýtið

Nú í þessum töluðu orðum fer fram keppni í Ungfrú Evrópu og er henni sjónvarpað alla leið hingað á kalda skerið.
Þó ég heyri aðeins orð hér og þar berast inn í herbergi frá sjónvarpsholinu get ég glögglega greint að keppnin fer fram á frönsku og ensku.. já nú kemur sér vel að hafa tekið frönsku 103. Mér finnst ég alveg hámenntuð að geta þýtt orð eins og ce soir, merci og fleiri og fleiri orð.
Reyndar held ég að móðir mín blessaða taki þessa keppni einum of alvarlega.
Vildi ég að þið lesendur kærir gætuð verið flugur á vegg, því viðbrögð hennar eru slík að ætla mætti að hún væri að hórfa á úrslitaviðureign í enska boltanum.
Hún stendur upp og hrópar; "nei andskotinn hafi það.. þessi pólska komst inn"
og bölvar kynninum, alveg eins og á fótboltaleikjum.
Eftir keppnina býst ég við að hún fari út að brenna eitthvað til að reyna að koma af stað óeirðum.

fimmtudagur, september 11

Líf mitt, sem grískur harmleikur
Mér þykir leitt að tilkynna það að ég var eigi svo lukkuleg að ná miða á MH ballið í tæka tíð. Þó svo að ég hafi tilkynnt Tyrfingi hátíðlega að ég ætlaði að mæta blindfull og grína aðeins í honum.
En það var þó sköminni skárra, því ég gat mætt á mína eigin dragkeppni sem fór bara andskoti vel fram!
Á sviðinu mátti sjá Olgu Ferseth skoppa bolta, Mimi úr "Drew Cary show", Ingibjörgu Sólrúnu og fleiri og fleiri úr þotuliðinu.
Annars hefur voðalega lítið að ske í mínu annars óspennandi lífi, . fyrir utan framhjáhald, svik, ráðabrugg og launráð.. nei annars það var í Glæstum Vonum

En eftir allt þetta dragstand fylltist ég löngun til að setja á svið keppni fyrir stelpur, að klæða sig upp sem karlmenn, líkt og karlmenn klæða sig upp í kvenmansföt.. þó svo að keppnin tæki nokkur ár að festa sig í sessi væri það alveg þess virði. Stelpur í jakkafötum.. stelpur í vinnugöllum..stelpur í mörgæsasmóking og svo framvegis.. hvernig væri það?




þriðjudagur, september 9

tímarugl
Tíminn líður svo hratt að ég er hrædd um að missa af jólunum!
En nú styttist óðara í ball MH sem er á fimmtudaginn og hlakka ég ekkert smá mikið til!
Glöggir lesendur taka máske eftir því að ég hef stuðlað að nokkrum breytingum hér á síðunni.
Tveir nýjir þættir hafa litið dagsins ljós og eru þeir; Á döfinni og Afmæli
Hugmyndir að fleiri þáttum eru vel þegnar!

sunnudagur, september 7

Þa víkend
Ji minn eini, bissý bissý bissý verð ég að segja.
Ég er svo mikið bókuð þessa dagana að ég verð að skipuleggja eigin klósettferðir.
Ef einhver er með smá tíma aflögu væri ég alveg til í að borga dágóðan pening.
Máske ég fái mér bara svona aðstoðarmann, svona eins og í myndinni Van Wilder. Það væri nú gaman og gleðilegt.

En ef helgin á að vera rakin hér , verður það aðeins stutt, og hnitmiðað:
Á föstudaginn byrjaði ballið niðri í MH, þar sem ég og Anges vorum soldið desperate ef við notum það fágaða orð, og kíktum aðeins á busadjamm. En þar sem Hrefna Sif var í gæslunni var þetta bara fínasta mál.
Svo kíktum við niður í bæ, þar sem farið var inn á Vídalín, og var það bara hið mesta gleðiefni, hitti ég nokkra kunningja og allir voru hressir.
Reyndar stakk Hrefna Sif okkur af og við festumst niðri í bæ, en tókum bara taxa heim á leið.
Laugardagurinn er enn í móðu.

En á föstudaginn átti skemmtileg pæling sér stað. Ég og Agnes vorum staðsettar í Smáralind, og vorum í hraðbanka. Þá fór ég að spá, hvernig væri að vinna í hraðbanka?
Auðvitað væri þetta vaktavinna, og soldið þröngt að sitja inni í hraðbankanum, en þetta er skemmtileg hugmynd.

En ég hvet alla til að mæta á dragkeppni Fg sem verður haldin í Urðarbrunni, hátíðarsal FG, næstkomandi fimmtudag kl 20:00, þ.e.a.s. þá sem ætla ekki á MH Busaballið.

fimmtudagur, september 4

ó, vor æska
Ég fylltist hryllingi fyrir stundu er ég var í sakleysi mínu vafrandi um á veraldarvefnum.

Iðulega fer ég inn á síðunahugi.istil dægrastyttingar. En ég fékk nóg.
Ég var stödd á áhugamálinu Rómantík og rak augun í könnun. Það sem vakti viðbjóð hjá mér er grunnhyggi sumra einstaklinga sem spurtðu: hvort vildir þú vera með manneskju sem er skemmtileg og ljót, eða falleg og leiðinleg.
Hversu grunnur er hægt að vera? Ég sem hélt að ást kæmi innan frá, og ekki skipti máli hvernig manneskjan liti út að utan, heldur að innri manneskjan væri málið.
Ég hélt alltaf að einhverjum gæti fundist ákveðin manneskja falleg, þó að aðrir í kringum hann væru ósammála.
Ég sem hélt að sá sem maður væri hrifinn af væri alltaf sá fallegasti og besti í heiminum þá stundina.. en ég hafði greinilega rangt fyrir mér.

Erum við virkilega orðin svo grunn að útlit er farið að skipta okkur máli.. þarf ég að spyrja.. auðvitað er útlit farið að skipta máli. Annars væri ekki helmingur íslendinga í fínu formi og sólbekkjabrúnn. Er ég gamaldags að vilja bara maka sem er sá sem hann er, og reynir ekki um of að vera einhver sem hann er ekki?
Mér er alveg sama þótt sá sem ég er hrifinn af sé ekki súkkulaðibrúnn og með mikinn massa, flott hár og fallegar tennur. Bara að ég hrífist af honum.

Ég þarf greinilega að fara að hugsa minn gang, rækilega ef þetta er málið.
Hot spring river this book?
Já kæru lömb, dagarnir líða hjá eins og fiðrildi á kynþroskaskeiði eins og ég hef sagt áður og mun segja oftar í framtíðinni með þessu áframhaldi.
Ég stóð statt og stöðugt á því í gær að það væri þriðjudagur en ekki miðvikudagur, og ætlaði að fara í þriðjudagsgírinn er ég vaknaði, en nei.
Þegar ég leit á Morgunblaðið sá ég að það stóð; Miðvikudagurinn 3.september...var heilum degi stolið af mér? Eða leið hann svo hratt að ég tók ekki eftir honum?

Mikið að gera, voðalega mikið að gera. Og aftur stend ég í sömu stöðu og síðast þegar ég bloggaði.. ég þarf að velja á milli tveggja atburða sem eiga sér stað fimmtudaginn 11. september næstkomandi.
Fyrir löngu, þ.e.a.s tveimur vikum var ég búin að bóka mig á Busaball MH sem á að halda þetta kvöld, en það kom í ljós í gær að dragkeppni FG verður haldin á sama tíma. Þar sem ég er nú fulltrúi listanefndar verð ég að undirbúa atburðinn að minnsta kosti, er svo ekki bara málið að fara á ballið eftirá?

Segjum það bara...

En mér finnst rosalega dræm mæting á þessa síðu, fyrir utan aðdáenda nr.1 hana Kristínu sem heimsækir mig reglulega.
Góðir gestir, ég vil biðja þá sem sækja síðuna að rita í svokallaða gestabók sem telst nú hin almenna kurteisi að ég tel. Einnig meiga áhugasamir skrifa sínar skoðanir á blógi mínu hér í commentin að neðan.
Svo lofa ég að verða duglegri að blogga...

Samþykkt?

fimmtudagur, ágúst 28

mót-m-æla
Ég rís upp og mótmæli sjálfri mér. Ég er ung og hress og hef undanfarna daga ekki séð mér fært um að blogga.. hvílík endemis vitleysa.
Auðvitað á maður að finna tíma fyrir alla vini sína, og bloggið er einn af mínum nánustu vinum.

Helstu ástæður bloggleysis má rekja til:
þreytu
mótbárur foreldra, vilja frekar hringja í gamla og gleymda ættingja en að leyfa sinni fögru dóttur að fara á internetið
að skólinn er byrjarður, sem þýðir mikil heimavinna

Já, það er nú bara einu sinni þannig krakkar kærir.

En undanfarna daga hefur margt gengið á, og má þar nefna Foo Fighterstónleika sem voru alveg hreint unaður.

En í gær var frekar góður dagur.
Busadagur FG, sem þýðir aðeins eitt; blautir og skítugir busar.
Busavígslan var ógeðfelldari og alvarlegri heldur en í fyrra, en ég segji ekki harkalegri og hávaðameiri.. því það mun aldrei vera toppað frá fyrra ári!
Nenni ég ekki að rekja busavígsluna hér, en má segja að hún hafi verið frekar blaut.
Eftir busavígsludótaríið var svo haldið til tannlæknis sem sannfærði mig um það að ég hefði enn allar tennur uppi í mér, þó ein væri ónýt og þyrfti að fjarlægja.. ekki sátt við það.. þetta er prýðistönn!
Svo hitti ég Kókó og Rolluna, þ.e. Viggu og Ingu niðri í bæ og förinni var síðar heitið niður í MH, þar sem Vigga fór í kvöldskólann og ég og Inga redduðum ýmsu fyrir góðvini okkar í Ofleik, máluðum þetta líka fína skilti og hengdum upp plaggöt.

Svo í dag var fyrsti leiklistartíminn í Leiklist 103 og verð ég að segja að ég er bjartsýn á önnina sem er framundan. Þetta er einstaklega góður hópur, þó svo að sauðir leynist inn á milli. Farið var í leiki til að hrista hópinn saman og fleira.. ég bíð spennt eftir næsta tíma.

Þess má geta að ég er í pínkuponsulitlum vandræðum.. ég er tvíbókuð annað kvöld og þríbókuð á laugardaginn.. hvad skal man göre?
Annað kvöld er saumaklúbbur hjá Álftanespíkunum, og einnig Jagúartónleikar í MH.
Þar sem Jagúar er ein af uppáhaldshljómsveitum mínum hallast ég frekar þangað.. en ég veit samt ekki.
Svo á laugardag á ég að vera í vörutalningu í Bónus, keppa í Idol og fara í afmæli til Bergdísar... úff hvað á ég eiginlega að gera í þessu öllu saman?
Svar óskast í commentin!
Nú er ég farin að læra

mánudagur, ágúst 25

.... á breytingaskeiði
Ég hef komist að því að ég er á breytingaskeiði.
Í dag ákvað ég fullt af hlutum sem ég ætla að gera og tók stóra ákvörðun sem varðar framtíð mína, en hún verður að bíða birtingar til betri tíma.
Ég er búin að vera rosalega dugleg í dag að breyta um mataræði og hætta öllu sem er óhollt.
Ég er búin að fara út að skokka og er að spá í að fara aftur.
Ég breytti herberginu mínu í gær og er þetta bara komið nóg.


Ég las áhugaverða grein í dag um það að það ætti að banna reykingar á skemmtistöðum og kaffihúsum.. hvað er fólk að spá?
Nú reyki ég ekki og hef aldrei reykt og ég finn til með reykingamönnum.
Eiga reykingar nú að verða skammarlegur hlutur? Á fólk að skammast sín fyrir að fara í reykpásur og fara huldu höfði í sjoppur til að kaupa sér sígó?
Hvar á blessað reykingafólkið að reykja á djamminu? Eiga allir að safnast saman í húsasundinu bakvið skemmtistaðinn og reykja þar?
Hvað er að fólki? Ég finn til með ykkur reykingafólk, og ef þetta heldur svona áfram stefni ég að því að setja á stofn kaffihúsakeðju sem má reykja í, fyrir reykingafólk og vini þeirra.
Ég skilur ekki þessi íslendingur.

sunnudagur, ágúst 24

Sunnudagur og allt tilbehör
Já í dag er sunnudagur.
Eini munurinn á sunnudegi og laugardegi er, að mér finnst sá að á sunnudegi er styttra í mánudag heldur en á laugardegi.. ikke?

Sunnudagslærið var komið í ofninn um 11 leytið í morgun, vá hvað mér leið bara alveg eins og þegar ég var undir 10 ára aldrinum.
Engar áhyggjur.. það er sunnudagur og á sunnudögum fær maður kvöldmatinn snemma. eða um svona 2 leytið.
Það hefur ekki tíðkast í nokkurn tíma að vera með læri á slíkum degi, en þar sem ég og systir mín elskulega erum báðar í fríi ákvað móðir okkar í kvíkví að elda læri og allt tilbehör.. rosalegt!
Svo til að toppa allt fór ég í 4 bíó með litlu frænku minni á "Pabbi passar" eða "Daddy Day Care" sem ég mæli ekki með, sérstaklega ekki á íslensku tali.

Ég uppgötvaði loks að ég var stödd í barnabíói þegar:...
#Krakki fyrir aftan mig byrjaði að sparka í sætið, endalaust
#Allir krakkar hlæja þegar einhver dettur í stiganum í salnum
#Allir fóru að syngja með þegar "Open Your Heart" með jú nó hú var spilað fyrir myndina
#Salurinn hló að kúk-og-piss bröndurum


Ó, hve fögur er vor æska ekki satt?

föstudagur, ágúst 22

köstin
Endrum og eins kemur fyrir að ég fæ köst af ýmsum toga.
Sem dæmi má nefna;
flippköst
"verð að vera ein" köst
hlátursköst
æðisköst
athyglissýki köst
breytingaköst
og ...uppköst

Það kast sem hrjáir mig hvað oftast er breytingakast.
Það á sér oftast stað þegar mér leiðist heima hjá mér og ég sit inni í herbergi að horfa á hvíta vegginn sem verður reyndar gulleitur ef maður horfir of lengi.. og hafiði það!
Eitt slíkt fékk ég í gærkveldi.. ég sat, horfði á vegginn og fékk kast.
Ég tók til í rýminu og reyndi að róa mig niður, en ég gat ekki hamið mig.
Þá fór ég í hillurnar, endurraðaði öllu og reyndi að færa sófann minn.. það tókst hins vegar ekki.
Þá fór ég að pæla hvers vegna það væri ekkert loftljós í herberginu, og fór fram og ræddi þetta aðeins við hann föður minn.. og við komumst að þeirri niðurstöðu að einhvernveginn hefði gleymst að setja ljós í loftið og hann kvaðs lofa því að bæta úr því sem fyrst.
Þá sat ég lengi að hugsa hvurnig loftljós ég gæti fengið mér, en komst ekki að neinni niðurstöðu..
Ég þoli ekki þessi köst, ég held að þau stjórnist að hinni hliðinni á mér, Þrebbnu Hórarins sem soldið í ruglinu.
Þessi Þrebbna gípur mig glóðvolga á djamminu og breytir mér í sig, einnig hef ég orðið vör við hana rétt eftir hver mánaðarmót en þá vill hún einmitt taka stjórnina og eyða öllum laununum mínum.
Svo spyr móðir mín í kví, kví hvert launin mín fóru eiginlega og ég bara.. ha.. ég.. æji.. púff, bæng og spliff, ég get ekki svarað.
Ég vill biðja alla þá sem verða varir við hana Þrebbnu í mér að láta mig vita.. ég ætla að nefnilega að byrla fyrir henni eitur.. (illhvittnislegur hlátur)

þriðjudagur, ágúst 19

ATH: bloggur þessi átti að fara i loftið á mánudagskvöld, en vegna tæknilegra örðugleika kemur hann ekki fyrr en nú. Sem sagt.. nú er mánudagur!

Hvar í fjandanum eru allir.
Í dag eru allir bókstaflega týndir.
Allir eru horfnir, enginn svarar símanum og ekkert fólk er á ferli.. hvar eru allir?

...Sem dæmi má nefna að stelpa sem vinnur með mér mætti ekki í vinnuna, lét ekkert heyra í sér og þegar ég reyndi að hringja í hana var slökkt á símanum og heimilissíminn var alltaf á tali.
...Svo kom heldur ekki illa lyktandi maðurinn að versla sem kemur á hverjum einasta degi kl 13:20 c.a. og svo aftur kl 15:40 c.a. til að kaupa tvær kókdósir og eina 1/2 líters flösku...
...Síðan er ég vön að sjá svona 5 missed calls á símanum eftir vinnudaginn, en nei, enginn hringdi í mig, ekki einu sinni vitlaust númer, og það er dapurlegt ekki satt?
Hvar eru allir?
Þeir sem hafa týnt sjálfum sér eru vinsamlegast beðnir um að skila sér, og þeir sem þegar hafa fundið sig eru vinsamlegast beðnir um að passa upp á sig, gott ráð er að klæðast þröngu belti til að sjálfið fari nú ekki að hlaupa í burtu.

sunnudagur, ágúst 17

sögu vil ég segja stutta, nú er sagan öll
Í gær var menningarnótt, þarf ég að segja meira?

Kvöldið byrjaði á því að við hittumst vinahópurinn heima hjá mér að grilla. Reyndar mættu sumir svolítið seint eins og gefur að skilja en það tafði mig, Viggu og Bergdísi ekki neitt en þær voru mættar á réttum tíma.
Svo fór fólkinu að fjölga og ég held að þegar mest var voru svona 12 manns heima, enda átti þetta ekki að verða eitthvað partý.
Mikið var drukkið og borðað og svo um átta leytið var haldið niður í bæ.
Inga elskan var dræver þetta kvöld og lögðum við bílnum hjá BSÍ , sem var bara það gáfaðasta sem við höfum gert lengi held ég bara.
Svo kom hópurinn saman eftir ökuferðina niður í bæ, en hann splittaðist í tvo bíla, og annar fór á undan.
Svo hófst djammið!
Ég drakk og drakk og drakk en fannst mér ég ekki vera full, samt búin með heila passõa flösku, tvo thule og tvo smirnoff ice... ég er greinilega ekta bytta.
Það var rosalega mikið af fólki niðri í bæ og flesti að drekka, og um tíu leytið var ég farin að hætta að spá í að halda í hópinn og þau einhvernveginn bara hurfu.. öll nema Unnsteinn sem var hress. Við tvö horfðum á flugeldasýninguna og hittum Viggu og manninn hennar núverandi eftir það. Svo týndi ég Unnsteini en fann annann Steina, sem ég kynntist úti á Portúgal í fyrra.
Ég og Steini löbbuðum um bæinn og hittum fullt af mjög svo skemmtilegu og óskemmtilegu fólki og um hálf eitt gafst ég upp á að vera sama um hópinn minn og hrindi í krakkana.

Einhversstaðar þarna fyrr um kvöldið týndi ég tímaskyninu og man ekki alveg í hvaða tímaröð hlutirnir gerðust þannig að ef einhver man eftir einhverju sem gerðist fleira má sá hinn sami endilega skrifa í commentin.
Til að hjálpa mér ákvað ég að setja saman smá lista yfir hluti sem ég held að hafi gerst...

The listi
ég held....
*að ég hafi hitt litlu frænku mína með honum Unnsteini, ef svo er hlýtur hún að hafa orðið mjög hneyksluð..
*að ég hafi hitt einn meðleikara í Rocky Horror, ef svo er var ég ekki í góðu ástandi...
*að ég hafi séð foreldra Ingu, sem betur fer heilsaði ég þeim ekki...
* að ég hafi séð Unnstein kyssa tvær góðar vinkonur mínar...
að það hafi eitthvað fleira gerst sem ég man ekki
Já, eins og mamma segjir alltaf.. áfengi er böl ég trúi henni samt ekki!

föstudagur, ágúst 15

ég er full .. af lífsgleði
Í þessum töluðu orðum var ég að koma heim af leiksýningunni; Rómeó og Júlía og ég get ekkert sagt. Ástæðan er aðallega sú að þessi sýning var svo mögnuð að það eru ekki til nógu sterk orð til að lýsa henni.
Ég leitaði og leitaði, en fann ekkert orð sem er nógu flott og fágað til að lýsa hversu unaðsleg þessi sýning var.. hún toppaði RENT.
Já, mér þykir leiðinlegt að segja það, en þannig er það bara.
Á köflum langaði mig upp á svið að leika með þeim... svo mikil er gleðin í mér.

Nú sit ég, full að lífsgleði heima í herbergi og bíð eftir morgundeginum.
Ég vill ekki djamma í kvöld, því ég hlakka svo til á morgun að ég held að ef ég fer að djamma þá dey ég bara úr spenningi eða eitthvað. Menningarnótt er nefnilega málið á morgun og mikið rosalega hlakka ég til.


En að öðrum málum, ég er orðin fjárfestandi.
Í gær keypti ég mér bifreið
Bifreið þessari er lagt fyrir utan húsið mitt, ef einhver vill kíkja á gripinn sem er undurfagur og fegurri bíl finnuru vart í húsalengjunni.
Kappinn er af tegundinni Volswagen Polo og er silfraður að lit.. soldið svona snobb en það er bara skemmtilegra.
Nú bíð ég bara spennt eftir prófinu og svo er það bara Hrebbnutaxi sem er málið.

En nú er ég farin að glápa á eitthvað upprennandi.. Þrek og Tár.

þriðjudagur, ágúst 12

bilanir o.f.l.
Ég er ekki sátt! í gær var bloggið mitt bilað og ég sem hafði svo mikið að segja ykkur.
Ég rakst á þetta líka skemmtilega blogg hér í gær þar sem skorað er á aðra bloggara að svara eftirtöldum spurningum. Ég ákvað að það væri ferlegt að láta mig vanta inn í hópinn sem hefur þegar svarað þessum spurningum og hér með feta ég í fótspor þess virta bloggara og hér kemur afraksturinn.

Hvað ætlar þú að gera í haust?
Ég ætla að reyna að stunda skólann af krafti, reyna að sinna leiklistinni og hvur veit nema að maður komist inn í Idol, en annars er það bara leiklistin.
Hvað gerir þú í frístundum?
Reyni að fara sem oftast í leikhús, vera með vinunum og svo er alltaf eitthvað á könnunni hjá mér í sambandi við leiklistina.
Hver er uppáhaldsbókin þín?
101 Reykjavík alveg pottþétt.
Hver er uppáhaldskvikmyndin þín?
A dream for an insomniac, moulin rouge,sound of music, Singing in the rain og svo Lord of the rings og svoleiðis myndir.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Pasta í ostasósu með heitu brauði er unaður!
Hvert er uppáhaldskaffihúsið þitt?
Kaffibrennslan og Kofinn held ég barasta.
Hvert er uppáhaldssjónvarpsefnið þitt?
Horfi voðalega lítið á sjónvarp, annars er það bara þetta klassíska; Friends og svona.
Hvar kaupir þú helst föt?
Svona hér og þar.. Vero Moda, Topshop, Zöru, Spútnik og bara það sem mér finnst flott hverju sinni. Er samt ekki sautján týpan í disel buxum og svona.. sorrý!
Hvernig tónlist hlustar þú helst á?
Ég er alæta af verstu gerð. Ég hlustu á dægurlög, söngleiki, popp,rokk í mýkri kantinum, rapp og flest nema eitthvað þungarokk, ég fæ bara hausverk af því.
Hvernig myndir þú lýsa góðu laugardagskvöldi?
Það byrjar eiginlega um daginn, fara á kaffihús og svona, hittast svo um kvöldið, haft það rólegt og svo er farið á nett flippað djamm!
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Fólk sem dæmir aðra of fljótt og heldur að það sé betra en aðrir!
Sefurðu í náttfötum?
Ég og náttföt eigum ekki samleið skal ég segja ykkur.
EF ég sofna í náttfötum þá næ ég að klæða mig úr þeim á einhvern undarlegann hátt í svefni.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur gert?
Allt Rocky Horror batteríið var skemmtun út í gegn. Samt stendur upp úr þegar við skemmtum á Broadway fyrir 2500 manns og allir að blístra og klappa! Þvílíkt egóflipp!
Hvert er mesta prakkarastrikið sem þú hefur gert?
Það er ennþá í bígerð.. hehe
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Þegar ég brákaði ristina á vinstri fæti á generalprufinni á Rocky Horror, fullur salur og ég datt niður stiga. Náði samt að halda feisi og kláraði sýninguna og stærsta dansatriðið eftir!
Ef þú mættir fara í ókeypis ferðalag, hvert myndir þú fara og með hverjum?
Ég myndi fara til allra þeirra landa sem mig lystir, sólarlanda þá helst með bestu vinunum að sjálfsögðu!
Ef þú mættir breyta einhverjum afmörkuðum þætti í þjóðfélaginu, hverju myndir þú vilja breyta?
Mér finnst alveg ferlegt að horfa á þetta heimilislausa fólk vera ráfandi niðri i bæ. Sem betur fer er ástandið að batna, en þó er alltaf eitthvað sem bæta má!
Hvaða einstaklings lítur þú mest upp til?
Mömmu; hún er mögnuð alveg hreint!
Trúirðu á eitthvað?
Ég trúi á eitthvað æðra já, ekki endilega guð, svo trúi ég á vorið og ástina.
Áttu þér eitthvað lífsmottó?
Ekki hika, láttu vaða!

sunnudagur, ágúst 10

da víkend
Ji minn eini.. talking about bissý woman!

Ég er loksins búin með ökuskóla 2 sem þýðir það að bráðum fæ ég bílpróf, sem þýðir það að bráðum fæ ég BÍL, sem þýðir það að ég má keyra hann EIN, sem þýðir það að ég get ferðast hvert sem er, sem þýðir það að ég get skutlað ykkur, lesendur og aðdáendur kærir út um allt!

En annars fór ég á Gay Pride á laugardaginn í fyrsta skipti á ævinni.. ég hef nefnilega alltaf verið í brúðkaupum og veseni á þessum tíma.
Þetta var, ykkur að segja alveg hreint magnað.. og fylltist hjarta mitt af gleði við þetta tækifæri.
Sjaldan hef ég séð eins mikla gleði á sama stað og voru allir svo stoltir og ánægðir með sjálfan sig, og þannig á lífið að vera!
Samt var einhver gleðispillir að mótmæla hommum og lesbíum, sem var ekki nógu gott.. enda lét Vigga hann heyra það!
Um kvöldið var svo djammað og drukkið heima hjá honum Guðbirni, en ég fór snemma heim, um 2 leytið enda vildi ég ekki lenda í neinu veseni, mér fannst hlutirnir vera að fara í þá átt.
Svo er ég að "spara mig" fyrir næstu helgi.. þá er menningarnótt og töðugjöld á hellu.. sem er bara magnað!

En annars er allt gott að frétta af "hrefnuverndarafélaginu" og erum ég og hrefna sif að safna liði í félagið. Nú þegar erui komnir að ég held 6, og við viljum fá fleiri!
Skráið ykkur!

fimmtudagur, ágúst 7

Afsaka hér með...

að ég hafi ekki minnst á frábærustu afmælisgjöf sem ég hef fengið lengi, handritið af söngleiknum RENT, frá Ingu og Viggu!

Þetta yndislega líf

Já, ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum að í dag.. eða réttara sagt í gær.. klukkan er orðin 00:00 átti ég afmæli.

Þessi afmælisdagur fær alveg 4 stjörnur af 6.. byrjaði vel.. endaði vel.

Mætti í vinnu kl 8 í morgun, fékk hamingjuóskir og knús og gaman. Fór svo á Bess-Inn í hédeginu með góðum vinum, Ingu, Öggu, Hrefnu S. og fleirum.. borðaði þar hamborgara og fékk köku í tilefni dagsins.
Fór svo í ökutíma, verslaði smá fyrir kvöldið og svona.
Bauð svo nánustu vinum heim í "teboð" þar sem ekkert te var á boðstólnum heldur ostar og vínber og fansí.

Bestu afmælin eru í góðra vina hópi og þetta var yndislegur dagur.

En nóg af í dag gerði ég þetta bloggi.

Ég fékk hörmulegar fréttir áðan. Það á að leyfa Hrefnuveiðar
hmm?
Þýðir það þá að ég verð hözzluð meira? eða bara hözzluð yfir höfuð.. er þetta kannski mitt tækifæri?
Reyndar eru flestir Íslendingar ánægðir með þetta leyfi, ef það verður samþykkt.. hahaha!
Ég og Hrefna Sif ætlum að stofna Hrefnuverndarafélagið.
Allir sem vilja ganga í félagið geta skráð sig í commentin hér að neðan eða haft samband við mig á hrefna_@hotmail.com.
Framundan hjá félaginu er t.d. skákkvöld, bingó og kleinusala! hehe
En endilega skráið ykkur og eigið góða nótt.

þriðjudagur, ágúst 5

........hmm..

Já maður er bara hress eftir helgina.. gerði samt mest lítið á lau..meira svona fleira á sunnudaginn.. en það er gleymt og grafið og vil ég ekki minnast á það kvöld aftur.. OK!

Ég hef voðalega lítið að segja.. kannski vegna þess að ég er svo ung í dag.
Ég verð nefnilega eldri á morgun, ykkur að segja.
Loksins kom að því... reyndar gerist þetta bara einu sinni á ári, aldrei oftar.
Þetta er voðalega spes.. einn daginn er maður yngri en maður er næsta dag.
Já, svona eru afmæli.
Ég verð sem sagt 17 ára gömul á morgun.. nánar tiltekið kl 19:20..já mamma missti af fréttunum og alles er hún pústaði mér inn í þennan heim.

Hér á fyrri bloggum má sá að ég skrifaði niður nokkra hluti sem ég gæti hugsað mér í afmælisgjöf.. en viti menn... mig langar ekkert svo mikið í þá eftir allt saman.

Móðir mín kæra vildi vita í dag hvað ég vildi.. þá stanzaði ég, setti upp íhugunarsvipinn minn og fór að hugsa.
Mig langar hreinlega ekki i neitt sérstakt í augnarblikinu.. nema bílpróf sem ég tek eftir minna en viku.. úff!

En nú er ég farin, meinilla farin og búin að vera.. ertu þá farin? ertu þá farin frá mér?
Blogga meira síðar, þegar eitthvað nýtt og áhugavert hefur skeð!

laugardagur, ágúst 2

busy woman
Já,, verlsunarmannahelgin gengin í garð og fólk er að verða alveg spinnegal!
Fyrir þá sem ekki vita vinn ég endrum og eins í Bónus, Hafnarfirði.
Í dag og í gær við opnun var eins væri verið að endursýna lélegt hlaupaatriði úr Baywacth, mér fannst ég sjá allt í slow motion og fólkið ruddist inn eins og beljur að vori og tók kerrur og byrjaði að henda ofaní. Á meðan á þessu stóð heyrði ég titillag þáttanna í fjarska og ég sá allt í móðu.
Mæður voru með grenjandi börn í eftirdragi, heilu fjölskyldurnar sameinuðust í kringum brauðrekkana og svo voru nokkrir stakir..ekki margir samt.
Ég náði að greina nokkrar týpur úr þessum fríða hópi..

#Tilboðsóða konan:Kona sem gengur um í versluninni með Bónusbæklinginn að vopni eins og landakort og þefar upp hvert eitt og einasta tilboð í versluninni.
#Ég er bara hérna maðurinn:Harðgifti maðurinn sem fer sem sjaldnast inn í matvörubúðir nema þá til að grípa í eina kók. Gengur um búðina á eftir konunni sinni sem labbar eins og hershöfðingi um allt og marserar.
#Kærulausa fólkið: Er alveg sama hvað það kostar sem það kaupir.. common, það er nú einusinni verslunarmannahelgi!
#á leið í "vímulausa" útilegu:Stelpur og strákar á aldrinum 14-20, kaupa mest bland í áfengi, nammi, snakk og eitthvað smá í gogginn.

Svona var dagurinn í dag, já í gær líka, svo ekki sé minnst á miðvikudag og fimmtudag!

Og nú sit ég heima, .. kom heim klukkan 20:30 eftir erfiðan vinnudag, sofnaði og var að vakna..
Planið var að fara í fylleríisferð á Akureyri.. en ég missti af farinu mínu, einfaldlega vegna þess að ég hélt að ég væri búin að vinna klukkan 4 ekki 8!
Langar mest að kikja aðeins á iNNi púkann en enginn nennir með mér, ekki einu sinni Inga, en hún er að vera voða næs við einhverja hollenska skáta.. og mér er ekki boðið.
Reyndar er mér boðið, en ég hef fengið nóg af túristum eftir heimsókn Tony!!!

Vikan var ósköp þreytt eitthvað.. vinna á fullu og fór á leikritið Date aftur, og er að fara aftur á þriðjudaginn.. einfaldlega vegna þess að mér var boðið og verður boðið... já svona er að vera grúppía!
En ég þarf ekki að gráta glataðann tíma, því ég er í fríi í næstu viku.. alla vikuna og ætla ég að njóta þess.. ójá.
Á afmæli á miðvikudaginn og svona!
En nú ætla ég að reyna að fara að plögga partýi.. nenni ekki að horfa á fullar vínflöskur á hillunni minni, verð....að....dre..dree..dreeeekka!

mánudagur, júlí 28

Loksins
Í dag bjóst ég við venjulegum degi.. vakna, klæða sig í skítagallann, vinna hjá hreppnum, hádegi, fara að vinna í bónus, ökutími, heimsofatakk!
Ég fékk það sem ég bjóst við, eins og alla daga í sumar, fyrir utan þessa tvo sem ég hef fengið í frí!
En er ég kom í vinnu nr.2. fékk ég að vita það að ég ætti ..já setjiði á ykkur sætisbeltin lesendur góðir..því nú kemur bomba..bé, o, bé a...SUMARFRÍ í næstu viku.
Ég fæ vikufrí.. frí til að gera ekki neitt!

Svo eru ekki nema 8 dagar í afmæli mitt, og hef ég ákveðið að setja niður smá lista... og koma fimm hlutir fram í dag af þessum leynda lista, fimm í næsta bloggi o.s.frv, alveg þangað til ég á afmæli.

Gjafir dagsins:
*Hafið, verð 1799 í Bónus
*Miða á leikritið Date, verð 1500 í Iðnó
*Buxur í Next og Deres, verð..ehemm!
*Handritið að söngleiknum RENT á íslensku, verð ??
*Digital myndavél, verð svona 30-40 þúskallar
fleiri og fjölbreyttari hlutir munu birtast næstu daga!

sunnudagur, júlí 27

klikkaður skítur.. (þýðist; crazy shit)
Ég var að koma úr paintball, eða litbolta.. ólýsanleg lífsreynsla!
Málið var að starfsmannafélag Bónus bauð öllum í litbolta,. frítt.
Þar sem ég er soldil pjattrófa var ég alveg að missa mig í drullunni og öll útötuð í málningu leið mér líkt og þegar ég var ung að synda í drullupollum.

Mitt lið vann alla sína 8 leiki, sem var auðvitað bara snilld og er ég ekki frá því að ég hafi átt einhvern hlut í því.. ég er helvíti dugleg í þessu..
kjaftæði
Nú sit ég hér, sár á rassi og hálsi, enda fékk ég ófáar kúlurnar í afturendann og á hálsinn, er meira að segja með sár sem vitnar til um þjáningar mínar!
Eftir þessa lífsreynslu hef ég sett mér það markmið að prófa nýja og framandi hluti áður en ég verð 18 ára.. eftir eitt ár og 9 daga!

Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að hlutum sem ég gæti gert, endilega skrifið þær í commentakerfið hér fyrir neðan bloggið..

laugardagur, júlí 26

Breake a leg
Í kjölfar bloggs um frumsýningu og svona ákvað ég að deila með ykkur smá reynslusögu úr leikhúsheiminum.

Frasinn; "Breake a leg" er ævagamall.
Það tíðkast í leikhúsheiminum að óska leikara góðs gengis með því að kasta á honum kveðju með þessum frasa..
Stranglega bannað er að segja; gangi þér vel eða eitthvað í þá áttina.
Þegar ég var að frumsýna leikritið Rocky Horror, nánar tiltekið á forforsýningunni var þessum frasa skellt framan í mig af vini sem staddur var á sýningunni.
Ég var ánægð að viðkomandi kynni frasann. enda sá aðili ekki alveg leikhúsrottutýpan.
En auðvitað tók ég þennan frasa alveg nógu alvarlega skal ég segja ykkur.. haldiði að mín bráki ekki bara á sér ristina í sýningunni.. ekki skemmtilegt það.
Þess vegna vil ég vara alla áhuga, og -leikara við því að taka þennan frasa of nærri sér.. það gæti boðað eitthvað illt!

föstudagur, júlí 25

Þreyta
Orð dagsins er..; þreyta.
Dagurinn í gær var algjört ævintýr skal ég segja ykkur.
Hann byrjaði á því að ég og Agnes fórum í klippingu, svo í ökutíma og svo skelltum við okkur niður í Iðnó að sjá leikritið Date.
Ég, Inga, Vigga og Agnes vorum komnar fyrir allar aldir og fengum við sæti á fremsta bekk, eins og okkur er von og vísa.
Alltaf þegar við förum í leikhús reynum við að vera á fremsta bekk.. því þá sjáum við ALLT sem er að gerast og missum ekki að dýrmætum smáatriðum.
Leikritið Date kom mér merkilega á óvart..þetta var alveg hreint út sagt ólýsanlegt.
Ég held að ég hafi hlegið úr mér allt frjómagn á þessum rúmlega tveimur klukkutímum sem sýningin varði, sýningin var ein sú besta sem ég hef séð hjá áhugaleikfélagi ef svo mætti kalla og hvet ég alla, konur og kalla til að sjá leikritið Date, (sýnt í Iðnó;www.date.is)
Eftir sýningina var gestum svo boðið í smá eftirteiti sem var haldið í Iðnó og var það með eindæmum skemmtilegt.
Við bjuggum okkur til brottfarar, ég, Agnes og Inga en Vigga hafði farið skömmu áður að.............hmmm..ha?, en viti menn, okkur var boðið í frumsýningarpartý hjá þessum stórskemmtilegu krökkum og auðvitað skelltum við okkur.
Í millitíðinni köstuðum við þurrís, ásamt Jakobi stóra í tjörnina sem myndaði einskonar hver.. mjög skemmtilegt.

Frumsýningarpartýið varð að þremur partýum, með sama fólkinu, en við færðum okkur á milli staða þrisvar sinnum, m.a. vegna óláta og annars vesens.
En í heildina var þetta frábært frumsýningarpartý.. og eitt skemmtilegasta partý sem ég hef farið í í sumar..gaman að segja frá því.

Á þessu kvöldi kræktum við okkur í viðurnefni.. grúppíur..JÁ!
Ég er stolt að segja það að´ég er ein af þremur grúppíum Ofleiks, en hinar tvær eru Inga og Agnes.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki komið heim fyrr en um sjöleytið og átti að mæta í vinnu klukkan 8, þá sé ég alls ekki eftir því að hafa farið í þessi partý og vona bara að tækifæri gefist til að fara jafnvel aftur á sýninguna eða eitthvað.

Stjörnugjöf Hrefnu:
*Date, leikritið: ********** stjörnur af *****

*partý no 1: **** stjörnur af *****
*partý no 2:** stjörnur af *****
*partý no 3:****og 1/2 stjörnur af *****

þriðjudagur, júlí 22

allt kemur með kalda vatninu
En hvað gerist ef kalda vatnið fer spyr ég nú bara?

Aðeins einn dagur í fimmtudag... mikið óskaplega hlakka ég til að losna við þetta hræ sem er á höfðinu á mér..(hár)Ég held samt ennþá í þá von að klippingin muni heppnast vel, því að ég er meistari í að fá mér ljótar klippingar!
Svo hefur hár mitt einnig sinn eigin vilja.. það vaknar á undan mér og fer allt í hakk.
Svo þegar ég vakna lýt ég í spegil og dey og reyni síðar hjartahnoð á sjálfri mér til að halda lífi.
Þess vegna hef ég fjárfest í gullkálfi; sléttujárni sem lagar allt það sem þarf að laga þegar kemur að hári.. höfuðhári!
Ég og sléttujárnið mitt erum.. like this! (berið fram "like this" með ýktum hreimi og krossleggið löngutöng yfir bendifingur..)

ég nældi mér í miða á foo fighters.. sem gleður mig ósköp mikið því ég hef aldrei á minni stuttu ævi farið á svona stórtónleika.

Svo eru ekki nema hvað..um 15 dagar í afmælið mitt þannig að allir ættu að byrja að safna sem fyrst!

hint: mig langar í sjálfrennireið ef einhver á um 500.000 kr á lausu og veit ekkert hvað á að gera við þær.

Ég ætla að byrja að safna hugmyndum í afmælislista og birta hann þegar nær dregur!

Nú ætla ég að fara að plögga síðuna í pósti því allir virðast hafa gleymt mér.

sunnudagur, júlí 20

tja tja tja

Ég verð að fara að læknast af þessu tímaleysi.. þetta er orðið alveg ferlegt.
Ég hef ekki bloggað síðan á þriðjudag og síðan þá hefur nú ekki mikið gerst skal ég segja ykkur lömbin mín gráu.

Ég var að fatta það í gær að það eru ekki nema tvær vikur og þrír dagar þangað til ég á afmæli.. loksins fær maður bílpróf!
Loksins þarf ég ekki að taka strætó í skólann og hvert sem ég fer..
Ég þarf ekki að plana bæjarferðir daginn áður bara til þess að ná strætó á siðsamlegum tíma!
Ég þarf ekki að hafa áhyggjur hvernig ég eigi að komast heim eftir bíó, leikhús eða bæjarferðir ef strætó er hættur að ganga.
En það eru ennþá tvær vikur til stefnu til að láta þetta allt fara í taugarnar á sér!

Ég er í fríi í dag, alveg týpískt. Sólin búin að skína alla vikuna samfleytt og þann dag sem ég er í fríi er svona.. lala veður.. ekki kalt ekki heitt.
Kannski það lagist á eftir.. bíð spennt.

En á fimmtudaginn, þannn 24 júlí ætla ég mér að taka dags frí frá allri vinnu, langþrátt frí.
Þann dag ætla ég og Agnes að dekra við okkur, fara í klippingu, bæinn og svo endum við kvöldi í góðra vina hópi sem ætlar að fara að sjá leikritið Date sem verður einmitt frumsýnt það sama kvöld.
Leikritið Date er sýnt af leikhópnum Ofleik, sem ég persónulega hef miklar mætur á, eftir að hafa séð fyrri leikrit þeirra; e og Johnny Casanova
Á hverju ári hlökkum við til að sjá leikrit Ofleiks því að þau eru orðin svona partur af sumrinu, rétt eins og menningarnótt, verslunarmannahelgi og 17. júní!

mánudagur, júlí 14

Unaður
Þá er helgin búinog dagarnir fjúga hjá eins og fiðrildi á kynþroskaskeiði.
Tíminn er svo afstæður að það er ekki einusinni broslegt.
Ég vaknaði í gær, hress og kát klukkan 7 fór í vinnufötin og labbaði fram. Eitthvað var ekki alveg eins og það átti að vera.
Ég læddist um húsið í leit að vakandi lífverum með stefið úr bleika pardusinum í bakgrunni..(varla, en þó?)
Enginn virtist vakandi sem mér fannst mjög skrítið því venjulega er móðir mín blessaða komin á fætur fyrir allar aldir til að hella upp á kaffi og horfa á Ísland í bítið
Ég kveikti á Stöð tvö, en ekki var Ísland í Bítið á dagskrá.
Þá rann það upp fyrir mér að það væri sunnudagur, eini dagurinn af þeim sjö sem eru sem ég er í fríi.

Tilkynning:
Þjóðverjinn Tony er kominn til landsins, vinur Viggu og var hann sóttur á Keflavíkurflugvöll í gær um 23:53.
Mig hefur alltaf langað til að sækja túrista á flugvöll og halda á svona skilti ; Tony, wilkommen aus Island eða eitthvað. Því var reddað og stóðum ég, Inga, Vigga og Elísa eins og fjórtán fífl með skilti að bíða eftir kauða.
Hann reyndist hinn mesti gleðigjafi og spái ég því að þessar tvær vikur sem hann verður hér verði unaður.

Já, talandi um unað, í gær var ákveðið af félaginu að ofnota orðið unaður meðan Tony er á landinu. Með því ætlum við að útbreiða orðinu um allt Þýskaland og treysta á keðjuverkunina.. sniðugt ekki satt?

yfir og út, og munið eitt:::...

allt er unaður

miðvikudagur, júlí 9

Einu sinni var...
lítil og ljóshærð stelpuhnáta.
Þessi unga hnáta hét Hrefna.
Hrefna var náttúrubarn, vildi helst ekki sofa inni, lék sér allan liðlangann daginn úti og var mjög svo útitekin í framan. Hrefnu fannst einnig mjög svo gaman að fara í hina ýmsu útileiki með nágrannabörnum og öðrum.
En tímar liðu og er Hrefna óx úr grasi fór hún að eyða miklu minni tíma úti við, og meira inni. En ávallt var þessi löngum til staðar um að vera úti, barnið í henni.
Þegar á unglingsaldur var komið var barnið sem bjó inn í Hrefnu lífvana og andlaust... það fékk ekki útrás og þegar á 17 ára aldur var komið var barnið dáið.

þetta var dæmisaga

Í dag endurheimti ég barnið í sjálfri mér.
Í stað þess að raka gras í grenjandi rigningu í Bæjarvinnu Bessastaðahrepps fórum við inn í íþróttahús í hina ýmsu leiki.
Barnið endurheimti ég þegar við fórum í hvísluleik, sem ég hef ekki farið í síðan í 2 eða 3 bekk.
Ég fékk skyndilega löngun til að setja tígó í hár mitt og fara í smekkbuxur og ganga í hús og safna dóti á tombólu.

Ég hef ákveðið að fara í herferð, ég ætla að vernda barnið í sjálfri mér, leyfa því að sleppa lausu öðru hvoru svo það deyji ekki alveg.

*verndum barnið í sjálfum okkur.. og drekkum mysu.

þriðjudagur, júlí 8

Synd og skömm
Ég fór á bus.is áðan í leit að áskrift að eilífðarstrætókorti sem ég gæti átt þar til ég gæfi upp öndina, en varð fyrir vonbrigðum, því það er víst ekki hægt.

Helsta ástæðan fyrir þörf minni á eilífðarstrætókorti er sú að ég var í fyrsta, já fyrsta ökutímanum mínum áðan.. úffúffúff.
Ég held að ég sé búin að gleyma flestöllu sem ég lærði, en eitt lærði ég þó og man eftir: ég kann ekki að keyra!!!

Ég verð örugglega svona bílstjóri sem gerir allt vitlaust og missi bílprófið fyrir tvítugt!

Neinei, usss út með þessa neikvæðu orku (anda inn, út)

Gleymið öllu því sem þið lásuð að ofan, ég er frábær bílstjóri og er að hugsa um að leggja leigubílaakstur fyrir mig! (kaldhæðni)

Þeir sem vilja ekki fá mig á göturnar á bifreið geta stofnað reikning í næsta banka og aflað fjár fyrir mig í strætó uns ég dey!

laugardagur, júlí 5

skór.bull
Ég hef ákveðið að hefja stríð gegn skósmiðum og skóhönnuðum.
Ég fór á fimmtudaginn í mínu mesta sakleysi í kringluna í leit að spariskóm, skóm til að fara á djammið í og svona.
Ég var pínd inn í gs skó sem ég hef aldrei á ævinni farið í , kannski vegna þess að ég er ekki spíta sem verslar í 17.
En hvað um það, ég fann mér flotta skó á siðsamlegu verði 4990 og bað afgreiðsludömuna að færa mér parið í stærð 42.
Þá glápti hún á mig, vissi varla hvað hún ætti að segja mér, en tjáði mér loks að búð þessi seldi bara örfáa skó í númerinu 42, og þeir væru allir yfir 7000 kr.
Veskið mitt æjaði og veinaði að sársauka, okurverð!
Nei svona í alvöru, þarf maður að líða fyrir það að vera hávaxin með stóra fætur?
Ég spurði dömuna hvort þau gætu pantað skó í 42, en það var greinilega ekki hægt.
Maður verður þá bara að kaupa sér körfuboltaskó í Intersport eða eitthvað til að fá þá í 42!

En annars gerðist soldið á föstudagsmorgun sem fékk mig næstum því til að pissa í buxurnar af hlátri.
Við vorum 5 að vinna bæjarvinnunni á leikskóla hér í hreppnum.
Þennan morgun var lokahátíð leikskólans sem var að fara í sumarfrí.
Allan morguninn hafði tónlist úr leikritinu Latibær glumið í eyrum okkar og hress og kát börn hoppuðu og skoppuðu í hoppiköstulum.
::gaman að sjá lítil börn skemmta sér vel

Þegar við vorum að færa okkur um set á annan stað þegar við högðum lokið okkur af litum við í átt að sjoppunni og sáum mann labba í áttina að okkur.
Það fyrsta sem við tókum eftir var að hann var í óvenju stórum skóm
(maður ætti kannski bara að ræða við hann um skóinnkaup), síðar sáum við að hann var klæddur í fremur skrautleg föt og talaði óvenju hátt í símann sinn.
Þegar hann nálgaðist enn meir sáum við að þetta var trúður.
Hann kom til okkar og spjallaði smá, en það fyndna var að hann var alltaf í karakter, hann spjallaði ekki sem hann sjálfur, heldur sem trúður.

Gaman að sjá trúð labba bara í mesta sakleysi sínu á Álftanesi, hverjum dytti það í hug?