Að finna upp hluti
Það eru svo margir hlutir þessa dagana sem mig vanhagar um sem hafa ekki enn verið fundnir upp.
T.d. af hverju eru ekki framljós á bílum, rétt eins og stefnuljós? Þá er ég að meina svona blikkandi framljós sem sýna að maður ætli áfram en ekki beygja?
Svo lenti ég í því um daginn að ég stóð í sakleysi mínu í miðborginni á gangstétt einni og beið eftir að komast yfir götuna, þar sem grasið var grænna. Þar sem engin gangbraut var í aðsigi ákvað ég að reyna eftir fremsta megni að labba yfir götuna þegar tækifæri gafst, en það kom aldrei.
Og þarna stóð ég, ein eins og kjáni að bíða eftir að labba yfir götu kl 17:00 á föstudegi, ekki gáfað það? Ég ætla að finna upp svona gangbrautardúk eða handhægt stöðvunarskyldumerki sem eru bæði tvö svona vasaútgáfur af frumútgáfunum. Þá væri gangbrautin í handhægu dúkaformi og stoppskyldan væri í svipuðu formi og regnhlíf, bara smella upp og þá er það komið!
Einnig leita ég, þar sem prófin eru að nálgast að buxum með rasspúða, því oft reynist prófsetan löng og ströng og því vert að sitja á þægilegu undirlagi.
Svo af því að ég er byrjuð að hugsa um próf og svona, þá væri ég alveg til í að búa til svona prófborð með bjöllu sem maður dinglar ef manni vantar aðstoð svo maður þurfi ekki að sitja með upprétta hendi í langan tíma og vera síðan það slappur í hendinni að maður getur ekki skrifað.
Ég óska eftir samstarfsmanni til að framkvæma þessi verkefni, sjúkrakostnaður er ekki innifalinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli