föstudagur, júlí 30

Sessunautar

Ég fór í bíó fyrir þónokkru síðan sem er vart frásögu færandi.
Þessi bíóferð hefði farið í hóp þeirra bíóferða sem gleymast á endandum ef ekki hefði verið fyrir manninn sem við hliðana á mér sat.
Áður en myndin hófst talaði maðurinn óvenju hátt í farsímann sinn, sem var að vísu ekkert að pirra mig.  Í auglýsingunum var hann farinn að hrjóta hátt og snjallt og vaknaði ekki fyrr en maðurinn sem var jafn óheppinn og ég að sitja við hlið hans vakti hann og sagði honum að myndin væri að byrja.
Ég setti mig í stellingar og var tilbúin að horfa á ævintýrin sem áttu eftir að birtast mér á hvíta tjaldinu, en varð fyrir truflun þegar síminn hans hringdi aftur.
Maðurinn svaraði í símann, og aðilinn á hinni línunni hefur greinilega spurt hvort hann væri að trufla og maðurinn svaraði neitandi, hann væri bara í bíó..ekkert að trufla hvað?
Eftir 5 min. símtal skellti maðurinn loks á.
Þegar vel var liðið á myndina gýs upp þessi líka hræðilega fýla allt í einu. Mér var litið á manninn og hann sagði; "afsakið" og brosti út í annað.
Síminn hringdi enn einu sinni og stóð það samtal í þónokkra stund.
Eftir símtalið fór maðurinn að bylta sér óskaplega og spurði mig hvort ég gæti nokkuð fært hönd mína af arminum, hann þyrfti pláss fyrir veika olnbogann sinn, sem ég og gerði.

Loksins kom hléið.
Fólkið sem ég var með spurði hvernig mér líkaði myndin, og þá áttaði ég mig skyndilega á því að ég hafði varla einbeitt mér að myndinni, maðurinn fór svo rosalega í taugarnar á mér.

Hléinu lauk og fólk streymdi aftur inn í salinn og ég hugsaði hvort ég ætti nú ekki bara að færa mig aðeins neðar, sem ég gerði.

Fjórum sætaröðum neðar seig ég niður í sætið mitt, og beið spennt eftir að myndin byrjaði á ný.
Myndin var komin vel á veg þegar ég heyrði í ungri móður sem sat einni röð fyrir neðan mig útskýra fyrir ungum syni sínum hvað væri að gerast.  Sonurinn spurði í sífellu hvað hver og einn væri að segja, og móðirinn þýddi af einstakri prýði ensku orðin fyrir hann.
Eitthvað varð syninum bilt við og grátur hans ómaði um allan bíósalinn.
Aumingjans móðirinn fór afsíðis með soninn og kom ekki aftur.

Nálægt mér hringdi enn annar síminn, og fleiri bættust í hóp pirrandi bíógesta.
Beint fyrir framan mig stóð hávaxinn maður upp, og stóð í dágóðann tíma og var að reyna að fá unga dóttur sína á klósettið.

Myndinni lauk og bíógestir streymdu úr salnum.
Vinir mínir fóru yfir myndina, skemmtilegustu atriðin og þau leiðinlegustu.
Ég áttaði mig á því að ég hafði misst af öllum stóru og mest spennandi atriðunum út af fólkinu sem nálægt mér sat.

Ég held ég verði bara heima næst þegar vinir mínir fara í bíó.

 

 

þriðjudagur, júlí 27

Enn af ferðum til tannlæknis

Undirrituð hefur áður bloggað um ferðir til tannlæknis, sbr. blogg síðan um miðjan mars þegar hún var sárþjáð af tannrótarbólgu.

Enn var hún plötuð í stólinn hræðilega og með hroðalegum afleiðingum í þetta skiptið.
Grunlaus sat hún og hélt í heimsku sinni að aðeins þyrfti að gera við eina litla tönn þegar tannlæknirinn tjáði henni að nú þyrfti aldeilis að bretta upp ermarnar, það þyrfti að fylla upp í hér og hvar og styðja við þessa og hina tönnina og loks fjarlægja heila tönn því eitthvað fór hún í taugarnar á doktornum.
Meðan ég upplifði mestu kvalir sem ég hef kynnst flautaði doktorinn glaður í bragði lagið sem kætir hvers manns lund ; don´t worry,be happy.
 
Ég hata tannlækna, þeir ættu ekki að fjölga sér!
 

mánudagur, júlí 19

Ung var ég forðum...
 
og svo ólánsamlega vildi til að ég hafði ekki þær gáfur sem ég hef í dag.
 
Ég hélt til dæmis að:
  • ...þegar ringdi væri guð að gráta
  • ...það væri í alvöru hægt að heyra grasið gróa, hárið vaxa og neglurnar lengjast eins og segir svo skemmtilega í laginu
  • ...ef maður kláraði ekki allan matinn sinn yrði maður aldrei stór.  (Alltaf þegar ég sá dverg hugsaði ég; "þessi hefði heldur betur átt að klára matinn sinn")
  • ...að jólasveinninn væri til

Mikið var maður mikill kjáni í den tid.

mánudagur, júlí 12

Í gær
..hélt ég bókstaflega að lífi mínu væri lokið.
Ég fékk þennan líka rosalega hiksta að ég hélt að himinn og jörð væru að farast og ég lagðist á bakið og beið dánarstundarinar.

Ég prófaði flest ráð sem mér hafa verið kennd, stóð á höndum tveim, hoppaði upp og niður, lét nærstandandi mann bregða mér og át sykurmola.
Þessi hiksti stóð í rúmar 10 mínútur.

Það var eins og þungu fargi væri létt af mér þegar hikstinn tók loks enda, en svo virðist sem móðir mín blessunin hafi gripið hikstann glóðvolgann því skömmu síðar byrjaði hún að hiksta og strax á eftir henni tók faðir minn að hiksta.

Svo virðist sem að hikstafaraldur sé að ganga.

Verið varkár.

laugardagur, júlí 10


Dálítið gerðist í vinnunni minni um daginn sem ég verð að deila með ykkur kæru lesendur.

Undirrituð var að vinna á þjónustuborðinuog var dauða nærri vegna aðgerðaleysiss.
En skyndilega varð breyting þar á þegar ung stúlka, ekki eldri en 4 vetra kom til mín með tárin á vöngunum og spurði mig hvort ég vissi um mömmu hennar. Auðvitað vissi ég ekki hvar móðir hennar var niðurkomin, og eina ráðið var að kalla mömmu hennar upp, en þá vissi grey stúlkan ekki hvað nafn móður sinnar væri. Ég tók þá tuil minna ráða og kallaði upp að í búðinni væri týnd stúlka og sagði nafn hennar.

Tíminn leið og ekkert gerðist.

Aftur kallaði ég.

Enn meiri tími leið og ekkert gerðist.

35 mín síðar kom faðir stúlkunnar að vitja hennar. Hann tjáði mér það að hann hefði nú bara verið staddur inni í skódeild að skoða, og vissi bara af dótturinni þarna hjá mér og ákvað að hafa engar áhyggjur, hún væri inni í búðinni og það væri nóg.
Maðurinn sá greinilegar fyrirlitningarsvipinn sem ég setti upp og hraðaði sér út úr búðinni.

Svona fólk á ekki að eiga börn!
Að skilja barn sitt eftir á víðavangi, vitandi að það eru 95% líkur á því að það sé að kafna vegna ekkasoga og drukkna í sínum eigin tárum.

Ég man eftir því þegar ég týndist í Fjarðarkaupum fyrir mörgum árum, þá leið mér eins og ég væri ein í heiminum og tárin sem runnu af kinnum mínum hefðu geta fyllt heila sundlaug.

Ég bið og vona að þessir foreldrar eigi eftir að hugsa sinn gang!

mánudagur, júlí 5

Aðför
Ég hef ákveðið að plana aðför að blaðberanum í götunni minni.
Blaðberinn, sem ber út einhverja auglýsingabæklinga virðist ekki sjá sér fært um að setja ruslpóstinn alla leið í bréfalúguna og skilur hann oftast eftir einhversstaðar í innkeyrslunni eða undir gluggum. Eitt sinn vaknaði ég með auglýsingabækling á sænginni hjá mér, og svo leit ég undir gluggann minn úti við og við mér blasti nokkrir aðrir bæklingar.
Eitt sem vekur mikla furðu mína er að það virðist enginn annar í götunni eiga við sama vandamál að stríða, allir fá sinn ruslpóst.

Við höfum nokkrum sinnum talað við kauða og kvartað en ekkert skánar ástandið.
Fjölskyldumeðlimir eru orðnir frekar pirraðir á þessum uppátækjum og vil ég því biðja ykkur,lesendur góðir að ráðleggja mér hvað ég eigi að gera í þessum máli.

Komið með ferskar hugmyndir!