miðvikudagur, mars 30

Ástandið á Álftanesi

Fyrir nokkru ríkti ástand hér á heimilinu.

Húsmóðirin fékk nóg, pakkaði sínu hafurtaski í ferðatösku og strunsaði út um hádegisbil næsta dag beinustu leið upp á Keflavíkurflugvöll og tók fyrsta flug til Amríku.

Þessi uppákoma hefur reyndar verið í aðsigi frá því á aðfangadag en þá einmitt ákvað faðir minn að gefa móður minni farseðil til Amríku(báðar leiðir..furðulegt) svo hún gæti farið að heimsækja systur sína sem er búsett þar.

För þessi leiddi til þess að heimilishald mun liggja niðri í vikur tvær og eina eldamennskan sem fram fer á heimilinu mun vera í formi 1944 örbylgjurétta, enda eru þeir líklegast fleiri en 14 talsins og því hægt að hafa fjölbreyttann matseðil meðan höfuð heimilissins er fjarverandi.

Ástæðan fyrir því að faðir heimilissins fær ekki að elda þessar tvær vikur er sú að í hvert skipti sem höfuð heimilissins heldur utan(sem gerist ekki oft) hefur hann reynt að vera góður við dætur sínar og eldað uppáhaldsmat þeirra; pasta en sú eldamennska hefur tvisvar sinnum komist nálægt því að kveikja í húsinu, eða þá að pastað hefur myndað eins konar hrærigraut sem væri ekki bjóðandi ruslatunnu.

För þessi hefur einnig leitt undirritaða í kynningarferð um heimilistæki sem er til staðar hér í húsinu og fékk undirrituð vægt taugaáfall þegar hún hugðist setja í þvottavél fyrr í kvöld. Þó svo að vélin sé með íslenskum leiðbeiningum þá er hún gjörsamlega torskilin og efast ég ekki um að ég fái hvítu stuttbuxurnar mínar grænmyglulitaðar tilbaka úr þvotti og fjórum númerum of litlar.

Ég kynnti mér einnig eiginleika ryksugunnar um daginn og þvílíkt undratæki er þar á ferð.
Ryksugan, af gerðinni Kurby bættist í hóp fjölskyldunnar um 1990 þegar óprúttinn sölumaður sannfærði móður mína um að þetta væri hin fullkomna heimilishjálp sem henni vantaði. Síðan þá hefur móðir mín elskað ryksuguna sína af öllu sínu hjarta og vart séð okkur systurnar fyrir henni, þá sérstaklega á þeim dögum sem móðir mín kallar hreingerningadaga.
Af einhverjum ástæðum hef ég ávallt verið hrædd við ryksugur, eða hrædd, meira svona skelkuð þegar þær fara í gang. Ástæðuna held ég að megi rekja til þess að þegar óprúttni sölumaðurinn kom á heimili mitt til að sannfæra móður mína um notagildi Kurby ryksugunnar ryksugaði hann upp spariskó Barbídúkkunnar minnar og hef ég aldrei fyrirgefið þessu undratæki þennann hryðjuverknað.

Eftir að hafa ryksugað eitt tvö herbergi ákvað ég að komast í kynni við uppþvottavél heimilissins en þegar ég sá stóru beittu hnífana og öll glösin og diskana skellti ég hurðinni aftur, hljóp inn í herbergið mitt og læsti.

Ég vona að þessar tvær vikur verði fljótar að líða...

www.hrebbna.tk
-gerist ei húsmóðir í bráð-

þriðjudagur, mars 22

Sögur af pabba og páskum

Faðir minn er mikill sælkeri, enda ekki að undra því þar er stór og mikill maður á ferð.

Páskarnir eru ein af uppáhalds hátíðum hans, þá sérstaklega út af páskaeggjunum sem tilheyra oft hátíðarhöldunum.
En hann faðir minn hefur ekki átt sjö páskadagana sæla og hefur páskagræðin oft komið í bakið á honum.

Eitt árið var faðir minn búinn með sitt páskaegg, sem er iðulega nr.3 rétt eftir kvöldmat en langaði þó í meira. Við systurnar geymdum eggin okkar inni í ískáp, alveg grunlausar um að faðir okkar mundi taka sig til um nóttina og narta örlítið í þau. Faðir minn tók sig sem sagt til og læddist að nóttu til inn í eldhús og braut eitt stykki úr páskaeggi systur minnar og beit í það, en viti menn, eggið var svo kalt og hart að hann braut tönn í herlegheitunum þannig að daginn eftir komst allrækilega upp um karlinn.

Árið eftir ætluðum við systurnar að taka til hendinni og fela eggin okkar á stað þar sem faðir okkar mundi alls ekki finna þau, eins og t.d. í þvottavélinni eða örbylgjuofninum. En að kveldi annars í páskum fannst föður mínum hann knúinn til að fá sér bita af eggjunum sem voru falin á sitthvorum staðnum og hóf víðtæka leit að kræsingunum og fann loks eggið sem falið var í örbylgjuofninum. Eftir að hafa fengið sér góðann bita af egginu setti hann eggið á sinn stað; eða svo hélt hann, í bakarofninn. Daginn eftir, þegar móðir mín hugðist hita upp páskasteikina kom hún svo auga á eggið og leit ásökunaraugum á karlinn.

Enn komu páskar og nú ætlaði karlinn að vera hress á því og fela eggin sjálfur, en það er hefð að fela eggin og láta eigandann leita af þeim. En það heppnaðist ekki betur en það að karlinn mundi ekki hvar hann faldi þau og þau fundust ekki fyrr en viku síðar en það voru fagnaðarfundir skal ég segja ykkur.

Karlinn hefur líka gert ýmislegt annað eins og t.d. að fela páskaegg undir ofninum inni hjá mér en það var víst bráðnað þegar ég hugðist borða það, óvart borðað allt páskaeggið hennar systur minnar,hennar mömmu og margt fleira sem ég man ekki í augnablikinu.

Nú í ár höfum við ákveðið að kaupa páskaegg nr.5 handa karlinum og eitt númer 3 sem við geymum inni í ísskáp svo hann geti læðst í og látið okkar í friði.

www.hrebbna.tk
-sögur af landi-

mánudagur, mars 14

Af enn einu samsærinu!

Undirrituð mætti aftur í skólann í morgun eftir viku fjarveru vegna söngleiks, enn með kvef síðustu mánaða í farteskinu og skólatösku sem hún ber alla jafnan.

Ég hugðist sjúga upp í nef mitt eins og gengur og gerist þegar slím hefur verið framleitt í of miklu magni, en skyndilega var mér það lífsins ómögulegt að sjúga upp í nefið.

Skyndilega áttaði ég mig á því að "horið"(ef svo má kalla) var frosið fast í nebbaling og við nánari athugun var hitastigið inni í skólanum -7 gráður..eða svipað og á sólríkum degi á Norðurpólnum.

Í rúma 4 klukkutíma þurftu saklausir nemendur að krókna úr kulda í kennslustundum og það eina sem hlýjaði manni var súpan sem ég fékk mér í hádeginu.

Svo, þegar heilinn minn hafði verið affrystur sá ég ástæðuna fyrir frostinu í skólanum; þetta hlaut að vera enn eitt samsærið.

Skólayfirvöld hafa eflaust planað þetta í marga mánuði að akkúrat þennan dag, eftir árshátíð skólans og fríi á föstudegi skyldi slökkt vera á öllum ofnum skólans í þeirri von um að sem flestir mundu veikjast og þar með fá slæma mætingu vegna veikinda..sem þýðir það að mætingarprósentan lækkar ennþá meira hjá þeim sem hafa sótt tíma þegar þeim hentar, sem þýðir það á endanum að þeir verði með svo lélega mætingu að þeim verði vísað úr skóla. OG hvað gerir það..hmm...pláss fyrir fleiri nýja nemendur næsta ár!

Látum ekki blekkjast af skólayfirvöldum kæru vinir!

Mætum í kraftgalla í fyrramálið

www.hrebbna.tk
-sér í gegnum öll plott-

miðvikudagur, mars 2

Alveg frá blautu barnsbeini hef ég haft mjög gaman af því að hrekkja fólk og aðrar verur og geri ósköp mikið af því. Margir gætu oft talið þetta aulahúmor en sannfærist kæru vinir, sannfærist!

Tökum dæmi;

  • Að skrifa t.d. "lúði" á miða og líma hann aftan á vin þinn eða vandamann. Barnalegt, ég veit en alveg viðbjóðslega fyndið
  • Farðu í bíó og kallaðu hátt yfir alla t.d. algengt nafn (hint; Anna) og sjáðu hversu margir líta við
  • Keyrðu niður Laugaveginn og flautaðu með bílflautinni að fólki sem labbar hægra megin og vinkaðu svo í hina áttina

Þetta blogg var styrkt af vefsíðunni www.engarhugmyndirumnýttbloggvegnatímaskorts.is

www.hrebbna.tk

- -