mánudagur, janúar 31

Saga úr kennslustund

Undirrituð sat og fylgdist af ákafa með í tíma fyrr í morgun. Viðfangsefnið var jú mjög svo spennandi; Sjálfstæða fólkið hans Halldórs Laxness.

Þegar kennarinn var í óða önn að tala um hjúin Bjart og Rósu byrjar skyndilega einhver/eitthvað að öskra inni í stofunni. Ég hugleiddi hvort nú hefði enn einn nemandinn gjörsamlega tapað vitinu, eða vantað athygli, en svo var ekki því öskrið barst frá gólfinu og varla gat nokkur maður verið staðsettur þar, nema kannski ofan í einhverri töskunni sem gæti svo sem vel verið.

Öskrið stigmagnaðist og á milli óskýrra orða og hláturs heyrðist skýrt; "þetta er Ómar(nafnið er gleymt) svaraðu fo***** símanum fíflið þitt".

Skyndilega blóðroðnaði einn piltur í bekknum og tók upp símann sinn og slökkti á honum.

www.hrebbna.tk
-segir sögur-

þriðjudagur, janúar 25

Af rigningum

Ég vaknaði í morgun við hljóðin í rigningunni, hvað er yndislegra?

Enn hálfsofandi opnaði ég útidyrahurðina og ætla að arka út í bíl, en finn að ég stíg á eitthvað frekar blautt og kalt og kippi löppinni strax aftur inn, galopna augun og sé að beint fyrir framan útidyrahurðina er risastór pollur, eða poll ætti ekki að kalla þetta heldur einhversskonar afbrigði af tjörn úti á plani.

Ég sá ekki nokkra leið að komast að bílnum án þess að rennblotna upp sð hné, og eftir árangurslausa leit að stóru stígvélunum hans pabba sá ég að nú þyrfti að grípa til örþrifaráða.

Gat ég synt?..ég rifjaði upp allar gömlu "beygja,kreppa,sundur,saman" reglurnar sem ég lærði í barnaskóla og sá að ég gat vel synt, en með þeim afleiðingum að ég kæmist ekki þurr í bílinn.

Gat ég stokkið yfir tjarnarpollinn?..eh, eftir miklar vangaveltur sem snérust aðallega um að meta gamlar einkunnir í leikfimi, þá sérstaklega frjálsum íþróttum útilokaði ég strax þann möguleika.

En stuttu síðar ákvað ég að reyna að stökkva, það færi þá bara illa og svo yrði að vera.

Í hausnum heyrði ég hvatningaróp og uppklapp og tók tilhlaup...og voilá, ég komst yfir án þess að blotna, en reyndar rann ég til í eina hálkublettinum sem eftir var á planinu sem var frekar vont, en ég náði þó að stökkva!

www.hrebbna.tk
-getur flest-



föstudagur, janúar 14

Af löngunum

Ég fæ oft miklar langanir til að bregða út af venjum og gera eitthvað óvenjulegt þegar það á alls ekki við. Dæmi um þetta er t.d. að mæta á náttfötunum í fín jólaboð, öskra á bókasöfnum og klappa innilega í bíó, en einhvernveginn læt ég aldrei undan lönguninni og sit prúð og stillt eins og á við.

Gott dæmi er líka þegar karlmenn koma í ónefnda verslun sem ég vinn í og versla hinar ýmsu vörur sem oftast tilheyra kvenkyninu, eins og til dæmis varaliti, undirföt og svo videre.
Þá fæ ég svo sterka löngun til að spyrja hvort þetta sé handa konunni, eða máské til einkanota en hef aldrei þorað því fyrr en ég fyrir slysni missti það út úr mér eitt sinn.

Staður: Ónefnd verslun
Skandall: ójá
Stund: löngu gleymd

Ég stóð við kassan og sá mann með hrúgu undirfata, sem eru ætluð konum nálgast hann óðfluga.
Ég setti mig í afgreiðsludömustellingarnar og bauð kurteisislega góðann dag, og á þeirri stundu er ég var að taka svotilgerð þjófamerki út brjóstarhaldara einum skaust þessi hugmynd upp í kollinn á mér og áður en ég vissi af hafði ég spurt manninn hvort þetta væri fyrir konuna eða til einkanota. Á svipstundu hafði búðarferð hjá saklausum manni breyst í brandara og eftir stóð maðurinn með svip sem ætti að festa á grímu, svo sérstakur var hann.

Auðvitað brá manninum í brún, en skyndilega tók hann vel í grínið og sagði að þætta væri nú varla rétt skálastærð fyrir sig. Síðan borgaði maðurinn eins og við á og rauk út í óvissuna.

Eftir stóð ég og hló, og lengdi þar með líf mitt um meira en viku!

www.hrebbna.tk
-hefur enga stjórn á sjálfri sér-


þriðjudagur, janúar 11

Sögur af húsmóður

Undirrituð er farin að halda því fram að móður hennar liggji einhver ósköp á að losna við okkur systur af heimilinu sem allra allra fyrst, ef marka má atburði sem greint verður frá hér að neðan.

Fyrir þónokkru vaknaði ég fersk að vanda að morgni laugardags og labbaði hálfvakandi fram í eldhús þar sem ég hugðist snæða hollann og staðgóðann morgunverð, og rakst á frosinn sviðakjamma á borðinu og öskraði af öllum lífs og sálarkröftum..hélt að hér væri endurfædd lambasteikin sem snædd hafði verið kvöldinu áður..en þá var það víst bara sviðakjammi sem húsmóðirin ætlaði að elda ofaní húsbóndann.

Ég taldi nóg komið af svona atburðum..en einn átti sér nú stað ekki fyrir svo löngu.

Þegar ég kom heim úr skóla, þreytt eftir langann dag og þráði einna helst heita sængina sína, opnaði ég hurðina að húsinu sparkaði af mér skónum og ætlaði að arka beinustu leið í koju þegar ég stíg á eitthvað kalt og mjög hart. Ég lít niður og sé einhverja hryllilegustu sjón sem ég hef á ævi minni séð; hálfann frosinn lambaskrokk, bara liggjandi þarna í þægilegheitum á mottunni.

Nú taldi ég öllu lokið, fór að velta því fyrir mér hvort móðir mín hefði það að leik að drepa dýr í frístundum og láta þau svo liggja svona hér og þar um húsið til að hræða líftóruna úr yngsta barninu, barninu sem á allt lífið framundan..eða var þetta eins og áður sagði vísbending um að hypja sig bara að heiman?

Ég auglýsi nú eftir meðleigjanda.
Sá hinn sami skal hafa tekjur sem geta haldið okkur báðum uppi, borgað alla þá reikninga sem berast..og helst eiga eitthvað afgangs til að spreða.
Einnig væri mjög þægilegt að hann skyldi ekki eftir frosin spendýr á víðavangi um húsið..án minnar vitundar!

Ef þessu aðili er til má sá hinn sami hafa samband við mig í gegnum kómentakerfið eða hreinlega með hugskeyti þar sem allar bréfdúfusendingar liggja niðri vegna kulda.

www.hrebbna.tk
-ein á báti-

fimmtudagur, janúar 6

Af enn einu samsærinu

www.hrebbna.tk hefur verið mjög iðin við að koma upp um samsæri og á dögunum varð hún vör við enn einn samsærið sem virðist hafa verið í gangi í allmarga áratugi.

Á Íslandi er algengt að fólk fái kvef og aðrar pestir sem oft má rekja til þess að sá aðili sem pestina fékk klæddi sig ekki eftir veðri.

Nú hefur www.hrebbna.tk komið að því hvers vegna í ósköpunum þetta gerist.

Sjáið til, þegar meðaljóninn horfir á veðurfréttir skilur hann hvorki upp né niður í því sem þulurinn er að segja. Tökum dæmi:

"Það verður norðsuðaustanvestanlæg átt í kvöld sem færir sig síðar á norðurhvel landsins með tilheyrandi rigningu á köflum, hiti 0-5 stig og norðanstiðningskaldi á vestanaustanverðu landinu"

Hvernig í ósköpunum á venjuleg manneskja að skilja svonalagað án þess að hafa orðabók við höndina?

Þetta leiðir síðan til almenns misskilnings eins og vill oft koma fyrir á þeim dýrðardegi 17.júni þegar helmingur þjóðarinnar mætir í pollagallanum og stígvélunum og hinn mætir í húllahúllapilsi og bikinitopp.

Þess vegna vill ég leggja til að veðurfréttir verði textaðar fyrir þau okkar sem eru ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að skilja svo flókið mál sem notað er í veðurfregnum á þessum tímum.

Þeir sem eru fylgjandi þessari tillögu eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig í kómentakerfið að neðan.

www.hrebbna.tk
-og veðrið-




sunnudagur, janúar 2

Skandall på dansk!!

Staður: Hagkaup, Kringlan
Tími: milli mjalta og messu
Skandall:

Undirrituð var stödd við vinnu fyrir þó nokkru og afgreiddi kúnna af hinni mestu snilld eins og við má búast.
Eftir að hafa afgreitt einn kúnnann enn kallaði ég í sakleysi mínu; næstu gjörið svo vel, þegar hún sá fatahrúgu koma labbandi til sín.
Undan fatahrúgunni kom kona, og sagði á eitthvað á óskiljanlegu tungumáli.
Ég hélt áfram að afgreiða konuna, en alltaf virtist hún vera á spjallskónum og talaði og talaði og hló dátt og benti.
Eftir stutta stund gerði ég mér grein fyrir því að konan talaði dönsku með því að hlusta á hljómburðinn, en gat ómögulega skilið hvað hún var að segja.

Í einni svipan fór ég yfir alla þá dönsku sem ég hef lært í skóla, sem telur samtals 7 ár, en öll danskan var horfin.

Eftir mikið puð náði ég þó að klára afgreiðsluna með óteljandi neyðarlegum brosum og kurteisishlátri þegar mér fannst eiga við.

Loks þegar heim var komið skyldi ég loksins hvað konan var að tala um og það hljómaði nokkurnveginn svona;

Dönsk kona; ég veit ekkert hvað ég á að kaupa handa barnabörnunum, ætla bara að kaupa pils á sonarson minn og skyrtu og vesti á sonardóttur mína og vera bara fyndin í ár!

Skemmtilegt tilfelli um stundardönskukunnáttuhvarf!