föstudagur, maí 28

Tækniframfarir
Hrebbnan hefur síðan á haustdögum sést með stafræna myndavél hér og hvar og hefur henni loks tekist að setja þessar myndir inn á veraldarvefinn.
Myndirnar má nálgast hér

Njótið
Sumarvinna
Í þá gömlu góðu daga þegar maður var enn saklaus einstaklingur sem gekk í grunnskóla eyddi maður sumrinu í að leika sér úti,passa börn og halda tombólur og hafði virkilega gaman af.
Svo kom sú tíð að saklausa barnið þroskaðist og fór í gagnfræðaskóla, og þá var maður ekki lengur lítið saklaust barn, heldur ógnvekjandi og stórhætturlegur unglingur á gelgjuskeiði. Þá þótti ekki lengur hip og kúl að passa börn og bora í nefið, heldur var sagt við mann að nú þyrfti maður sko að sanna sig sem einstaklingur og fara í Unglingavinnu Bessastaðarhrepps, (einnig þekkt undir nafninu Herbúðir Hrannar).

Síðustu 4 ár hef ég unnið í þessum öguðu herbúðum, og þótt ágætt enda oftast eytt sumrinu í beðum, reytandi arfa í góðra vina hópi.
En nú í sumar varð breyting á.

Ég mætti að morgni þriðjudags um 8-leytið og sá fram á afslappað og skemmtilegt sumar með vinum og kunningjum, en sá draumur var skyndilega á bak og burt þegar tilkynnt var hverjir yrðu saman í hóp yfir sumarið.
Ég sat á bekk og horfi á vini mína fara hver á fætur öðrum í sína hópa, og beið eftir kalli Herforingjans. Loks var nafn mitt lesið upp, vitlaust eftirnafn, en þó nafn mitt.
Ég gekk í lið mitt, og virti fyrir mér liðsmenn. Skyndilega lá það ljóst fyrir; ég var eigi í hópi með mínum yndislegu vinum, heldur var ég sett í lið með ókunnugu fólki.

Eftir um hálftíma grátur innra með mér ákvað ég að sætta mig við hlutskipti mitt og sá fram á sumar vinnusemi og duglegheita. Stuttu eftir að ég hafði rakað burt allt gras sem til var í hreppnum sá ég hvar systir mín gekk til liðsforingjans, tók hrífu í hönd og spjallaði örlítið við liðsmennina.
Hversu frábært gat þetta orðið, hugsaði ég með mér.
Nú sá ég fram á sumar rifrilda og leiðinda, enda erum við systur ekki þekktar fyrir ást í garð hvor annarar enda frekar ólíkir persónuleikar.

Þar sem ég stóð, rakandi ímyndað gras tók ég að hlusta á samræður liðsmanna minna, sem flestar snérust um kærasta, hálf-kærasta og viðhöld. Þegar ein stúlka spurði mig hvort ég vildi nú ekki blanda geði við hana og vinkonur hennar og ég ákvað að slá til.
Hægt og býtandi dróg ég mig úr samræðunum þegar ég áttaði mig á því að þær höfðu eytt síðasta hálftímanum í að ræða um hvaða maskari væri í raun og veru sá besti.

Nú sé ég fram á sumar einveru, allavega hef ég eytt síðustu 2 dögum í samræðuR við sjálfa mig og hrífuna mína, sem nefnist Magnús.

Góðar stundir

laugardagur, maí 22

Af veislum
Ég var stödd í veislu um daginn, eins og gengur og gerist.
Þegar ég er í veislum legg ég það oftar en ekki í vana minn að hlusta á samræður fólks. Í veislum gerist það ólíkt fólk tekur að spjalla saman um daginn og veginn.
Eftir að hafa svarað öllum ættingjum um gengi mitt í skólanum,sumarvinnuna og ástarmál settist ég niður með brauðtertubút og kókglas og hlýddi á samræður ættingja minna.

Eftir um hálftíma hlustun hafði þessi hópur farið víða í samræðunum, allt frá skiptinemum til gulrótarkökuuppskriftar og frá því til Íslenskra bíómynda.
Ég viðurkenni að samræðurnar vöktu engann sérstakann áhuga hjá mér fyrr en einn ágætur frændi minn hóf mjög svo skemmtilegar samræður um Ísl. kvikmyndir, ég sá loks tækifæri til að blanda mér inn í samræðurnar sem ég og gerði.

Þegar ættingjar mínir fóru að tala um Ladda var athygli mín í hámarki, enda er Laddi einn af mínum uppáhalds.
Ég gerði mig tilbúna að halda tölu um aðdáun mína á Ladda, en málin snérust svo sannarlega í höndunum á mér.
Skyndilega voru allir ættingjar mínir komnir á það mál að Laddi væri útbrunninn kómíker sem ætti bara að halda sig við sölu á fasteignum á Spáni. Ég missti hreinlega andlitið kæru lesendur!
Hvar var ég stödd? Var ég að heyra rétt?
Ég trúði varla að ættingjarnir,flestir yfir fertugt segði slíka hluti um Ladda, fólk sem var uppi á gullárum hans.

Loks sá ég að frændi minn einn dró sig hægt og bítandi úr samræðunni og settist við hlið mér dapur á svip.
Þessi frændi minn er eimmit sá sem kenndi mér að meta Ladda, gaf mér gamlar plötur sem hann átti og geisladiska.

Við ákváðum að gera uppreisn í annars skemmtilegri veislu.
Við settumst tvö í eitt herbergið, þess má geta að veislan var haldin í heimahúsi, og settum Ladda á fóninn og ræddumst um þennan snilling og vitnuðum í hann langt fram eftir kvöldi.

Hver man ekki eftir slögurunum -"Á spáni er gott að djamma og djúsa", "Of feit fyrir mig", "Ég er afi minn" og fleiri góðum úr smiðju Ladda, svo ekki séu nú minnst á alla karakterana; Dengsa, Elsu Lúnd, Eírík Fjalar, og fleiri og fleiri.
Við höfum öll raulað lítinn lagstúf úr safni hans, og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Nú vil ég kæru lesendur fá ykkar álit, er Laddi búinn að vera?
Ef svo er, skal ég eta hatt minn og staf.

sunnudagur, maí 16

Samsæri

Ég hef komið upp um enn eitt samsærið kæru lesendur og fannst mér ég vera knúin til þess að blogga um það.

Ég var stödd í Smáralind um daginn eins og gengur og gerist.
Iðulega þegar maður heimsækir þessa verslunarmiðstöð tekur maður yfirleitt ekki eftir tónlistinni sem ómar um allt húsið, en er þó til staðar.
Eftir langa dvöl í Smáralindinni, af óútskýranlegum ástæðum tók ég,ásamt mínu fríða föruneyti eftir því að engin tónlist var lengur í gangi, okkur til mikillar furðu.
Við létum tónlistarleysið þó ekki á okkur fá og héldum áfram okkar málum, þar til við loks heyrum rödd úr fjarska segja;
"Það er þægilegt að versla í Smáralind".
Aldrei höfðum við heyrt í þessari rödd áður í ferðum okkar í Smáralindina sem eru ófáar, og eftir örskammastund heyrðist röddin aftur; "Í Smáralind eru yfir 150 verslanir sem gleðja" og stuttu síðar; "Takk fyrir að velja Smáralind, komdu sem oftast". Loks fór músíkin aftur í gang og ég fór að velta því fyrir mér hvurs lags samsæri þetta væri.

Meðan við, saklausir borgarar eyðum aleigunni í Smáralindinni er rödd sem snertir undirmeðvitund okkar meðan við verslum sem sannfærir okkur um að Smáralind sé þúsund sinnum betri heldur en Kringlan og fær okkur þess vegna til að koma aftur og aftur. Þessi rödd heilaþvær okkur í hver skipti sem við vogum okkur að stíga fæti inn fyrir dyr Smáralindar.

Ég segji hingað og ekki lengra Smáralind!
Ekki ætla ég að láta bjóða mér það að vera dáleidd af fyrirmönnum Smáralindar í því skyni að fá mig aftur til að eyða peningum í verslunum þeirra, ekki að ræða það!

Ég hvet alla sem einn að standa með mér eins lengi og þeir þola!

Yfir og út

föstudagur, maí 14

Lítil saga
Það var einn vordag í maí, nánar tiltekið 7 maí sem þessi hræðilegi atburður gerðist.
Þessi atburður átti eftir að hafa mikil áhrif á undirritaða.

Hún gekk að tölvunni, með ágætisblogghugmynd og hugðist ætla að dreifa henni meðal jafningja á veraldarvefnum, en hvað var þetta?

Það kviknaði ekki á tölvunni!

Hún reyndi hvað eftir annað að ýta á on-takkann en ekkert virtist gerast. Faðir hennar horfði á stúlkuna og fussaði og sveiaði og sagði henni að gefast hreinlega upp, tölvan væri biluð.
Hún ákvað að sanna í eitt skipti fyrir öll hversu góð hún væri í raun og veru á tölvur og tók því allar snúrurnar úr sambandi og setti þær aftur í samband en alltaf var sama niðurstaðan sem blasti við henni..tölvan var biluð.

Eftir langann fjölskyldufund var ákveðið að fara með heimilisástina í viðgerð.

Eftir langa tölvulausa viku fékk stúlkan loks tölvuna sína til baka betri en nokkru sinni fyrr.


Já kæru lesendur, þetta er ástæðan fyrir bloggleysinu en ég kem sterk inn eftir bilanir og próf

miðvikudagur, maí 5

Örstutt
Þar sem ég sat í makindum mínum við enskulestur á bókasafni hinnar háttvirtu menntastofnunar varð ég skyndilega fyrir óþægilegri truflun er þjófavarnarkerfi skólans fór í gang.
Ég skildi hvorki upp né niður í því hvers vegna enginn kippti sér upp við þessu óhljóð fyrr en ég gekk til bókasafnsvarðarins og spurði hvort ég væri svona hryllilega næm fyrir óhljóðunum eða hvort samnemendur mínir væru hreinlega heyrnarlausir, þá benti hún mér á að flestir hefðu keypt eyrnatappa á próftilboði.

laugardagur, maí 1

Bæjarferð
Ég vaknaði í morgun við fuglasöng og kaffilykt, og var óvenju hress miðað við atburði gærkvöldsins.
Faðir minn hafði farið fram úr fyrir allar aldir og skellt sér út í bakarí, sem verður að teljast afrek út af fyrir sig.
Þegar ég kom fram í eldhús voru allir heimilismeðlimir á fótum, svolgrandi í sig góðgæti úr bakaríinu og drekkandi dýrindis brasilískt kaffi, eða nýkreistann appelsínusafa.
Gat dagurinn byrjað betur?

Ég og systir mín kær tókum að tala saman og komumst að því að okkur langaði báðum að gera okkur dagamun og kíkja í Kolaportið.

Þegar við komum í Kolaportið var auðsjáanlegt að fleiri höfðu fengið sömu hugdettu og við.
Básarnir voru allir mjög spennandi og hefði ég án efa geta eytt öllum deginum þarna inni. Fólkið var allt svo glaðlegt og tók á móti manni með bros á vör.

Ég hafði hugsað mér að kaupa mér kjól á bás sem einhver búningahönnuður var með, en ekkert varð úr því vegna peningaskorts.
Þó sá ég mér fært að fjárfesta í einni vidjóspólu og einu pari af skóm, sem verða nú að teljast góð kaup því heildarupphæðin var 1000 krónur.
Systir mín kær var iðin við að opna budduna og verslaði eins og óð væri.

Meðan systir mín var í óða önn að eyða mánaðarlaununum fór ég að velta fyrir mér fólkinu sem var þarna á ferli.
Þarna var saman kominn Þingeyrarkórinn í allri sinni mynd, þreytta móðirinn sem gerði allt til að láta börnin sín hætta að nöldra, túristinn sem var greinilega villtur og spurði undirritaða "Sorry, is this Smáralind?",gömlu hjónin sem komu til að kaupa gæðafisk, hasshausinn sem fjárfesti í hasspípu og framhaldsskólanemar sem voru að gera allt nema að læra undir lokapróf.

Þegar við systurnar fengum þau skilaboð í gegnum farsíma að við þyrftum að koma okkur heim í flýti..af óútskýranlegri ástæðu var ekkert annað að gera en að hoppa upp í bíl og keyra af stað, en skyndilega kom babb í bátinn.
Við vorum stopp á ljósunum við tjörnina og skyldum hvorki upp né niður hvers vegna umferðin var svona hæg. Ég tók mig til og steig út úr bílnum og skimaði í kringum mig eftir hugsanlegri ástæðu..og loks blasti hún við mér: blásandi í lúðra, berjandi á trommur ..skrúðganga.
Týpískt, við sem vorum einmitt að flýta okkur. Þó bjargaðist þetta allt að lokum(eftir um 10 mín. bið) og við komumst heilar heim.

Í heildina var þessi bæjarferð stórskemmtileg og hvet ég alla til að kíkja sem fyrst í Kolaportið.