laugardagur, maí 1

Bæjarferð
Ég vaknaði í morgun við fuglasöng og kaffilykt, og var óvenju hress miðað við atburði gærkvöldsins.
Faðir minn hafði farið fram úr fyrir allar aldir og skellt sér út í bakarí, sem verður að teljast afrek út af fyrir sig.
Þegar ég kom fram í eldhús voru allir heimilismeðlimir á fótum, svolgrandi í sig góðgæti úr bakaríinu og drekkandi dýrindis brasilískt kaffi, eða nýkreistann appelsínusafa.
Gat dagurinn byrjað betur?

Ég og systir mín kær tókum að tala saman og komumst að því að okkur langaði báðum að gera okkur dagamun og kíkja í Kolaportið.

Þegar við komum í Kolaportið var auðsjáanlegt að fleiri höfðu fengið sömu hugdettu og við.
Básarnir voru allir mjög spennandi og hefði ég án efa geta eytt öllum deginum þarna inni. Fólkið var allt svo glaðlegt og tók á móti manni með bros á vör.

Ég hafði hugsað mér að kaupa mér kjól á bás sem einhver búningahönnuður var með, en ekkert varð úr því vegna peningaskorts.
Þó sá ég mér fært að fjárfesta í einni vidjóspólu og einu pari af skóm, sem verða nú að teljast góð kaup því heildarupphæðin var 1000 krónur.
Systir mín kær var iðin við að opna budduna og verslaði eins og óð væri.

Meðan systir mín var í óða önn að eyða mánaðarlaununum fór ég að velta fyrir mér fólkinu sem var þarna á ferli.
Þarna var saman kominn Þingeyrarkórinn í allri sinni mynd, þreytta móðirinn sem gerði allt til að láta börnin sín hætta að nöldra, túristinn sem var greinilega villtur og spurði undirritaða "Sorry, is this Smáralind?",gömlu hjónin sem komu til að kaupa gæðafisk, hasshausinn sem fjárfesti í hasspípu og framhaldsskólanemar sem voru að gera allt nema að læra undir lokapróf.

Þegar við systurnar fengum þau skilaboð í gegnum farsíma að við þyrftum að koma okkur heim í flýti..af óútskýranlegri ástæðu var ekkert annað að gera en að hoppa upp í bíl og keyra af stað, en skyndilega kom babb í bátinn.
Við vorum stopp á ljósunum við tjörnina og skyldum hvorki upp né niður hvers vegna umferðin var svona hæg. Ég tók mig til og steig út úr bílnum og skimaði í kringum mig eftir hugsanlegri ástæðu..og loks blasti hún við mér: blásandi í lúðra, berjandi á trommur ..skrúðganga.
Týpískt, við sem vorum einmitt að flýta okkur. Þó bjargaðist þetta allt að lokum(eftir um 10 mín. bið) og við komumst heilar heim.

Í heildina var þessi bæjarferð stórskemmtileg og hvet ég alla til að kíkja sem fyrst í Kolaportið.

Engin ummæli: