miðvikudagur, apríl 28

Fréttatími
Þetta var að berast...

Leikhópur áfangans lei203 mun sýna lokaverk sitt Platonof í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ næstkomandi fimmtudags- og föstudagskvöld(29 og 30) kl 20:00.
Frítt er inn fyrir alla, konur, karla og önnur húsdýr.


Ég hvet alla til þess að koma og sjá sýninguna, en undirrituð fer eimmit með hlutverk í þessu stykki, þannig að áðdáendaklúbburinn er vinsamlegast beðinn um að athuga að það er skyldumæting á þennan atburð!

laugardagur, apríl 24

Leikhúsferð

Við tókum okkur saman nokkrar stelpur úr Litlu Hryllingsbúðinni og ákváðum að skella okkur á sýninguna
5 stelpur.com til að sjá þessa elsku, hana Unnsu okkar stíga á stokk.

Ekki urðum við fyrir vonbrigðum með þessa sýningu skal ég segja ykkur.
Ég náði vart andanum fyrir hlátri og var maskarinn komin lengst niður á lendar fyrir hlé svo ekki sé nú minnst á magaverkinn sem var farinn að segja til sín af öllum hlátrinum. Allar leikkonurnar voru bráðfyndnar og Unnur stóð sig frábærlega!

Ég mæli hiklaust með þessari sýningu og meina ég og segji það hér og nú að þetta er fyndnasta uppistand-gamanleikrit sem ég hef nokkurntíman séð á ævinni.

Hrebbnan mælir með 5 stelpur.com

fimmtudagur, apríl 22

Foreldrar
Oftar en ekki hef ég hallast að þeirri skoðun að ég sé ættleidd.
Ástæðan?

Foreldrar mínir eru mjög ólíkir, enda ekki að furða þar sem þau eru alin upp hvor í sínum landsfjórðungi. Einnig hlýtur hinn mikli aldursmunur að hafa einhver áhrif.

Móðir mín var hálfgerður vandræðaunglingur, ólst upp í frekar frjálsu umhverfi í stórum systkynahópi.
Hún hefur mjög gaman af því að spjalla í síma og er hress með eindæmum. Konan sú hefur brennandi áhuga á Leiðarljósi,.íþróttum og er virkur meðlimur í kvenfélagi hreppsins.

Faðir minn er einn af gamla skólanum.
Fyrrv. bankastjórabulla, og rólyndur maður.
Hefur einstaklega gaman af öllu sem tengist íþróttum, en alveg óútskýranlega óbeit á símum.
Einnig má þess geta að hann hefur einstaklega gaman af því að sofa yfir sápuóperum.

Ég held að íþróttirnar séu það sem hafi dregið þessar tvær ólíku manneskjur saman. Faðir minn var landsliðsþjálfari í handbolta hér um árið og móðir mín fyrrv. keppnismaður í langstökki.

Það sem mér finnst einna merkilegast við áhuga þeirra á íþróttum er það að þau geta setið tímunum saman yfir hinni geysivinsælu íþrótt; snóker og skemmt sér jafn vel og yfir stórum landsleik Íslendinga.
Móðir mín segir gjarnan að maður þurfi bara að finna það er sem gerir íþróttina spennandi. Ég hef leitað og leitað en ekki enn fundið hvað er svona spennandi við snóker.

Þessar tvær manneskjur hafa verið mér til skammar svo oft að ég er hætt að telja, en þau eru alveg mögnuð þrátt fyrir það.
Þau fæddu mig nú einu sinni í þennan heim og án þeirra væri ég ekki hér!

Ég vil þakka örlögunum fyrir að hafa dregið þau saman og mér finnst að allir ættu að gefa foreldrum sínum klapp á bakið í tilefni dagsins!

Góðar stundir
Sumar
Já kæru lesendur nær og fjær.
Það ætti ekki að fara fram hjá neinum að nú er sumarið komið, samkvæmt hinu heilaga dagatali Landsbankans sem er staðsett hérna við hlið tölvunnar.

Það er svo margt sem fylgir komu sumarsins;
skólinn að verða búinn,próf, leikritið búið,sumarvinnan tekur við, portúgalferðin og svo áður en maður veit af er skólinn að byrja aftur.

Annars er ég mjög mikil sumarmanneskja.
Ég veit fátt skemmtilegra en að sitja úti á Austurvelli í góðra vina hópi að spjalla saman, svo ekki sé nú minnst á bæjarferðirnar.

Ég vona heitt og innilega að þetta sumar eigi eftir að vera yndislegt

Með sumarkveðju
Hrefna

sunnudagur, apríl 18

Enn af önnum
Laukrétt krakkar mínir..nú er kominn tími til að blogga dagana sem hafa liðið.

Menn eru alveg að missa sig yfir þessum blessaða söngleik okkar,Litlu Hryllingsbúðinni og sýningar virðast bara aldrei ætla að hætta.
Það er búið að bæta við tveimur aukasýningum, á morgun kl 13:00 og svo er hin..jah ég bara man ekki hvenær.
Sýningin í gær átti að vera lokasýning, en það virðist vera svo mikil aðsókn að við þurfum að bæta við sýningum..sem er bara mjög gott mál.

Annars er það að frétta að kosningavikan gengur í garð á morgun og mun hún án efa vera spennandi. Ég ákvað að bjóða mig fram í sömu nefnd og ég er í, Listanefnd og vona bara að FG-ingar kjósi rétt!

Í gærkveld var eins og áður sagði sýning og tókst hún með eindæmum vel..fyrir utan 15 mínútna töf í byrjun, vegna ljósavesens.
Salurinn var sá allra besti sem ég hef upplifað sem gerði kvöldið ennþá skemmtilegra!
Eftir sýningu var haldið á karókí-keppni í vinnunni og var fólk almennt hresst þar, eins og við mátti búast.
Síðan var skundað á Opus með Önnu,Ingvari,Ernu og fleirum úr Hagkaup, en þar var bjórkvöld hjá MH.

Djammið er alveg í hámarki þessa dagana..sem gerir það að verkum að buddan er galtóm, ef ekki í mínus.

Meira síðar..heimalærdómurinn bíður kallandi á skrifborðinu

mánudagur, apríl 12

Svekkjandi lesning

...ég fékk ekki málshátt í páskaegginu mínu, hversu súrt er það?

föstudagur, apríl 9

Í þá gömlu góðu...
...daga þegar Ómar hafði hár og ég var enn á hinu illræmda gelgjuskeiði voru átrúnaðargoð mín ,eins og hjá flestum stelpum á mínu reki Spice Girls,eða Kryddpíurnar.

Ég algjörlega missti mig í brjálæðinu, lét eins og móðir mín fyrrum daga þegar bítlaæðið var í hámarki.
Ég viðurkenni það fúslega að ég átti flest sem hægt var að fá með Spice Girls; diskana,boli,bolla,strokleður,myndir og margt margt fleira.
Ég og vinkonur mínar áttum okkur þann stóra draum að fá einhverntíman að fara á tónleika með gyðjunum og héldum í vonina og báðum til guðs,jesú,allah og múhammed á hverju kvöldi í þeirri von að einhver mundi senda þær til Íslands. Þegar uppáhald margra,Geri hætti í bandinu fór áhuginn snarlækkandi og ekki leið á löngu þar til myndirnar,diskarnir og dótið var komið lengst inn í fataskáp.

Draumur okkar varð að engu..eða hvað?

Ég fékk símhringingu í febrúarmánuði.
Á hinum enda línunnar var mín elsta systir sem hringdi í þeim tilgangi að bjóða mér á tónleika stórhljómsveitarinnar Sugarbabes, eða Sykurbeibin, með því skilyrði að ég passaði frænku mína á tónleikunum.

Gat verið að þetta væri minn eini möguleiki á að sjá stelpnaband á sviði?
Var þetta mín köllun?
Nei, en ég ákvað að slá til.

Tónleikarnir fyrrnefndu voru í gærkveld og voru þeir hin ágætasta skemmtun.
Það sem kom mér þó hvað mest að óvart var hversu mikið var af fólki sem ég þekkti. Þarna mátti sjá hana,hann og fleira ágætisfólk.

Sem sagt, fleiri en ég voru að upplifa gamla drauminn.

þriðjudagur, apríl 6

Í sól og sumaryl
Ég vaknaði í morgun við fuglasöng,sólskyn og Pabana á fóninum frammi í stofu. Það gat aðeins þýtt eitt, húsmóðir í góðu skapi.
Ekki að furða því veðrið er dásamlegt!

Mér finnst alveg frábært hvernig veðrið getur haft áhrif á fólk.
Ég skrapp í banka og gjaldkerinn sem venjulega smitar mann af þunglyndi sínu brosti meira að segja út í annað.

Nú veit ég af hverju spánverjar og portúgalar eru alltaf svona kátir.
..vel á minnst, 119 dagar í sólina