föstudagur, apríl 9

Í þá gömlu góðu...
...daga þegar Ómar hafði hár og ég var enn á hinu illræmda gelgjuskeiði voru átrúnaðargoð mín ,eins og hjá flestum stelpum á mínu reki Spice Girls,eða Kryddpíurnar.

Ég algjörlega missti mig í brjálæðinu, lét eins og móðir mín fyrrum daga þegar bítlaæðið var í hámarki.
Ég viðurkenni það fúslega að ég átti flest sem hægt var að fá með Spice Girls; diskana,boli,bolla,strokleður,myndir og margt margt fleira.
Ég og vinkonur mínar áttum okkur þann stóra draum að fá einhverntíman að fara á tónleika með gyðjunum og héldum í vonina og báðum til guðs,jesú,allah og múhammed á hverju kvöldi í þeirri von að einhver mundi senda þær til Íslands. Þegar uppáhald margra,Geri hætti í bandinu fór áhuginn snarlækkandi og ekki leið á löngu þar til myndirnar,diskarnir og dótið var komið lengst inn í fataskáp.

Draumur okkar varð að engu..eða hvað?

Ég fékk símhringingu í febrúarmánuði.
Á hinum enda línunnar var mín elsta systir sem hringdi í þeim tilgangi að bjóða mér á tónleika stórhljómsveitarinnar Sugarbabes, eða Sykurbeibin, með því skilyrði að ég passaði frænku mína á tónleikunum.

Gat verið að þetta væri minn eini möguleiki á að sjá stelpnaband á sviði?
Var þetta mín köllun?
Nei, en ég ákvað að slá til.

Tónleikarnir fyrrnefndu voru í gærkveld og voru þeir hin ágætasta skemmtun.
Það sem kom mér þó hvað mest að óvart var hversu mikið var af fólki sem ég þekkti. Þarna mátti sjá hana,hann og fleira ágætisfólk.

Sem sagt, fleiri en ég voru að upplifa gamla drauminn.

Engin ummæli: