fimmtudagur, apríl 22

Foreldrar
Oftar en ekki hef ég hallast að þeirri skoðun að ég sé ættleidd.
Ástæðan?

Foreldrar mínir eru mjög ólíkir, enda ekki að furða þar sem þau eru alin upp hvor í sínum landsfjórðungi. Einnig hlýtur hinn mikli aldursmunur að hafa einhver áhrif.

Móðir mín var hálfgerður vandræðaunglingur, ólst upp í frekar frjálsu umhverfi í stórum systkynahópi.
Hún hefur mjög gaman af því að spjalla í síma og er hress með eindæmum. Konan sú hefur brennandi áhuga á Leiðarljósi,.íþróttum og er virkur meðlimur í kvenfélagi hreppsins.

Faðir minn er einn af gamla skólanum.
Fyrrv. bankastjórabulla, og rólyndur maður.
Hefur einstaklega gaman af öllu sem tengist íþróttum, en alveg óútskýranlega óbeit á símum.
Einnig má þess geta að hann hefur einstaklega gaman af því að sofa yfir sápuóperum.

Ég held að íþróttirnar séu það sem hafi dregið þessar tvær ólíku manneskjur saman. Faðir minn var landsliðsþjálfari í handbolta hér um árið og móðir mín fyrrv. keppnismaður í langstökki.

Það sem mér finnst einna merkilegast við áhuga þeirra á íþróttum er það að þau geta setið tímunum saman yfir hinni geysivinsælu íþrótt; snóker og skemmt sér jafn vel og yfir stórum landsleik Íslendinga.
Móðir mín segir gjarnan að maður þurfi bara að finna það er sem gerir íþróttina spennandi. Ég hef leitað og leitað en ekki enn fundið hvað er svona spennandi við snóker.

Þessar tvær manneskjur hafa verið mér til skammar svo oft að ég er hætt að telja, en þau eru alveg mögnuð þrátt fyrir það.
Þau fæddu mig nú einu sinni í þennan heim og án þeirra væri ég ekki hér!

Ég vil þakka örlögunum fyrir að hafa dregið þau saman og mér finnst að allir ættu að gefa foreldrum sínum klapp á bakið í tilefni dagsins!

Góðar stundir

Engin ummæli: