sunnudagur, desember 24

Þorláksmessa vs Aðfangadagur

Þorláksmessa

Í búðinni lítur Siggi Hall öfundaraugum yfir allar Jóa Fel vörurnar meðan húsmóðir úr Árbænum fær hjartaáfall yfir því að öll jólatré séu uppseld. Fólk er pirrað, hresst eða yfirvegað.

Undirrituð hleypur út um alla búð að redda hinu og þessu, í alls16 tíma þennan dag..

Aðfangadagur

Friðir færist yfir mannskapinn og Siggi Hall notar Jóa Fel sósujafnarann í sósuna.

Undirrituð sofnar yfir matnum

www.hrebbna.tk
-GLEÐILEG JÓL-

þriðjudagur, desember 12

Stekkjstaur kom fyrstur..stinnur eins og tré


Mikil kátína ríkti í barninu í mér í morgun þegar ég sá að góðvinur minn Stekkjastaur hafði enn eitt árið ratað að glugganum mínum.


..já og hann gaf mér Jólastaf..svona til að kæta unga mær við próflesturinn!

.....Aumingja Erna fékk ekki neitt...held að hún sé orðin of gömul!


.....Giljagaur..þú veist hvar ég á heima..ég treysti á þig...

www.hrebbna.tk
-Stórar stelpur fá ennþá í skóinn-

sunnudagur, desember 10

Rainy days

Aumingja prinsinn sem ætlar að laumast í gegnum gluggann inn í nótt..

Stóri pollurinn fyrir utan gluggann minn er ágæt vísbending fyrir hann um að fjárfesta í vöðlum

..já svo mikið hefur ringt á nesinu að um stund hélt ég að faðir minn kær hefði breytt húsinu í örk..og að pollarnir sem umkringja það væru Atlandshafið

www.hrebbna.tk
-í vöðlum-

miðvikudagur, desember 6

Myndablogg

Í vinnunni
Ég elska vinnuna mína
..ekta feik íslenskt fear factor..eða mörk óttans með lifrapylsu, kæfu, blóðmör og hrááli...og mysa til að skola þessu niður.. nammi namm
Myndina sendi ég
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

þriðjudagur, desember 5

Blaaa....

Er það bara ég eða er raunveruleikaþáttur um lífið í spilavíti í Las Vegast alveg afleit hugmynd?

Hvernig væri að búa til ekta íslenskan raunveruleikaþátt um lífið í Háspennu, spilasal Íslendinga..eða í Hagkaup.

Rónar, spilafíklar og unglingar undir aldri að fikta í kössunm eða húsmæður sem annaðhvort hafa týnt börnunum sínum eða kvarta yfir of háu verði...

Já, það væri nú spennandi...

....eða ekki!

www.hrebbna.tk
-andvaka-

sunnudagur, nóvember 26

Af grínurum

Síðustu mánuði hefur farsími undirritaðrar verið til mikilla vandræða....bilað á óheppilegum tímum og svo framvegis.

Það hefði því ekki átt að koma mér á óvart þegar vinir og vandamenn fóru að kvarta yfir einu stórundarlegu vandamáli..en það gerði það nú samt.

Þegar vinir og vandamenn hugðust hringja til að spjalla um daginn og veginn kom það ekki svo sjaldan fyrir að þau fengu samband við útvarpstöð eina, nánar tiltekið Fm957

Í fyrstu hélt ég að þetta væri bara hin ótrúlegasta tilviljun..en þegar þetta fór að ágerast var ég nú alvarlega farin að klóra mér í kollinum
.Ég spurði fólk sem kann sitthvað í sambandi við farsíma, þ.e.a.s. meira en að hringja, nota dagatalið og senda sms eins og undirrituð..en enginn virtist skilja hvað væri í gangi.

Það var ekki fyrr í vikunni að ég hafði samband við þjónustuver Vodafone og spurðist fyrir um þetta annars óvenjulega vandamál.

Stúlkan sem svaraði vandamálaspurn minni var eins hissa og ég, og vissi í raun og veru ekki hvað gæti verið að.
Ég tjáði henni að ég vildi fá lausn á þessu vandamáli..til að koma í veg fyrir að tæknihræddar frænkur, áttræð amma og fleiri myndu nú ekki bregða í brún þegar útvarpselítan svaraði en ekki undirrituð. Hún tjáði mér að hún ætlaði að hafa samband við tæknimenn fyrirtækissins og hringja svo aftur í mig.

Eftir fimm mínútur kom símtalið....

Stúlka; Hrefna..sæl! Ég er búin að finna lausn á vandamálinu
Undirrituð: Í alvöru..og hver er vandinn?
Stúlka: Svo virðist sem einhver hafi stillt símann þinn á "divert" sem þýðir að ef þú svarar ekki í símann innan ákveðins tíma færist símtalið yfir á annað númer..
Undirrituð: ...já...uuu...einmitt

Viti menn..ég var með "divert"-ið stillt á hina annars ágætu útvarpsstöð Fm957 sem olli því að fólk fékk samband, ýmist í beina eða óbeina útsendingu útvarpstöðvarinnar.

......
...
..

Ég auglýsi hér með eftir þeim stórkostlega grínara sem stillti þetta á símann minn...

.....hann á skilið klapp á bakið!

http://www.hrebbna.tk/
-göbbuð...-

þriðjudagur, nóvember 21

Myndablogg

Myndablogg
Fýlukall sendi ég vegna bilunar í kerfi bloggsins..
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

föstudagur, nóvember 17

Nýjasta nýtt

Ný frostpinnategund hefur litið dagsins ljós og mun hún innan tíðar tröllríða ís-markaðinum hér á landi, þ.e.a.s. ef hitastigið síðustu daga breytist ekki...

Við kynnum;

Hrebbnufrostpinnana!

www.hrebbna.tk
-að dreeeeepast úr kulda!-

föstudagur, nóvember 10

Af vonskuveðri

Ég er ekki frá því að ég hafi séð bæjarstjórann, frú og tvö skólabörn fljúga hérna framhjá glugganum mínum fyrir stuttu..svo mikill er veðurofsinn á Álftanesinu


...ætli Siggi Stormur viti af þessu?

www.hrebbna.tk
-og vonskuveðrið-

sunnudagur, nóvember 5

Af vinnu

Það er alltaf jafn helvíti skemmtilegt að koma til vinnu á sunnudagsmorgni eftir ævintýri helgarinnar.

...já það er líka skemmtilegt að láta þessa 5 klukkutíma líða..og hafa ekkert að gera

...og vitiði hvað er ennþá skemmtilegra?

Þegar starfsmenn ákveða að hringja á fimm, tíu mínútna fresti til að spyrja hvað klukkan sé..

...þá er tíminn nefnilega miklu fljótari að líða.....einmitt

www.hrebbna.tk
-þunnudagur-
Af móðurmálinu

Sama ár og Gorbatjov kíkti í heimsókn í Höfða, og Gleðibankinn vann ekki Júróvision fæddist undirrituð inn í þennan heim.

Síðan þá hefur hún þroskast og dafnað og lært samviskusamlega það mál sem henni var kennt..okkar ilhýru íslensku.

Í rúm tuttugu ár hef ég lært að brúka tungumálið, reglur þess og talsmáta og taldi mig vera þónokkuð vel stadda í þeim málum.

Síðustu daga hef ég komist að því að ég kann bara ekkert í íslensku...varla stakan staf!

Ég sárvorkenni útlendingum sem koma til landsins og hyggjast læra íslensku...tungumálið er jafn flókið og að telja hárin á sínu eigin höfði.

www.hrebbna.tk
-með skólaleiða?-

sunnudagur, október 29

Af þolraunum

Eitt fékk ég í vöggugjöf og það er óbilandi forvitni...og dass af óþolinmæði.

...forvitni og óþolinmæði geta farið illa saman...

...í dag er ég bæði forvitin og bíð óþolinmóð eftir morgundeginum

www.hrebbna.tk
-sem bíður og bíður og bíður og bíður...til morguns-

fimmtudagur, október 19

Af upphituðum gólfum

Það að hafa hita í gólfinu í stað gömlu góðu ofnanna getur verið kostur en þegar móðir manns hefur ákveðið að afþíða nautahakk á gólfinu og undirrituð gengur nývöknuð fram og stígur beint í hakkhrúguna er frekar óskemmtileg upplifun.

Það er ennþá óskemmtilegri upplifun að renna á rassinn á bleytupollinum eftir að hakkið er afþiðið.

www.hrebbna.tk
-alltaf að læra af mistökunum-

þriðjudagur, október 10

Lægð

Svo virðist sem mikil lægð sé að ganga yfir í bloggheiminum þessa dagana.

Þegar ég skoða færslur frá fyrri árum var ég stundum að fá yfir tuttugu comment á hverja færslu og líkaði vel að fólk hafði skoðun á því sem ég skrifaði um.

Eina manneskju get ég þó alltaf treyst á að commenti..en ég er eins og gráðugur krakki á jólunum..þegar eitt comment er komið vil ég fá fleiri!

Ég bið ykkur því, kæru lesendur, að commenta..sama hversu lítið eða ómerkilegt commentið er...því annars finnst mér örlítið tilgangslaust að blogga fyrir sjálfa mig.

Ástarþakkir kæru lesendur

www.hrebbna.tk
-í blogglægð-

sunnudagur, október 8

Ábendi

Ábendi dagsins er síðan www.forrettindi.is en það er hetjan og snillingurinn Freyja Haraldsdóttir sem flytur fyrirlestra fyrir unlinga um að það sé forréttindi að lifa með fötlun. Verkefnið hlaut styrk Menntamálaráðuneytissins.

Hvet alla til kynna sér málið...nei skipa öllum að kynna sér málið!

www.hrebbna.tk
-forrettindi.is-

fimmtudagur, september 28

Í myrkrinu

Þögult samþykki ríkti milli flestra borgarbúa og nærsveitunga í kvöld.

Ljósin skyldu slökkt til að njóta stjörnubjarts himins.

Það var þungskýjað, en ljósin voru slökkt þrátt fyrir það.

Á Álftanesinu logaði ljós á einmana ljósastaur, en flest heimahús voru myrkvuð.

Kannski að hann hafi verið myrkfælinn greyjið....?

www.hrebbna.tk
-í myrkrinu-

þriðjudagur, september 19

Af snýtingum, heilsugæslum og almennum slappleika

Eins og gefur að skilja leggur veikt fólk oft leið sína á heilsugæslustöðvar landsins.

Í dag fór ég á eina slíka og komst að nokkru, stórmerkilegu.

Þar sem ég sat, umkringd eldri konum, börnum með kíghósta og mæðrum sem voru þreyttar eftir andvökunætur leitaði hugur minn á framandi slóðir.

Ég avr að hugsa um ánustu framtíð sem hefur verið mér hugleikin undanfarið. Skyndilega beinist athygli mín að músíkinni er fyllti eyru viðstaddra.

Ég fann hvernig hlustin opnaðist, og ég fékk hroll þegar ég gerði mér grein fyrir tónlistinni og hvers lags hún var; niðurdrepandi, hæg og djúptóna.

Og þarna sat ég, meðal fólksins, og varð skyndilega mun slappari(eins og ég hafi ekki verið nógu slöpp fyrir) og fór að vorkenna sjálfri mér þangað til læknirinn( sem var kvenkyns=læknína?) kallaði nafn mitt og hóf að skoða mig.

Meðan hún stakk notuðum frostpinna pinna upp í munn mér, og hlustaði mig í bak og fyrir, velti ég eftirfarandi fyrir mér;

Hvers vegna er ekki hress, upplífgandi tónlist, á heilsugæslum og á stöðum sem fólk sækir nauðugt(s.s. tannlæknastofur, skattstofur, heilsugæslur, skrifstofur skólastjóra o.s.frv.)

Ég fullyrði að ef að hress taktur eins og í laginu; Hæ mambó sem Haukur Morthens söng svo skemmtilega, eða eitthvað síhresst með Ladda væri í gjallarhornum áðurtalinna stofnanna, færi allt á annan og betri veg.

Hugsiði ykkur, hress tónlistin gefur fólki von um bata og um leið sparast heilmikill lækniskostnaður og fólk með flensu mundi batna skotfljótt.

Ég legg opinberlega til að fyrrnefndar stofnanir teki sér þessar hugmyndir til fyrirmyndar, til að stuðla að bættri heilsu landans.

www.hrebbna.tk
-með lausnina-

sunnudagur, september 17

Af stíflum

Eftir viðamikla leit í heilabúi undirritaðrar að bitastæðri bloggfærslu komst ég að því að þar er allt stíflað...af kvefi!

Fjórum sinnum, já ég segi fjórum sinnum, hef ég fengið kvef á síðastliðnum 4 mánuðum!
Ekki er að furða að engar komi bloggfærslunar þar sem allar leiðslur í líkama mínum eru uppfullar af hori og ógeði!

Ég mun blogga innan tíðar...um leið og ég hef snýtt þessum andskota úr mér

www.hrebbna.tk
-attsjjúúú-

..innskot frá vefstjórn; guð hjálpi þér

fimmtudagur, ágúst 31

Stórar stelpur fara....í háskóla
Í fyrramálið, nánar tiltekið klukkan 10 að staðartíma(10.05 fyrir Vestmanneyjinga) mun undirrituð ganga upp tröppur Háskólans sem nýnemi í Íslensku.

...má ég segja SHIT?

sunnudagur, ágúst 27

Myndskilaboð

Gjugg í borg
Myndina sendi ég
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

laugardagur, ágúst 12

Af sinadráttum

...ég vaknaði eðlilega spræk eftir atburði helgarinnar og sá mér til mikillar gremju að ég var orðin of sein til vinnu.

"Einn, tveir og frammúr", hugsaði ég með sjálfri mér en líkaminn neitaði harðlega. Ég náði með þrjóskuna að vopni að velta mér fram úr rúminu, en allt kom fyrir ekki...líkaminn var ennþá sofandi.

Hendurnar, sem voru vaknaðar þegar hér er komið við sögu gripu í sófann og ætluðu að hífa líkið sem lá eins og þurrkaður harðfiskur á gólfinu, en ekkert virkaði.

Skyndilega er eins og eldur færi um líkamann og þarna lá ég, eins og fangi í Úrugvæ sem hafði nýlega fengið raflost.
Eftir fjórar misheppnaðar tilraunir til að kalla á móður mína sá ég að ég var að liggja á gólfinu þar til sinadrátturinn færi.

Tíu mínútur liðu og sinadrátturinn var farinn að minnka, en var ekkert á förum. Fæturnir voru lamaðir sem og afturendinn sem getur reynst erfitt ef standa skal upp.

Eftir stutt spjall við hægri hönd og þá vinstri ákváðum við í sameiningu að gera aðra tilraun til að hífa upp smjörbúkinn og Voilá...það tókst.

Nú var ég komin aftur á byrjunarreit, upp í rúm og það í frekar undarlegri stellingu.

Eftir nokkrar mínútur af "inn, út,tsstss,út" öndun var sinadrátturinn horfinn, eða svo hélt ég.

Ég náði að ganga fram í eldhús og teygja mig í átt að ísskápnum..en búmm-mín hrynur aftur niður.

Loksins, þegar aðeins tíu mínútur voru í vinnu hvarf béskotans sinadrátturinn á braut og hefur ekki þorað að láta sja sig síðan.

www.hrebbna.tk
-sinadráttur..skárri en enginn dráttur?-

miðvikudagur, ágúst 9

Myndablogg

Babb í bátnum?
Myndina sendi ég
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

mánudagur, ágúst 7

Spurning dagsins


Hvar var undirrituð stödd þegar þessu mynd var tekin?

www.hrebbna.tk
-gerir lífið skemmtilegra-

sunnudagur, júlí 30

LONDON

Eftir aðeins sjö klukkustundir mun undirrituð leggja af stað í Leifsstöð og fljúga þaðan til borgarinnar sem kennd er við bræðurna Lon og DonÞar verð ég þangað til laugardaginn 5. ágúst að versla, tjútta og fara í leikhús.

Sunnudaginn 6. ágúst er stóráfangi í lífi undirritaðrar, en þá mun hún loksins komast á aldur, eða verða 20. ára...ég býst við heillaóskum!

Þið gerið eitthvað sniðugt á meðan

www.hrebbna.tk
-lon og don-

laugardagur, júlí 22

Flugufár

Undirrituð sat inni hjá sér í mestu makindum og raðaði geisladiskum, sem var aðeins einn þáttur í sumarhreingerningum þennan mánuðinn.

Skyndilega fór ég að taka eftir óeðlilegri fjölgun flugna í herberginu sem voru vægast sagt farnar að fara í mínar fínustu.
Ég lét það þó ekki á mig fá og hélt áfram að þurrka af og raða geisladiskum.

Fluga fer inn í eyrað og skyndilega heyri ég ekkert nema suð.

Með Jagúar disk að vopni sveifla ég höndum í allar áttir og reyni að hitta skrattans flugurnar sem voru núna farnar að telja á tugum, en ekkert virtist virka.

Ég rifja þá upp húsráð sem ég heyrði einhversstaðar og gríp í hárspreysbrúsa sem kostaði sitt og byrja að spreyja á flugurnar.
Báðir aðilar voru í bardagahug; ég vildi tortrímingu...þær sigur.

Eins og Ghostbusters sveifluðu draugaryksugunum í samnefndri mynd sveiflaði ég brúsanum og beitti af öllu afli uns brúsinn var tómur.

...þær voru þarna ennþá!

Ég rauk út úr herberginu, í annarlegu ástandi; svitaperlur á enni, hárið úfið og angandi af hárspreyji og rak upp angistaróp.

Þá rifjaðist það upp fyrir mér.....

.....hársprey drepur ekkert flugur!

Nú sit ég hér í hárspreysskýji, með flugur á tölvunni, handabakinu og eina sem er að fara að millilenda á nefinu mínu og bíð eftir að verða étin upp til agna.

www.hrebbna.tk
- alveg spinnegal -

laugardagur, júlí 15

Í umferðinni

Í morgun, er ég keyrði kringlumýrabrautina í rigningu og nístingskulda blasti við mér stórskemmtileg sjón....ég sá konu tala í bílasíma!

Ég sem hélt að það væri löngu liðin tíð að hafa síma í bílnum hjá sér

www.hrebbna.tk
-í umferðinni-

sunnudagur, júlí 9

Á sunnudegi

...vildi bara leggja áherslu á það hversu fáranlega myndarleg ég get verið


...já myndir segja meira en þúsundir orða

þriðjudagur, júní 27

Af bitum

Síðustu daga hef ég verið bitin alls átta sinnum!

Í fyrsta skiptið var ég bitin af ungbarni,
í annað skipti var ég bitin af starra(starrabit),
..það sama á við um það þriðja,
...já og fjórða,
...sömuleiðis það fimmta,
.....og ég er ekki frá því að það hafi líka verið í það sjötta,
í sjöunda skiptið var ég bitin af smáhundi...

...og í áttunda skipti beit ég sjálfa mig yfir þessu öllu saman

www.hrebbna.tk
-að bíta, eða vera bitin-

mánudagur, júní 12

Mánudagur

Hversu kjánalegt er það að standa úti í grenjandi rigningu og hávaðaroki og syngja í hálfu hljóði; I´m walking on sunshine....?

www.hrebbna.tk
-blaut í gegn-

föstudagur, júní 9

Örlögum storkað

Þar sem ég stóð, annan daginn minn í vinnu þetta sumarið, við rakstur flýgur saklaus býfluga fram hjá mér sem verður til þess að undirrituð fær vægt hjartaáfall og hendir hrífunni frá sér og leitar skjóls undir burðarvegg eins og henni var kennt.
Reyndar skal maður leita skjóls undir burðarvegg ef jarðskjálfi, snjóflóð eða annars slags nátturuhamfarir eiga sér stað....en vegna óstjórnlegrar hræðslu hennar við býflugur..sá hún ekkert annað í stöðunni.

Hrífan fyrrnefnda lenti öfug í grasinu, þannig að tennurnar snéru upp til himins.

Ég rifjaði upp þjóðsöguna sem móðir mín sagði mér einu sinni að hrífa mætti aldrei snúa öfug á grasi því þá væri von á rigningu. Ég tók mig til og ætlaði að sækja hrífuna til að geta haldið áfram vinnu minni...en datt þá í hug að storka örlögunum eilítið.

Ég sótti mér aðra hrífu og hélt mig í nálægð við örlagavaldinn, hrífuna sem snéri upp í loftið.

Ég leit á hrífuna og himininn til skiptis í þeirri von um að eitthvað myndi gerast...en ekkert bólaði á rigningu.

Lagið Rescue Me glumdi í eyrunum og viðeigandi rassadill hófst með nokkrum laufléttum danssporum sem tekin voru í dans101 hjá Palla í vetur.
Annað gott lag kom í Ipodinum góða, Waterloo með Abba og þá hófst dillið fyrir alvöru. Ég hrúgaði grasi saman í takt við tónlistina og ætlaði að taka eitt vakurt vinstrahopp en ekki vill betur til en svo, að ég lendi með löppina á hrífu örlaganna og áður en ég veit af fékk ég skaftið beint í augað!

Nú sit ég hér með dúndrandi verk í hægra auganu, og er ekki frá því að ég hafði séð einn eða tvo rigningardropa falla af himninum fyrir skömmu.

Þetta kennir manni aldeilis að storka ekki örlögunum!

www.hrebbna.tk
-og örlögin-

þriðjudagur, maí 23

Í sól og sumaryl...

Já kæru lesendur! Á meðan það snjóar og rignir á landið kalda held ég til Búlgaríu þar sem meðalhitinn er 29 gráður thank jú verí næs!


Hér munum við dvelja næstu tvær vikurnar á Victoria Palace hótelinu á Sunny Beach. Yfir 30 manna hópur heldur þangað í dag og á næstu dögum eiga víst verslingar og flensborgarar að bætast í hópinn.

Að sjálfsögðu verður fréttaritari síðunnar á staðnum og reynir að blogga eitthvað smávegis en blogg má líklegast lesa á www.blog.central.is/las_divas ef það birtist ekki hér.

Þið skemmtið ykkur í sköflunum og hálkunni á meðan!

www.hrebbna.tk
-á farandsfæti-

sunnudagur, maí 21

Af evróvisjón

Fyndið þykir mér að sjá hve margir keppendur í Evróvisjón kusu að nota húsgögn í atriðum sínum í keppninni.

Sérstaklega þótti mér gaman af yngismeyjunum sem snéru sér í hringi og dönsuðu á skrifborðsstólum og Armeninn sem dansaði uppi á prýðilegu borðstofuborði.

www.hrebbna.tk
-og Evróvisjón-

föstudagur, maí 19

Tímamót

Á meðan þjóðin æjar og veinar yfir kjaftforu Silvíu Night standa yfir mikil tímamót í lífi undirritaðar. Á morgun mun hún setja upp hvíta húfu og kveðja FG, skólann sem hefur verið stór partur af lífi hennar síðustu fjögur ár.

Nú er bara fokking framtíðin eins og einhver meðstúdent sagði svo skemmtilega og þá kvikna spurningar á við; "hvað á að gera næsta haust?", "ætlaru í háskólann eða fara að vinna?"...?????

Satt að segja hef ég ekki hugmynd um það og læt það bara ráðast á næstu dögum.

www.hrebbna.tk
-stúdent-

p.s. ekki nema þrír dagar í sól,bjór og afslöppun..nánar um það eftir helgi

fimmtudagur, maí 11

Pæling

Er það merki um að maður eigi að taka sér pásu frá próflestri þegar maður er farinn að sjá tvöfalt?

Er kannski annað merki um að maður eigi að taka sér pásu, eða jafnvel að fara að sofa þegar klukkan sýnir 01:30 að staðartíma?

Er jafnvel enn annað merki um það að þú eigir að taka þér pásu þegar þú ert farin að kunna málsgreinina utanbókar vegna þess að þú ert búinn að byrja á henni fimmtán sinnum á síðustu fimm mínútum?

Tjah..maður spyr sig

www.hrebbna.tk
-enn í prófum-

fimmtudagur, maí 4

Myndskilaboð

Myndablogg
Myndina sendi ég
Sent með GSMbloggi Og Vodafone
Ear classic eyrnatappar....bráðnauðsynlegir í próflesturinn
-í prófum-

miðvikudagur, apríl 26

Breyttir tímar

Þegar ég var yngri hélt ég að útlönd væru eitt land og einungis væru til tvö lönd í öllum heiminum: Ísland og Útland

Nú veit ég betur...

www.hrebbna.tk
-Upprifjun-

sunnudagur, apríl 23

Dimmisjon föstudaginn 21 apríl
.......Þessar myndir segja meira en 1000 orð, en myndirnar eru komnar á síðuna í myndaboxið efst í hægra horninu á síðunni.
Í næstu viku koma myndir af dimmisjonkvöldverðinum og djamminu um kvöldið

Takk fyrir áheyrnina

www.hrebbna.tk
-ræjræjræj-

fimmtudagur, apríl 20

Eitt orð

Dimmisjonámorgungvöðhvaðéghlakkamikiðtilbjórbjórogbaragaman!!

Skál í botn!

www.hrebbna.tk
-dimmiterar-

sunnudagur, apríl 9

Af kattamat

Margir hlutir í þessari veröld eru fremur skrýtnir en eitt er mér ekki fært um að skilja.

Hvernig í ósköpunum er hægt að selja fólki bragðbættan kattamat?

Er einhver sem virkilega bragðar matinn áður en hann er settur í skálina fyrir köttinn?
Er einhver sem spyr köttinn sinn hvernig maturinn bragðaðist....og á einhver kött sem svarar til baka með snobbrödd og segist ekki borða kattamatinn vegna þess að hann sé svo bragðvondur?

Þetta er bara einn af mörgun hlutum sem ég get ekki mögulega skilið

www.hrebbna.tk
-skilur ekkert-

mánudagur, apríl 3

Mánudagur

Kæru lesendur.

Í dag er ég var með allan hug við náttúrufræði og sveppagró,
myglusveppi og sveppi yfir höfuð fékk ég það einstaka tækifæri að sjá myndina; Man and fungus.

Myndin fjallaði um líf manna með sveppum, manna með sveppi, og líf sveppa á mjög svo skemmtilegann máta að slíkt hefur ekki sést í fræðslumyndasafni FG

....og vitiði að hverju ég komst að?


Ég get sofið með opin augun!

www.hrebbna.tk
-zzzzzzz-

þriðjudagur, mars 28

Framtíðarvangaveltur

Ung stúlka óskar eftir umsækjanda í starf ráðgjafa.

Ráðgjafi þessi mun hjálpa henni við framtíðarplön, þá sér í lagi aðstoða hana við að ákveða hvað skal gera næsta haust.

Laun eru skv. kjarasamningi , eða tvær kjötbollur á mánuði.

Umsækjendur vinsamlegast hafið samband hér að neðan.

Einnig mega lesendur koma með nokkrar góðar hugmyndir um það hvað ég gæti tekið mér fyrir hendur á komandi hausti.

www.hrebbna.tk
-alveg tóm-

föstudagur, mars 24

Ábendi

Sjá hér

www.hrebbna.tk
-montrass-

p.s. er í fýlu út í blogspot..bloggaði kílómetra langa færslu sem kom ei.

þriðjudagur, mars 14

10/11..þegar þér hentar!

Fyrir þónokkru átti ég leið í fyrrnefnda verslun hér á höfuðborgarsvæðinu.
Ég týndi saman hitt og þetta sem ég ætlaði að kaupa, fann annað sem mig vantaði ekki, hætti við þónokkuð og missti næstum því sultukrukku í gólfið fyrir framan virkilega aðlaðandi mann.

Ég gekk að kassanum og lagði vörurnar á færibandið og leitaði síðan eftir debetkortinu mínu í veskinu.
Þegar afgreiðslustúlkan var búin að renna öllum vörunum í gegnum kassan stoppaði hún við og sagði;

"fannstu allt sem þig vantaði?"

Ég starði spurnaraugum á stelpuna og furðaði mig á spurningunni.
Var eitthvað sem ég hefði átt að kaupa en keypti ekki, var þarna samviskan mín á ferð sem var í raun að minna mig á að ég gleymdi að kaupa rjómann?, eða var stúlkan búin að fylgjast með mér alla búðarferðina og sjá mig taka hinar og þessar vörur upp og leita að öðrum?

Ég rétti henni kortið, og labbaði gapandi hissa út úr versluninni.

Daginn eftir fór ég í þessa sömu verslun og þá var það ungur strákur sem spurði mig þessa sömu spurningar, þá komst ég að því að samviskan mín var ekki að tala við mig í gegnum starfsmann 10/11...þetta var ný herferð hjá fyrirtækinu.

www.hrebbna.tk
- fann allt sem hana vantaði-

föstudagur, mars 10

Móment dagsins:

Þrjár nunnur í bíl að keyra um Garðabæ sjá tvo óprúða stráka sprengja sprengur á gangstétt.

Ein nunna tekur sig til og flautar meðan önnur ullar og gefur frekar ósiðlegt merki með löngutöng.

Svipurinn á piltunum var óborganlegur!

www.hrebbna.tk
-Sister Act-

föstudagur, febrúar 24

Af dagskrárliðum í útvarpi

Fyrir nokkru síðan var undirrituð að hlusta á Rás 1 á leið sinni í skólann af óútskýranlegri ástæðu.
Á dagskránni var morgunleikfimi Rásar 1 .

Er ég hlustaði á rödd konunnar sem leikfiminni stjórnaði fór ég að velta einu fyrir mér.

Ætli hún sem morgunleikfiminni stjórnar sé í stúdíóinu að sprikla,sprella og hreyfa sína leggi hliðar saman hliðar í takt við frekar kjánalegt undirspil eins og spirkleríið á Stöð 2 er, eða er hún sitjandi á stól með kaffibolla að lesa af blaði "hliðar saman hliðar! krossa! upp á tábergið öll sömul!"

Er þetta ekki hálf kjánaleg hugmyndafræði að vera með morgunleikfimi í útvarpi?

www.hrebbna.tk
-morgunhani-

sunnudagur, febrúar 19

Punktur dagsins

Í dag ætla ég að blogga í punktaformi.

  • 12. dagar eða svo í frumsýningu á Sister Act þann 2.mars næstkomandi...stressið farið að gera verulega vart við sig

www.hrebbna.tk
-á róandi-

mánudagur, febrúar 13

Um daginn og veginn

Mánudagur
Stressaður kennaranemi reynir að fanga athygli órólegra nemenda í tíma einum með því að teikna mjög óskýra og illa teiknaða útskýringamynd upp á töflu.
Aftast í stofunni heyrist í nemanda;

Þessi hefur greinilega ekki útskrifast af Listnámsbraut, það er greinilegt!

Bekkurinn hlær og kennaraneminn roðnar sem aldrei fyrr og á þessari stundu minnkar vilji hans til að kenna um helming, það eitt er víst!

www.hrebbna.tk
-styttir sér stundirnar í skólanum-

sunnudagur, febrúar 5

Hingað og ekki lengra!

Já ég segi það og meina af öllu hjarta!

Ég horfi ekki mikið á sjónvarp nema rétt á kvöldin áður en haldið er í háttinn.
En um daginn sat ég og horfði á sjónvarpstöðina Sirkus og fann mig knúna til þess að æla og henda sjónvarpinu mínu út um ofursmáa gluggann í herberginu mínu.

Þátturinn sem var á dagskrá var kenndur við karla og eru Gillzenegger og vinur hans í broddi fylkingar og taka það að sér að breyta prýðisfólki í hnakka með strípur og húð sem er á góðri leið með að fá krabbamein vegna ofnotkun brúnkukrema og ljósabekkja.

  • Ég einfaldlega neita því að æskan gæti verið svo glötuð að finnast þessir þættir góðir, eða jafnvel bara sæmilegir.
  • Ég neita að þetta teljist til afþreyjingarefnis og að fólk skuli vilja komast í þáttinn til þeirra!
  • Ég neita því að Geir Ólafs sé mennskur(eftir um 3 klst. flug frá London með kappann fyrir framan mig get ég hreinlega ekki meir!), sérstaklega eftir að hann kom fram í þessum þætti og fór að sýna blíðuhót við sófa
  • Ég neita því að þeir séu töff...ég tel þá vera glataða

En hver veit, kannski er ég glötuð?
Kannski ætti ég að fara í ljós, fá mér strípur og fara að nota orð eins og köttaður,hellaður,kjelling og tappar, P.I.M.P. og kaupa mér föt fyrir 100. þús krónur á mánuði þó svo að ég skuldi yfir 20.þús í yfirdráttaheimild!

Best að fara að kíkja í orðabók kallana.is og skella mér í ljós!

www.hrebbna.tk
-hel köttuð-

mánudagur, janúar 30

Af heilsugæslustöðvum og heilsu almennt

Undirrituð átti leið á Heilsugæslustöðina Sólvang síðastliðinn föstudag eftir að hafa beðið í eina og hálfa viku eftir tíma hjá heimilislækni.

Þegar ég loksins fékk tíma var ég nýstigin upp úr veikindum(sun-mið) en fór samt vegna annarra mála.

Ég var stödd á biðstofunni.
Róandi saxafónsútgáfur af sígildum smellum hljómuðu í loftinu og ég uppgötvaði að ég var búin að lesa öll blöðin og flestar þær barnabækur sem voru á biðstofunni.
Ég átti erfitt með að halda mér vakandi við þessa róandi tónlist og sá að eldri maður hafði tapað baráttu sinni við Óla Lokbrá og sofnað á meðan hann beið.

Loksins kallaði læknirinn mig upp og ég gekk inn.
Þegar hnémeiðsl síðasta sumars og almenn veikindi höfðu verið rædd spurði hann mig hvort ég væri búin að fá hettusóttarsprautu nokkra sem ég hefði átt að fá sem barn.

Eftir mikla og spennandi leit komst hún að því að svo var ekki, og þá var eina ráðið að sprauta dömuna til þess að hún fengi ekki þessa bévítans hettusótt.

Ég labbaði inn í annað herbergi þar sem hjúkrunarkona tók á móti mér og eftir að hafa spurt mig 5 sinnum hvort ég væri ófrísk var ég farin að verða þónokkuð móðguð og tjáði henni að svo væri líklegast ekki.
Ekki fannst henni "líklega ekki" ekki nógu sannfærandi og spurði því í 6 skiptið hvort ég væri nokkuð ófrísk því þungaðar konur mættu ekki fá sprautuna.
Ég ákvað að svara með staðföstu já.

Eftir sprautuna tjáði hún mér að eftirköstin gætu verið nokkur, jafnvel flensa,ógleði og hiti.


Í dag, tveimur dögum síðar sit ég með stíflað nefn, hita og hálsbólgu...á sama stað og fyrir viku síðan...og borgaði 700. krónur fyrir.

www.hrebbna.tk
-veik-

föstudagur, janúar 13

Góðverk dagsins:

Föstudagurinn 13. janúar kl: 15.32 Fyrrum fréttamaður á leið um Skeifuna og festir risasmáa bílinn sinn í skafli.
Undirrituð og móðir komu honum til bjargar og fengu að launum þakkir frá fréttasnáðanum.


www.hrebbna.tk
-gerir góðverk-

fimmtudagur, janúar 5

Af ástarjátningum

Foreldrar mínir koma frá annari plánetu, eins og hefur margoft sannast.
Þeim finnst ekkert fyndnara heldur en að gera grín í okkur systrum og þá sérstaklega þegar við höfum verið fjarri heimahögum í allnokkurn tíma.

Eins og ritað hefur verið um fór undirrituð fyrr í vetur(nánar tiltekið í nóvember) til hins fyrirheitna lands; Englands og á meðan á dvöl minni þar í borg Lon og Don tóku foreldrar mínir og systir sig til og undurbjuggu enn eitt prakkarastrikið.

Ég kom heim, skellti ferðatöskunni á gólfið og hófst við að týna hitt og þetta upp
úr henni: gjafir handa hrekkjalómunum o.f.l.
Þegar ég hafði nokkurnvegin lent á jörðinni afhenti móðir mín mér bréf sem var stílað á mig og sagðist ekkert vita hvaðan það kom.

Ég hófst handa við að lesa bréfið og hef aldrei verið jafn hissa á ævinni!
Bréfið var einskonar ástarjátning, tjáði söknuð og þrá einstaklingsins á mér og var rétt eins og það væri handskrifað.

Ég starði á fjölskyldumeðlimi með forundrunarsvip og þau störðu bara á móti og spurðu hvers efnis bréfið væri.
Ég las eins og eina línu fyrir þau og ekkert benti til þess að þau stæðu fyrir þessu.

Ég fór að ímynda mér hver hefði getað sent mér svo fallegt bréf, og hvaða ungi piltur það væri sem var svona yfir sig ástfanginn af mér, og hefði hreinlega ekki kjarkinn til að segja mér það undir fjögur augu.

Ég las bréfið og kom að lokalínunum;

Ástarkveðja
Mótframlagið þitt...

Fjölskyldumeðlimir engdust um af hlátri þegar þau sáu vonsvikinn svip á ferðalangnum sem skyldi hvorki upp né niður í þessu öllu saman.

Jæja, ég hef þó allavega fengið eitt ástarbréf frá Landsbankanum

www.hrebbna.tk
-og mótframlagið hennar-