fimmtudagur, janúar 5

Af ástarjátningum

Foreldrar mínir koma frá annari plánetu, eins og hefur margoft sannast.
Þeim finnst ekkert fyndnara heldur en að gera grín í okkur systrum og þá sérstaklega þegar við höfum verið fjarri heimahögum í allnokkurn tíma.

Eins og ritað hefur verið um fór undirrituð fyrr í vetur(nánar tiltekið í nóvember) til hins fyrirheitna lands; Englands og á meðan á dvöl minni þar í borg Lon og Don tóku foreldrar mínir og systir sig til og undurbjuggu enn eitt prakkarastrikið.

Ég kom heim, skellti ferðatöskunni á gólfið og hófst við að týna hitt og þetta upp
úr henni: gjafir handa hrekkjalómunum o.f.l.
Þegar ég hafði nokkurnvegin lent á jörðinni afhenti móðir mín mér bréf sem var stílað á mig og sagðist ekkert vita hvaðan það kom.

Ég hófst handa við að lesa bréfið og hef aldrei verið jafn hissa á ævinni!
Bréfið var einskonar ástarjátning, tjáði söknuð og þrá einstaklingsins á mér og var rétt eins og það væri handskrifað.

Ég starði á fjölskyldumeðlimi með forundrunarsvip og þau störðu bara á móti og spurðu hvers efnis bréfið væri.
Ég las eins og eina línu fyrir þau og ekkert benti til þess að þau stæðu fyrir þessu.

Ég fór að ímynda mér hver hefði getað sent mér svo fallegt bréf, og hvaða ungi piltur það væri sem var svona yfir sig ástfanginn af mér, og hefði hreinlega ekki kjarkinn til að segja mér það undir fjögur augu.

Ég las bréfið og kom að lokalínunum;

Ástarkveðja
Mótframlagið þitt...

Fjölskyldumeðlimir engdust um af hlátri þegar þau sáu vonsvikinn svip á ferðalangnum sem skyldi hvorki upp né niður í þessu öllu saman.

Jæja, ég hef þó allavega fengið eitt ástarbréf frá Landsbankanum

www.hrebbna.tk
-og mótframlagið hennar-

Engin ummæli: