þriðjudagur, janúar 25

Af rigningum

Ég vaknaði í morgun við hljóðin í rigningunni, hvað er yndislegra?

Enn hálfsofandi opnaði ég útidyrahurðina og ætla að arka út í bíl, en finn að ég stíg á eitthvað frekar blautt og kalt og kippi löppinni strax aftur inn, galopna augun og sé að beint fyrir framan útidyrahurðina er risastór pollur, eða poll ætti ekki að kalla þetta heldur einhversskonar afbrigði af tjörn úti á plani.

Ég sá ekki nokkra leið að komast að bílnum án þess að rennblotna upp sð hné, og eftir árangurslausa leit að stóru stígvélunum hans pabba sá ég að nú þyrfti að grípa til örþrifaráða.

Gat ég synt?..ég rifjaði upp allar gömlu "beygja,kreppa,sundur,saman" reglurnar sem ég lærði í barnaskóla og sá að ég gat vel synt, en með þeim afleiðingum að ég kæmist ekki þurr í bílinn.

Gat ég stokkið yfir tjarnarpollinn?..eh, eftir miklar vangaveltur sem snérust aðallega um að meta gamlar einkunnir í leikfimi, þá sérstaklega frjálsum íþróttum útilokaði ég strax þann möguleika.

En stuttu síðar ákvað ég að reyna að stökkva, það færi þá bara illa og svo yrði að vera.

Í hausnum heyrði ég hvatningaróp og uppklapp og tók tilhlaup...og voilá, ég komst yfir án þess að blotna, en reyndar rann ég til í eina hálkublettinum sem eftir var á planinu sem var frekar vont, en ég náði þó að stökkva!

www.hrebbna.tk
-getur flest-



Engin ummæli: