miðvikudagur, mars 30

Ástandið á Álftanesi

Fyrir nokkru ríkti ástand hér á heimilinu.

Húsmóðirin fékk nóg, pakkaði sínu hafurtaski í ferðatösku og strunsaði út um hádegisbil næsta dag beinustu leið upp á Keflavíkurflugvöll og tók fyrsta flug til Amríku.

Þessi uppákoma hefur reyndar verið í aðsigi frá því á aðfangadag en þá einmitt ákvað faðir minn að gefa móður minni farseðil til Amríku(báðar leiðir..furðulegt) svo hún gæti farið að heimsækja systur sína sem er búsett þar.

För þessi leiddi til þess að heimilishald mun liggja niðri í vikur tvær og eina eldamennskan sem fram fer á heimilinu mun vera í formi 1944 örbylgjurétta, enda eru þeir líklegast fleiri en 14 talsins og því hægt að hafa fjölbreyttann matseðil meðan höfuð heimilissins er fjarverandi.

Ástæðan fyrir því að faðir heimilissins fær ekki að elda þessar tvær vikur er sú að í hvert skipti sem höfuð heimilissins heldur utan(sem gerist ekki oft) hefur hann reynt að vera góður við dætur sínar og eldað uppáhaldsmat þeirra; pasta en sú eldamennska hefur tvisvar sinnum komist nálægt því að kveikja í húsinu, eða þá að pastað hefur myndað eins konar hrærigraut sem væri ekki bjóðandi ruslatunnu.

För þessi hefur einnig leitt undirritaða í kynningarferð um heimilistæki sem er til staðar hér í húsinu og fékk undirrituð vægt taugaáfall þegar hún hugðist setja í þvottavél fyrr í kvöld. Þó svo að vélin sé með íslenskum leiðbeiningum þá er hún gjörsamlega torskilin og efast ég ekki um að ég fái hvítu stuttbuxurnar mínar grænmyglulitaðar tilbaka úr þvotti og fjórum númerum of litlar.

Ég kynnti mér einnig eiginleika ryksugunnar um daginn og þvílíkt undratæki er þar á ferð.
Ryksugan, af gerðinni Kurby bættist í hóp fjölskyldunnar um 1990 þegar óprúttinn sölumaður sannfærði móður mína um að þetta væri hin fullkomna heimilishjálp sem henni vantaði. Síðan þá hefur móðir mín elskað ryksuguna sína af öllu sínu hjarta og vart séð okkur systurnar fyrir henni, þá sérstaklega á þeim dögum sem móðir mín kallar hreingerningadaga.
Af einhverjum ástæðum hef ég ávallt verið hrædd við ryksugur, eða hrædd, meira svona skelkuð þegar þær fara í gang. Ástæðuna held ég að megi rekja til þess að þegar óprúttni sölumaðurinn kom á heimili mitt til að sannfæra móður mína um notagildi Kurby ryksugunnar ryksugaði hann upp spariskó Barbídúkkunnar minnar og hef ég aldrei fyrirgefið þessu undratæki þennann hryðjuverknað.

Eftir að hafa ryksugað eitt tvö herbergi ákvað ég að komast í kynni við uppþvottavél heimilissins en þegar ég sá stóru beittu hnífana og öll glösin og diskana skellti ég hurðinni aftur, hljóp inn í herbergið mitt og læsti.

Ég vona að þessar tvær vikur verði fljótar að líða...

www.hrebbna.tk
-gerist ei húsmóðir í bráð-

Engin ummæli: