Sögur af pabba og páskum
Faðir minn er mikill sælkeri, enda ekki að undra því þar er stór og mikill maður á ferð.
Páskarnir eru ein af uppáhalds hátíðum hans, þá sérstaklega út af páskaeggjunum sem tilheyra oft hátíðarhöldunum.
En hann faðir minn hefur ekki átt sjö páskadagana sæla og hefur páskagræðin oft komið í bakið á honum.
Eitt árið var faðir minn búinn með sitt páskaegg, sem er iðulega nr.3 rétt eftir kvöldmat en langaði þó í meira. Við systurnar geymdum eggin okkar inni í ískáp, alveg grunlausar um að faðir okkar mundi taka sig til um nóttina og narta örlítið í þau. Faðir minn tók sig sem sagt til og læddist að nóttu til inn í eldhús og braut eitt stykki úr páskaeggi systur minnar og beit í það, en viti menn, eggið var svo kalt og hart að hann braut tönn í herlegheitunum þannig að daginn eftir komst allrækilega upp um karlinn.
Árið eftir ætluðum við systurnar að taka til hendinni og fela eggin okkar á stað þar sem faðir okkar mundi alls ekki finna þau, eins og t.d. í þvottavélinni eða örbylgjuofninum. En að kveldi annars í páskum fannst föður mínum hann knúinn til að fá sér bita af eggjunum sem voru falin á sitthvorum staðnum og hóf víðtæka leit að kræsingunum og fann loks eggið sem falið var í örbylgjuofninum. Eftir að hafa fengið sér góðann bita af egginu setti hann eggið á sinn stað; eða svo hélt hann, í bakarofninn. Daginn eftir, þegar móðir mín hugðist hita upp páskasteikina kom hún svo auga á eggið og leit ásökunaraugum á karlinn.
Enn komu páskar og nú ætlaði karlinn að vera hress á því og fela eggin sjálfur, en það er hefð að fela eggin og láta eigandann leita af þeim. En það heppnaðist ekki betur en það að karlinn mundi ekki hvar hann faldi þau og þau fundust ekki fyrr en viku síðar en það voru fagnaðarfundir skal ég segja ykkur.
Karlinn hefur líka gert ýmislegt annað eins og t.d. að fela páskaegg undir ofninum inni hjá mér en það var víst bráðnað þegar ég hugðist borða það, óvart borðað allt páskaeggið hennar systur minnar,hennar mömmu og margt fleira sem ég man ekki í augnablikinu.
Nú í ár höfum við ákveðið að kaupa páskaegg nr.5 handa karlinum og eitt númer 3 sem við geymum inni í ísskáp svo hann geti læðst í og látið okkar í friði.
www.hrebbna.tk
-sögur af landi-
Engin ummæli:
Skrifa ummæli