föstudagur, júlí 30

Sessunautar

Ég fór í bíó fyrir þónokkru síðan sem er vart frásögu færandi.
Þessi bíóferð hefði farið í hóp þeirra bíóferða sem gleymast á endandum ef ekki hefði verið fyrir manninn sem við hliðana á mér sat.
Áður en myndin hófst talaði maðurinn óvenju hátt í farsímann sinn, sem var að vísu ekkert að pirra mig.  Í auglýsingunum var hann farinn að hrjóta hátt og snjallt og vaknaði ekki fyrr en maðurinn sem var jafn óheppinn og ég að sitja við hlið hans vakti hann og sagði honum að myndin væri að byrja.
Ég setti mig í stellingar og var tilbúin að horfa á ævintýrin sem áttu eftir að birtast mér á hvíta tjaldinu, en varð fyrir truflun þegar síminn hans hringdi aftur.
Maðurinn svaraði í símann, og aðilinn á hinni línunni hefur greinilega spurt hvort hann væri að trufla og maðurinn svaraði neitandi, hann væri bara í bíó..ekkert að trufla hvað?
Eftir 5 min. símtal skellti maðurinn loks á.
Þegar vel var liðið á myndina gýs upp þessi líka hræðilega fýla allt í einu. Mér var litið á manninn og hann sagði; "afsakið" og brosti út í annað.
Síminn hringdi enn einu sinni og stóð það samtal í þónokkra stund.
Eftir símtalið fór maðurinn að bylta sér óskaplega og spurði mig hvort ég gæti nokkuð fært hönd mína af arminum, hann þyrfti pláss fyrir veika olnbogann sinn, sem ég og gerði.

Loksins kom hléið.
Fólkið sem ég var með spurði hvernig mér líkaði myndin, og þá áttaði ég mig skyndilega á því að ég hafði varla einbeitt mér að myndinni, maðurinn fór svo rosalega í taugarnar á mér.

Hléinu lauk og fólk streymdi aftur inn í salinn og ég hugsaði hvort ég ætti nú ekki bara að færa mig aðeins neðar, sem ég gerði.

Fjórum sætaröðum neðar seig ég niður í sætið mitt, og beið spennt eftir að myndin byrjaði á ný.
Myndin var komin vel á veg þegar ég heyrði í ungri móður sem sat einni röð fyrir neðan mig útskýra fyrir ungum syni sínum hvað væri að gerast.  Sonurinn spurði í sífellu hvað hver og einn væri að segja, og móðirinn þýddi af einstakri prýði ensku orðin fyrir hann.
Eitthvað varð syninum bilt við og grátur hans ómaði um allan bíósalinn.
Aumingjans móðirinn fór afsíðis með soninn og kom ekki aftur.

Nálægt mér hringdi enn annar síminn, og fleiri bættust í hóp pirrandi bíógesta.
Beint fyrir framan mig stóð hávaxinn maður upp, og stóð í dágóðann tíma og var að reyna að fá unga dóttur sína á klósettið.

Myndinni lauk og bíógestir streymdu úr salnum.
Vinir mínir fóru yfir myndina, skemmtilegustu atriðin og þau leiðinlegustu.
Ég áttaði mig á því að ég hafði misst af öllum stóru og mest spennandi atriðunum út af fólkinu sem nálægt mér sat.

Ég held ég verði bara heima næst þegar vinir mínir fara í bíó.

 

 

Engin ummæli: