Af jólaglöggum
Já, þetta voru nú aldeilis gleðileg jól.
Dagurinn byrjaði á léttri vinnu til 14, og svo var haldið heim þar sem manni var hent undir kalda sturtu, sökum þreytu og greiddur og klæddur í fermingargallann. Síðan var mér tilkynnt hátíðlega að þetta væri eina árið sem mér hefði ekki borist eitt einasta jólakort. Og hvað með það sagði ég nú bara.
Farið var með pakka til krakka sem hoppuðu og skoppðu, uppfull af spenningi og tekið var á móti pökkum frá foreldrum barnanna sem voru komið með hausverk og báðu þess heitast að klukkan færi nú að slá sex svo að börnin mundu setjast niður stillt og prúð og vera hljóð í örstutta stund.
Eftir öll þessi ósköp kom ég heim, og var þess vör að hvítur bleðill stóð hálfur út og hálfur inn í bréfalúgunni. Mér varð hugsað það þetta væri líklegast enn eitt jólakortið til systur minnar, en viti menn á því stóð "Hrefna".
Jólakort þetta var frá konungi selfoss, Steina.
En ég er samt alveg viss um að öll jólakort sem áttu að berast til mín hafi borist til tveggja alnafna minna, eða að jólapósturinn hafi komist í sterkt jólaglögg móður minnar sem borið var á borð á þorláksmessu í stíl við kæsta skötuilminn, og villst með póstinn í næsta hús.
Er klukkan sló sex færðist friður yfir göturnar og steikt svínið var borið á borð ásamt fríðu föruneyti meðlætis.
Þegar heimilisfólk hafði étið yfir sig var ákveðið að nú skyldi opna pakkana.
Það sem ástkærir ættingjar gáfu mér var m.a:kápa,föt,nokkur af helstu verkum Shakespears,forláta dvd mynddiskur,tveir geisladiskar og geislaspilari.
Geislaspilari þessi á að vera mp3 spilari í senn, en reyndar hef ég ekki fundið út hvernig hann virkar og af hverju spilarinn neitar að spila hvern einn og einasta disk sem ég á. Kannski er það af því hann er frá U.S.A?
En nóg um jólagjafir og kort í bili, hvernig voru ykkar jól kæru lesendur?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli