miðvikudagur, desember 22

Þorláksmessa

Síðan ég hef munað eftir mér hefur Þorláksmessa alltaf runnið upp eins og hver annar dagur, nema það að á henni er styttra í jólin sjálf heldur en hina daga ársins!

Það sem allra helst einkenndi þó daginn forðum daga var að fjölskyldan sameinaðist öll, uppábúin í bifreið fjölskyldunnar og keyrði sem leið lá niður á laugarveg þar sem síðustu jólagjafirnar voru keyptar og rölt um í rólegheitum með jólaandann svífandi um loftin blá.

En eftir að maður eldist og byrjaði að vinna eins og geðsjúklingur hefur þessi hefð farið forgörðum.

Það eina sem minnir mig núna, á fullorðinsárum á Þorláksmessu og kemur mér í virkilegt jólaskap er þessu viðurstyggilega fýla af skötu nokkurri sem móðir mín eldar hvert ár.
Lyktin dreifist um húsið, og aðrir heimilismeðlimir sem hafa sjálfskapað ofnæmi fyrir þessu annars ágæta sjávardýri flýja einn af öðrum inn í sitt eigið herbergi til að verjast lyktinni, sem er þó varla hægt að gera!
En öll elskum við lyktina, því hún kemur manni í virkilegt jólaskap!

En nú virðist sem húsmóðirin á heimilinu ætli ekki að elda neina skötu þetta árið..en hvað verður þá um jólin?

Koma jólin án skötulyktar?

Ef frúin lætur ekki undan mótmælum mínum virðist staðan vera sú að ég þarf að labba milli kjötborða í Kringlunni og fá skötulykt í krukku og taka með mér heim á leið!

Þeir sem telja sig geta séð af eins og einum skötubita, bara út af lyktinni eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við undirritaða..annars verða jólin eins og hvert annað matarboð!...og sá sem telur sig hafa sannfæringarkraft, öflugri en minn getur haft samband við móðir mína og reynt að kippa þessu í lag!

www.hrebbna.tk
- og skatan-

Engin ummæli: