þriðjudagur, maí 27

Í þá gömlu góðu daga
Mig langar að deila með ykkur sögu.
Þessi saga fjallar um 3 ungar meyjar, Viggu, Ingu og Mig, Hrefnu.
Þegar við vorum í 7unda bekk fannst okkur ekkert magnaðra en leikarar og leikhús. Ef við sáum leikara úti á götu féllum við í stafi og duttum í drulluna af hrifningu.
Á þessum tímum var svokallað Leikhússport alltaf í Iðnó á mánudögum kl:20:00.
Þessi keppni í Leikhússporti var kennd við Fresca og hét hún Fresca bikarinn.
Við bókstaflega lifðum fyrir þetta og borguðum okkur inn á hvert einasta kvöld sem voru um átta talsins.. sem sagt 8000 kall.
Alltaf vorum við með Fresca í hönd, þótt engin af okkur drykki þennan viðbjóð sem okkur fannst þá.
Við sátum alltaf í fremstu röð í salnum, sama þótt það kostaði að mæta kl 18:30 til að bíða í andyrinu á Iðnó.

Þessi keppni snérist um spuna, að spinna leikþátt o.s.frv og voru alltaf tvö lið að keppa á móti hvoru öðru og eitt liðið bar sigur úr býtum og hitt liðið fór heim með sárt enni.
Ef minni mitt bregst mér ekki þá skörtuðu tvö úrslitaliðin þessum leikurum..
lið nr1:Linda Ásgeirsdóttir, Kjartan Guðjónsson, Gunnar Hansson og Sveinn Þórir Geirsson og
lið nr2:Bergur Þór Ingólfsson, Árni Pétur Guðjónsson, Stefán Jónsson og Halldóra Geirharðsdóttir.
Auðvitað héldum við með liði nr1, því þar var okkar kona, Linda sem kenndi okkur leiklist á þessum tímapunkti.
Eftir á var alltaf siður hjá okkur að fara bakvið Iðnó þar sem leikararnir kældu sig gjarnan niður með opna hurð og spjalla við þá.. jafnvel fá eina eiginhandaráritun eða svo.. og okkur var alltaf vel tekið.

Ég sakna þessa gömlu góðu daga.

En í morgun er ég leit í Morgunblaðið sá ég viðtal við Jón Gunnar Þórðarson sem var að fjalla um góðverk sem leikhópurinn Ofleikur gerði fyrir Perluna, leikhóp fatlaðra.
Þar var tilkynning um að Ofleikur ætlaði að vera með leikhússport í Iðnó annað kvöld kl 20:00 og yljaði mér um hjartarætur og hef ég varla hlakkað jafn mikið til á minni 17 ára ævi. Þó ekki sé um atvinnuleikara að ræða eru þetta góðkunnigjar okkar og við hlökkum mikið til að fara.

Ps.. ef þið sjáið þrjár ungar meyjar um kl 18:30 við Iðnó, vinsamlegast klappið þeim á bakið og hrósið þeim í hástafa.. þær hafa þörf á því greyjin.

Engin ummæli: